Færsluflokkur: Dægurmál
27.2.2008 | 17:18
"Týndir og slasaðir..."
Týndir og slasaðir bíða menn bana
bægslast á hrossum um grundir og hlíð
en ég hefi hingað til haft fyrir vana
að horfast í augu við það sem ég ríð
Svo orti, að ég held, Hákon Aðalsteinsson, stórskáld, um hestamenn forðum daga. Mér datt þessi vísa í hug um leið og ég var að skipuleggja öryggisnámskeið fyrir hestamenn en þar er einn dagskrárliðurinn sá að læra að detta af baki! Hrossa- og sjóndeprumál hafa átt hug minn allan þessa dagana á milli þess sem ég hef þeyst um "grundir og hlíð" þó ekki á hrossi - heldur vélfuglum og vélfákum til skiptis. Íslenskir knapar hafa dottið óþarflega oft af baki undanfarin ár og slasað sig auk þess sem knapar þarfasta þjónsins, vélfáksins, skirrast oft og tíðum við að nota gleraugun sín í umferðinni.
Aukabúgreinin mín, útvarpsþáttagerðin, hefur einnig verið fyrirferðamikil og þá einkanlega Dr. RUV en efnið í þann góða þátt hef ég sótt víða um land á ferðum mínum. Þá er tilhlökkunarefni að vinna páskaþátt um fermingar en sú vinna er að hefjast og afraksturinn verður opinber kl. 16.07 á annan í páskum.
Nú er ég að þjóta af stað í Efstaleitið á vit Doktorsins sem á morgun fjallar um Samstöðu, slysalausa sýn sem eru baráttusamtök um bætta umferðarmenningu. Sú afurð verður í loftinu á morgun kl. 15.30. Og hana nú!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.2.2008 | 16:01
Góð ferð norður
Þóroddur er undurfallegur hestur sem Birkir, skólameistari getur verið stoltur af - enda á hann hlut í honum. Knapinn er Daníel Jónsson.
Norðurferð okkar Elísabetar Tryggadóttur, samstarfskonu minnar, tókst afar vel. Þetta var frumraun Elísabetar á forvarnasviðinu. Vonandi féllust henni ekki hendur eftir þessa upplifun þar sem um er að ræða eina erfiðustu yfirferðina á vetrinum. Við heimsóttum MA, Framhaldsskólann á Laugum og Framhaldsskólann á Húsavík og héldum alls 6 umferðarfundi. Norðurferð okkar Elísabetar Tryggvadóttur, samstarfskonu minnar, tókst afar vel. Þetta var frumraun Elísabetar á forvarnasviðinu. Vonandi féllust henni ekki hendur eftir þessa upplifun þar sem um er að ræða eina erfiðustu yfirferðina á vetrinum. Við heimsóttum MA, Framhaldsskólann á Laugum og Framhaldsskólann á Húsavík og héldum alls 6 umferðarfundi. Eins og alltaf er sérstaklega gaman að koma að Laugum og í Framhaldsskólann á Húsavík. Valgerður skólameistari á Laugum var því miður ekki við en þess tók ég smá pólitíska umræðu við Arnór Ben, sem er einn kennaranna og að auki gamall vinur. Alltaf hressandi að ræða pólitík við Arnór - enda maðurinn fjallskemmtilegur. Þá er Birkir skólameistari á Húsavík ekki síðri - en umræðan á kennarastofunni snerist aðallega um hross og þá einkanlega afkvæmi Þórodds frá Þóroddsstöðum! Birkir er heittrúaður hestamaður og ekki leiðinlegt að ræða það áhugamál okkar beggja.
Síðari daginn heimsóttum við Lísa MA þar sem við töluðum yfir tæplega 300 nýnemum. krakkar voru dásamlegir, einu orði sagt. Það er ekki sjálfgefið að fá athygli ungmenna á þessum aldri óskipta - en þannig var það í MA. Það er einstakt að heimsækja MA - vel tekið á móti okkur og skipulagið til fyrirmyndar á allan hátt.
Það voru þreyttar "umferðarkonur" sem lentu heilu og höldnu í Reykjavík á sjötta tímanum í gær. Önnur fór beina leið heim, spennt að hitta börnin sín þrjú, en hin fór Ríkisútvarpið og kláraði Dr. Ruv þar sem fjallað var um umdeilda kvartmílubraut sem á að staðsetja á milli hesthúsahverfanna á Akureyri. Undarleg ráðstöfun það - enda hræðast hestar fátt meira en hávaða sem borist getur frá alls kyns ökutækjum sem þar verða. Ef þessar hugmyndir ná fram að ganga er það ávísun á stórslys, eins og Ólafur Hjálmarsson, hljóðverkfræðingur, kemst að orði í þættinum í dag.
Bóndi minn tók vel á móti spúsu sinni, örþreyttri, með snitsel í matinn. Svaf eins og engill eftir vel heppnaða ferð norður í land.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2008 | 15:09
Ófærð á morgun?
Á morgun er ætlunin að fljúga til Akureyrar til þess að sækja fund hjá Hestamannafélaginu Létti og Landssambandi hestamanna. Rætt verður um öryggismál í hestamennsku sem ekki virðist vera vanþörf á miðað við alltof tíð hestaslys undanfarin ár. En svo er aftur spurningin hvort flogið verður norður miðað við veðurfréttir því mér skilst að á leiðinni sé ein dýpsta lægð sem komið hefur lengi. Svo er aftur spurning hvort ég kemst til baka ef ég á annað borð kemst norður. Þetta veldur mér hugarangri þar sem fátt finnst mér leiðinlegra en að vera veðurteppt úti á landi. Reyndar varð ég einu sinni veðurteppt í þrjá daga í Bolungarvík en það var þó ekki leiðinleg dvöl að bíða eftir flugi þar vestra því ég hef aldrei kynnst eins mörgu góðu fólki og þessa þrjá daga. Vinkona mín, Sossa, dró mig í hver matarboðið á fætur öðru og því leiddist mér ekki eina mínútu. Sú lífsreynsla var öðruvísi en sú sem ég upplifði í Vestmannaeyjum nokkrum árum áður þegar ég sat og beið eftir að komast annað hvort með flugi eða Herjólfi upp á land í þrjá daga. Þá var ég ein og yfirgefin á hóteli í Eyjum og lét mér leiðast. Í Eyjum er nefnilega engin Sossa eins og í Bolungarvík.
Snjórinn gerir mér lífið leitt. Mér leiðist ófærð. Bíð spennt eftir vorinu þegar ég get farið að gramsa í garðinum mínum við álfahúsið mitt í Norðurbæ Hafnarfjarðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.2.2008 | 10:40
Athyglisverður Jón Gnarr og klisjukennd Pressa.
Ég sat við sjónvarpið í gærkveldi og horfði á Sjálfstætt fólk og Pressuna. Fyrri þátturinn var tær snilld. Ég hef lengi fylgst með Jóni Gnarr - og reyndar lengur en nokkurn grunar því ég vann með föður hans í mörg ár, Kidda Óskars, sem var lengi á sömu vakt og ég í löggunni í gamla daga. Þá frétti ég af og til af litla pönkaranum hans Kidda Óskars og vissi að hann var svolítið ódæll á tímabili. En það hefur sannarlega ræst úr litla pönkaranum sem nú er einn besti gamanleikari okkar. Reyndar er Jón meira en gamanleikari - því frammistaða hans í dramatískum hlutverkum er ekki síðri, sbr. þær kvikmyndir hann hefur leikið í. Leikur hans í Næturvaktinni var eftirminnilegur því þar tókst honum að draga upp mjög "tragíkómíska" mynd af vansælum manni.
Í þættinum í gær tók ég sérstaklega eftir ákveðnum ummælum Jóns sem gengu út á það hvernig sumt fólk stjórnar líðan annars fólks sem þögninni einni og svipbrigðum. Það er hverju orði sannara. Alltof margir ýta undir óframfærni og vanlíðan þeirra sem minna mega sín með því að nota augnaráðið og svipbrigðin - án þess að setja aukatekið orð. Það er nefnilega hægt að segja svo mikið með þögninni og andlitinu - bæði jákvætt og neikvætt.
Jón Gnarr kom mér skemmtilega á óvart með hógværð sinni og hreinskilni. Ég las Indíánann hans af mikilli athygli og þótti bókin vel skrifuð og umhugsunarverð.
Pressan stóð ekki undir væntingum mínum. Sjálf hef ég bæði verið lögga og blaðamaður og þekki því vel til verka á báðum vígstöðvum. Atburðarrásin var nokkuð ýkt og ósannfærandi auk þess sem mér er til efs að vinnubrögð á ritstjórnum fréttablaðs séu eins og þau voru fram sett í þessum þáttum. Kvikmyndataka og leikur var þó hvoru tveggja til fyrirmyndar. Sérstaklega þótti mér leikur hinna lítt reyndu leikara góður og sannfærandi. Sviðsleikararnir áttu til að ofleika, sénstaklega Þorsteinn Gunnarsson og sá sem lék lögreglumanninn (man ekki í svipinn hvað hann heitir). Sá var klisjukenndur, líkt og ritstjórinn á fréttablaðinu. Ég er fyrir löngu orðin leið á þeirri klisju að blaðamenn séu stressaðir stórreykingamenn og löggur séu töffarar. Þannig er það bara ekki í raunveruleikanum nema í undantekningartilfellum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2008 | 16:37
Gaman að vinna með ungu og áhugasömu fólki.
Ég fæ stundum aðstoð í vinnunni; þ.e. fæ að leita eftir kröftum ungs fólks til þess að taka þátt í umferðarfundum VÍS fyrir ungt fólk. Í gær kom ung samstarfskona mín, Elísabet, í fyrsta skipti með mér á umferðarfund í Þjónustumiðstöð VÍS þar sem við tökum á móti ungmennum reglulega. Elísabet hefur unnið með mér í nokkur ár en hún vakti fyrst athygli mína (ótrúlegt en satt) á blogginu! Ég sá að nokkuð var varið í þessa ungu konu þar sem hún býr yfir mannlegum kærleik og innsæi en hvoru tveggja eru mikilvægir eiginleikar þeirra sem taka að sér að fjalla um jafn alvarleg mál og afleiðingar umferðarslysa. Lísa, en svo er unga samstarfskonan mín kölluð, verður án efa góður fyrirlesari og fræðari ungs fólks því persónutöfrar hennar muni ekki fara framhjá neinum.
Á þessum fjórtán árum sem ég hef stundað forvarnafræðslu á þessu sviði, hafa fjölmargir einstaklingar komið mér til aðstoðar. Það kostar töluverða þjálfun og nokkurn tíma að ná leikni í því að tala við ungt fólk um þennan mikilvæga málaflokk. Það er heldur ekki öllum gefið að tala yfir stórum hópi fólks. Þau ungmenni sem unnið hafa með mér hafa undantekningarlaust talað um hversu mjög þessi vinna hefur þroskað þau og hvað þau hafi lært mikið á samstarfinu. Það þykir mér óendanlega vænt um. En því miður missi ég þau oft frá mér í önnur störf hér innan VÍS - enda er ég ekki sú eina innan fyrirtækisins sem er á höttunum eftir hæfileikaríku fólki. Ég get þó ekki annað en glaðast yfir velgengni þeirra á öðrum vettvangi innan fyrirtækisins - þó ég vildi gjarnan hafa þau lengur með mér.
Ég hlakka til að vinna með Lísu og vona að hún eigi eftir að finna sig í forvarnastarfinu. Það yrði mér, "gömlu konunni"´í faginu mikið gleðiefni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.1.2008 | 14:26
Samviska og heiðarleiki vs. pólitísk völd.
Ég hef satt að segja fengið ónotalegt "flashback" þegar ég hef fylgst með pólitíkinni að undanförnu. Þessi ósköp minna mig óþægilega á minn stutta pólitíska feril á árunum 1989-1993, held ég það hafi verið. Það var á þeim árum sem ég hélt að pólitík snérist um hugsjónir og málefni. Ég var ekki lengi að átta mig á að svo er ekki. Pólitík snýst fyrst og fremst um stóla og völd þar sem enginn er annars bróðir í leik. Ég var svo bláeyg og samlaus að halda að ég gæti boðið mig fram í prófkjöri Alþýðuflokksins á sínum tíma - á mínum eigin verðleikum. Ég komst að því, vonum seinna, að svo er ekki - heldur skiptir baktal, plott og kaupmennska þar öllu máli. Sú hörmungarsaga verður ekki rekin hér en eitt er víst að það eru fleiri hnífasett sem notuð hafa verið til að vega mann og annan í pólitíkinni en þau sem Framsóknarflokkurinn hefur yfir að ráða.
Þegar völdum er náð virðist það vera lenska innan stjórnmálaflokkanna að verja gerðir flokksins fram í rauðann dauðann - hversu mjög sem menn eru á móti gjörningnum. Persónulegur vinur minn, sem fylgst hefur með atburðum síðustu viku og er sannur fylgjandi þeirra og talsmaður, þ.e. opinberlega, sagði mér í tveggja manna tali að hann væri með óbragð í munninum og liði skelfilega að "þurfa" að verja þetta. Þegar ég spurði af hverju hann verði þetta var svarið einfalt: "Ég get ekki annað. Ég ætti mér enga framtíð innan flokksins ef ég gerði það ekki."
Fyrir nokkrum árum var ég fengin í útvarpsþáttinn "Í vikulokin" ásamt fleirum. Einn þátttakenda var borgarfulltrúi í Reykjavík á þeim tíma. Í þættinum varði hann með kjafti og klóm þá ákvörðun flokksins síns að kaupa Línu-Net ef ég man rétt. Þetta var umdeild ákvörðun og þegar við komum út úr Útvarpshúsinu, spurði ég hann hvort hann væri virkilega þeirrar skoðunar sem hann útlistaði í þættinum. "Nei, þú skalt ekki halda það, Ragnheiður. Ég bara verð að verja þetta bull á meðan ég er borgarfulltrúi."
Því miður virðist sem sannfæringin og heiðarleikinn hverfi eins og dögg fyrir sólu þegar sest er að kjötkötlunum. Menn eru tilbúnir að selja sálu sína fyrir völd, eins og dæmin sanna - hvar sem þeir eru í flokki.
Mikið er ég lánsöm að hafa ekki selt sálu mína á altari stjórnmálanna - því það er sannarlega það sem menn neyðast til að gera - ætla þeir sér landvinninga á því sviði. Pólitíkin er því sannarlega vond tík og ég get ekki annað en vorkennt því góða fólki og vel gefna sem nú neyðist til að verja gjörninga sem eru þeim þvert um geð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2008 | 09:51
Í fjötrum búrkunnar...
...er nafn ritgerðar sem við vinkonurnar, ég og sonardóttir mín Steinunn, skrifuðum saman í gærkveldi. Þetta frábæra barnabarn mitt las "Þúsund bjartar sólir" og fékk það verkefni að skrifa ritgerð um bókina. það tókst svona dæmalaust vel og amman skemmti sér konunglega - því það er ekki á hverjum degi sem hún fær tækifæri til að skrifa um fagurbókmenntir. Unglingurinn hafði unnið heimavinnuna sína vel og hafði miklar skoðanir á efni bókarinnar; þ.e. kúgun og misbeitingu á konum í Afganistan. Afi tók sig til og prentaði ritgerðina og gat stelpunni sinni fallega möppu undir hana. Það var glaður tvíburi sem hélt heim á leið undir miðnættið og auðvitað keyrði amma hana heim.
Nú fer að styttast í heimkomu sonar míns og tengdadóttur frá Florida en þau eru verðandi foreldrar, þ.e. barnið þeirra á að fæðast í maí. Mér skilst að búið sé að tæma barnafataverslanir vestan hafs!
Litli námsmaðurinn er í Viborg og spjallar við mömmu daglega. Sífellt blankur í útlandinu. Sjálf er ég á kafi í umferðarfundum í framhaldsskólum og er enn alveg hissa á því hvað mér finnst þetta skemmtilegt ennþá - eftir 14 ár! Í gær fór ég í Kvennó og heimsótti lífsleiknitíma sem vinkona mín, Ragnhildur Guðjónsdóttir, hefur umsjón með. Í kaffinu spunnust fjörugar umræður um ástandið í pólitíkinni í borginni - en mín kæra vinkona er hreinræktuð sjálfstæðiskona og hélt uppi öflugum vörnum fyrir sitt fólk í pólitíkinni. Við tókumst svolítið á en allt í góðu - enda er vinátt okkar hafin yfir alla pólitík. En mikill óskaplegur hiti er í fólki vegna þessa máls. Þar gildir einu hvoru megin það er í pólitíkinni. Mér virðist sem flokkbræður Raggýar minnar séu ekki síður svekktir með sitt fólk. Þeir eru samt ekkert að flíka því opinberlega - tala þess meira á kaffistofunum.
Dægurmál | Breytt 27.1.2008 kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.1.2008 | 11:02
Ég man hvar ég var stödd...
...þegar ég frétti að eldgos væri hafið í Eyjum. Þetta var snemma morguns, þann 23. janúar árið 1973. Ég var að vinna hjá þáverandi leikhússtjóra Leikfélags Reykjavíkur, Vigdísi Finnbogadóttur, sem færði mér fréttirnar um leið og hún sótti mig og son minn þennan morgun til vinnu. Ástríður litla fósturdóttir mín svaf í burðarrúmi í aftursætinu og sonur minn, Svavar, var að verða eins árs. Allan þennan dag hlustaði ég á fréttir Ríkisúrvarpsins og fylgdist með komu flóttafólksins til upp á land.
35 ár liðin. Ótrúlegt. ´
Ég man líka hvar ég var stödd þegar Kennedy var skotinn tíu árum fyrr. Þá átti ég heima á Skaganum. Ég sá móður mína, íklædda Hagkaupsslopp, í stofunni að hlusta á fréttir. Allt í einu fór hún að gráta og kallaði til okkar: "Hann Kennedy er dáinn". Þannig var nú það.
Svona stóratburðir hjálpa mér oft að staðsetja aðra atburði í lífi mínu.
Atburðir síðustu daga eru marka ekki spor í líf mitt - nema hvað ég mun alltaf minnast aulahrollsins sem fór niður eftir hryggsúlunni á mér þegar ég sá aumkunarverðar persónur á Kjarvalsstöðum gera sig fíflum. Ég spyr bara: Ef menn eru svona uppteknir af því að koma hinum góðu kosningaloforðum sínum í framkvæmd, af hverju skiptir borgarstjórastóllinn svona miklu máli? Eru það hagsmunir borgarbúa sem eru hafðir að leiðarljósi þegar menn deila með sér þessu embætti? Hefði Ólafur F. Magnússon ekki getað komið málefnaskrá sinni í framkvæmd þótt hann hafi látið Sjálfstæðismönnum, sem eru með miklu meira kjörfylgi, eftir þetta embætti?
Er einhver í vafa um það hvað þetta snýst allt saman um? Ekki ég. Þetta heitir einfaldlega valdagrægði. Mér verður óglatt og ég vorkenni þessu fólki.
35 ár frá gosinu í Heimaey | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2008 | 10:29
Endurfundir á blogginu.
Aldrei hefði ég trúað því hversu öflugt bloggið er. Hér fæ ég samband við gamla vini sem ég er fyrir löngu búin að missa af; veit ekki hvar þeir eru niðurkomnir fyrr en þeir hafa allt í einu samband í gegnum þennan frábæra miðil. Í eina tíð var ég í sveit á Krossi í Austur-Landeyjum og passaði þar litla stelpu sem nú er komin á fimmtugsaldurinn. Lóa litla er orðin þriggja barna móðir og amma!
Myndin af mér hér til hliðar er tekin þegar Tómas minn, hjartkæri kötturinn minn, var á lífi. Hann varð 15 ára en var í 6 ár í "fóstri" hjá Ásu ömmu, sem lést, langt fyrir aldur fram, fyrir 5 árum. Þá tók ég Tómas aftur til baka - enda gat Ása amma ekki lengur hugsað um hann; orðin fársjúk á sjúkrahúsi. Ég heimsótti Ásu, síðustu mánuðina hennar, á sjúkrahúsið með Tómas í búri. Kötturinn stökk upp í rúmið til Ásu og það urðu miklir fagnaðarfundir. Nú er Ása öll og Tómas minn líka. Það var því sannarlega ánægjulegt þegar dóttir Ásu, Regína, hafði skrifaði gestabókarfærslu hér á bloggið og sagði mér frá því sem ég vissi; þ.e. hversu mjög Ása amma hafði elskað Tómas sinn.
Ása verður mér alltaf minnisstæð og á sérstakan sess í hjarta mínu vegna þess hversu mikill dýravinur hún var alla tíð. Hún var líka einstök kona sem ég kynntist því miður of seint. Ég hefði viljað eiga fleiri ár með henni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.1.2008 | 23:23
Gamli bærinn.
Ég bjó í 27 ár í Þingholtunum; 27 árum of lengi. Ég fór í langan göngutúr í kvöld um gamla Miðbæinn og sá þá hversu lánsöm ég var að flytja þaðan. Mér fannst ég fá innilokunarkennd þegar ég gekk niður Laugaveginn - enda fátt sem ég saknaði. Laugavegurinn er ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var. Hver verslunin af annarri farin á hausinn og þær sem eftir eru þaktar veggjakroti. Má ég þá frekar biðja um Hafnarfjörðinn þar sem maður hefur svigrúm til þess að hreyfa sig. Mikið þótti mér gott að renna inn í Heiðvanginn að lokinni vettvangsferð um gamla bæinn.
Litli námsmaðurinn minn er 24 ára í dag. Það er erfitt að hafa hann ekki hjá sér núna. Það er einhvern veginn svo lítið líf í húsinu eftir að hann fór aftur eftir jólin; tónlist Sigurrósar hefur þagnað í bili og engin blaut handklæði og sokkar á víð og dreif um baðherbergið.
Á morgun ætla ég að heimsækja systur mínar sem búa í Hveragerði og á Selfossi. Ég tek litlu Melkorku, skábarnabarnið mitt, með mér en hún bætir mér upp smábarnabarnaleysið. Tvíburarnir mínir, barnabörnin mín, eru orðnar ungar konur og önnur komin með kærasta og farin að ganga í fötum frá ömmu sinni! Ég fór með þeim og móður þeirra á stórsveitartónleika Bubba og það var sannarlega ánægjuleg stund þegar þrjár kynslóðir skemmtu sér konunglega á sömu tónleikunum!
Englar dauðans bíða á náttborðinu mínu en ég var að ljúka við Lásasmiðinn hennar Elísabetar Jökulsdóttur. Ég gerði heiðarlega tilraun til þess að kaupa mér "Himnaríki og helvíti" í Máli og menningu á Laugaveginum í kvöld en sú bók er uppseld og fæst ekki í neinni bókabúð. Það er þó tilhlökkunarefni að eiga hana eftir.
Í gær fór ég á minningarathöfn um Eyjólf Jónsson, sundkappa og fyrrum samstarfsmenn í lögreglunni. Það er e.t.v. kaldhæðnislegt að setja að það hafi verið gaman að sækja þessa minningarathöfn - en þar hitti ég alla gömlu góðu samstarfsmennina mína í lögreglunni; karlana mína sem eru hættir störfum. Það urðu sannarlega fagnaðarfundir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Skoðanir mínar
Bloggvinir
- omarragnarsson
- attilla
- konukind
- kolbrunb
- eddabjo
- annabjo
- helgasigrun
- olinathorv
- rheidur
- steingerdur
- annagisla
- sifjar
- berglist
- reynirgudjonsson
- gudrunmagnea
- kjarrip
- hhk
- loathor
- abg
- asabjorks
- astar
- gattin
- rustikus
- saxi
- ellasprella
- eythora
- fararstjorinn
- lucas
- kokkurinn
- hemba
- nonniblogg
- kolbrunerin
- hjolaferd
- larahanna
- lillagud
- lindagisla
- fjola
- stebbifr
- sveinni
- steinibriem
- thorasig
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar