Færsluflokkur: Dægurmál
28.3.2008 | 22:13
Ótrúlegir vegir sem Vestfirðingum er boðið uppá.
Það hreint með ólíkindum hvað Vestfirðingum á sunnanverðum Vestfjörðum er boðið uppá í samgöngumálum. Ég fór í fundaferð á Patreksfjörð og pantaði mér flug á Tálknafjörð. Flugvélin sem ég átti að fara með bilaði og því varð ég að aka báðar leiðir þar sem ég varð að vera komin vestur á tilteknum tíma. Vegirnir á Barðaströndinni eru skelfilegir. Mér er til efs að útlendingar teldu sig vera á þjóðvegi, miðað við ástand þeirra. Stóran hluta leiðarinnar er ekkert símasamband sem hlýtur að teljast mikið óöryggi fyrir vegfarendur. Til marks um það má geta þess að frá Bjarkarlundi og að Patreksfirði mætti ég aðeins þremur bílum. Ef eitthvað hefði komið uppá á þessum kafla, t.d. ef ég hefði velt bílnum, hefði engin leið verið fær til að láta vita af slysinu. Örfáir bæir í byggð eru á þessum slóðum og því síminn eina tækið sem gæti komið að gagni. Leiðin norður til Ísafjarðar frá Patreksfirði er að öllu jöfnu ófær yfir vetrartímann og því eiga Patreksfirðingar engan annan kost en að fara til Reykjavíkur ef þeir þurfa á þjónustu að halda sem ekki er veitt á staðnum. Þá er stundum skondið að heyra fréttir frá Umferðarstofu eða Vegagerðinni þar sem sat er að allir vegir á landinu séu færir þegar allt er ófært innan Vestfjarða. Það er eins og þessi landshluti sé ekki talinn með þegar fjallað er um færð, að minnsta kosti er ekki talað um Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar í því sambandi.
Vestfirðingar eiga betra skilið í vegamálum enda veit ég ekki betur en þeir greiði sömu gjöld og aðrir til vegamála, t.d. í eldsneytissköttum. Ég dáist að æðruleysi Vestfirðinga í samgöngumálum.
Hið jákvæða við þessa ferð vestur voru hinar stórkostlegu móttökur sem ég fékk hjá eldri borgurum og nemendum grunnskólans og framhaldsdeildarinnar. Ég var með forvarnafundi á öllum stöðunum sem tókust afar vel. Kærar þakkir, Patreksfirðingar. Þið björguðuð sálarheill minni eftir aksturinn vestur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.3.2008 | 20:58
Tími til kominn að mæla hraða í íbúðagötum.
16 óku of hratt í íbúðargötu í Hafnarfirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.3.2008 | 12:26
Bestu páskar í langan tíma.
Það var furðu margt í ræktinni í morgun - enda fleiri en ég sem tóku daginn snemma og skelltu sér í líkamsrækt til þess að brenna af sér páskakalóríunum. Sjálf var ég í heilsugírnum þessa páskana; át bara grænmeti og hollustu. Lét pákaeggin í friði. Ég varði páskunum í lestur og hvíld og er nú tilbúin í slag næstu viku sem felur m.a. í sér ferðalag á Patreksfjörð ef veður lofar. Þetta er í annað sinni sem ég reyni ferð á Patreksfjörð þar sem ég ætla að vera með fyrirlestur um slysa- og tjónavarnir hjá eldri borgunum og svo hefðbundna forvarnafræðslu meðal framhaldsskólanema.
Í dag verður litli sæti páskaþátturinn minn á dagskrá á rás 1 kl. 16.07. Ég er pínulítið kvíðin - en tel mig þó ekki þurfa að vera það vegna þess að viðmælendur mínir eru svo einstaklega góðir. En maður veit aldrei hvað hlustendum finnst. Það er orðið svo langt síðan ég vann svona samsettan þátt fyrir RUV, auk þess sem tækninni hefur fleygt fram í upptökum. Nú mætir maður ekki lengur með spólurnar sínar undir hendinni og lætur tæknimanninn um klippingarnar. O, nei. Nú þarf ég að klippa sjálf hljóðskrárnar heima í tölvunni minni, geyma þær síðan á diski og síðan sér tæknimaðurinn um að setja þáttinn saman. En vonandi verður þetta í lagi.
Páskahelgin hefur verið ljúf. Lítið um stórsteikur en meira um andlegt fóður. Trén í garðinum klippt og allt klárt fyrir vorið sem mætti alveg fara að láta bera meira á sér. Ég er að velta því fyrir mér hvort ég eigi að leggja á Hellisheiðina og heimsækja systur mína í Kríumýri, austan Selfoss. Gæti líka hugsað mér að fara í göngutúr með Tinnu, labradorhund sonar míns og tengdadóttur. Veit ekki hvað verður ofan á og læt það ráðast á meðan ég hlusta á fréttirnar. Heyri að ein bílvelta hafi orðið um páskana. Vona að það sé ekki alvarlegt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.3.2008 | 10:45
Dásamlegur föstudagur.
Það vara yndislegt að vakna í morgun og líta út um gluggann og sjá vetrarblíðuna sem brostin er á hér í Hafnarfirðinum. Þessi dagur verður nýttur vel. Í gær fjárfestum við hjónakornin í voldugum trjáklippum sem notaðar verða til þess að klippa þau tré sem ég hef aldrei haft rænu á að klippa áður en þau vaxa mér yfir höfuð og tínast í laufum! Nú verður þetta gert á réttan hátt - enda var ég með garðyrkjufræðing í þættinum mínum, Dr. Ruv um daginn sem sagði mér allt um trjáklippingar. Ég get því ekki verið þekkt fyrir að vera með minn eigin garð óklipptan.
Þá er meiningin að halda í World Class og æfa svolítið - enda eru þeir svo elskulegir að hafa opið á föstudaginn langa - eitthvað sem þekktist ekki hér áður fyrr þegar ALLT var lokað þennan dag. Ég man að faðir minn, sálugi, varð eitt sinn sígarettulaus á föstudaginn langa og það endaði með því að hann fékk vin sinn, þjón á veitingahúsi, til að sækja fyrir sig sígarettur eftir að hafa leitað um allan bæ að opinni búð eða sjoppu.
Í lok dags ætla ég síðan að heimsækja leiði Atla sonar Maríönnu vinkonu minnar og setja á það ljós. Mæsa vinkona er í Kaupmannahöfn yfir páskana og getur því ekki heimsótt Alta sinn þessa páskana. Það er mér ljúft að fara þangað í dag - enda alltaf ákveðinn friður sem færist yfir mig þegar ég heimsæki kirkjugarðinn.
Mér er ekki til setunnar boðið, garðurinn bíður.
Njótið bænadaganna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.3.2008 | 22:36
Skemmtilegar annir að baki.
Páskar. Kærkomin hvíld framundan eftir langvarandi vinnuálag. Eitt síðasta verkið mitt fyrir páska var að heimsækja Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Þar hitti ég árlega hinar ágætu vinkonur mínar í kennarastétt, Gullu, Sigrúnu og Önnu Maríu sem sitja alltaf við sama kennaraborðið og skemmta mér þegar ég kem, tvisvar á ári og boða "fagnaðarerindið" í formi umferðarslysaforvarna. Stelpurnar tala alltaf um Ragnheiði "vorboða" því þegar ég kem á vorönnina, er stutt í kennslulok.
Í dag kláraði ég páskaþáttinn minn hjá RUV sem fjallar um fermingar fyrr og nú. Þetta verkefni hefur tekið mikinn tíma en jafnframt verið mjög skemmtilegt. Ég ræði við fjögur "fermingarbörn" á öllum aldri og fær þau til að minnast fermingarinnar sinnar. Ný vinnubrögð hjá gamla góða RUV kalla á tækniþekkingu sem ég er að kynnast núna. Allt er klippt í tölvuforritum og því hef ég notið góðar aðstoðar frá mínum ágæta eiginmanni, sem hefur klippt fyrir mig viðtölin í tölvu sem ég hef síðan brennt á disk og farið með til ungu strákanna á RUV sem framkalla hreina galdra í tölvunni. Það er af sem áður var þegar maður kom með spólurnar, tímaklipptar, inn í stúdíóið. Nú er allt tölvuvætt og geymt á miðlægum gagnagrunni. Það var mikill léttir þegar ég hafði sett saman þáttinn, sem ber nafnið "Gengið fyrir gafl" og er á dagskrá á annan í páskum kl. 16.05.
Drengirnir mínir fóru í sumarbúðastaðinn um páskana með konunum sinum og við gömlurnar erum heima og hvílum lúin bein. Páskarnir eru hvíldardagar og ekkert umstang á þessu heimili. Ég mun nýtá þá í að lesa allar bækurnar sem ég keypti á bókamarkaðnum en þarf missti ég mig enn eina ferðina og bar út bílfarma af bókum sem bíða lesturs.
Hlakka til að mæta til vinnu á þriðjudaginn. Í þeirri viku fer ég vestur á Patreksfjörð þar sem ég ætla að halda forvarnanámskeið fyrir eldri borgara og umferðarfundi í skólunum. Alltaf gaman að koma vestur - enda eru Vestfirðir mér mjög kærir. Svo kemur þriðja barnabarnið mitt í maí og það er drengur. Þá verður gaman hjá ömmunni. Gleðilega páska.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2008 | 15:57
Varúð. Bifhjólamenn sjást illa í umferðinni.
Því miður virðist alltof algengt að ökumenn aki undir áhrifum fíkniefna. Almenningur er oft ekki meðvitaður um fíkniefnanotkun við akstur - enda finnst oft engin lykt af fólki sem neytt hefur fíkniefna, öfugt við ölvaða ökumenn þegar áfengislyktin kemur upp um þá.
Ég þekki dæmi lögregluembætti úti á landi þar sem lögreglumenn gerðu "rassíu" og könnuðu ástand allra sem óku tiltekna götu á ákveðnum tíma. Tekið var þvagsýni/blóðsýni eftir atvikum og kom í ljós að fjórðungur ökumenna var með fíkniefni í líkamanum. Menn gera sér e.t.v. ekki grein fyrir að fíkniefni geta mælst í líkamsvessum í allt að fjórar vikur eftir að þeirra er neytt.
Á þessum árstíma fer vélhjólum fjölgangi á götum og vegum og það hefur því miður oft í för með sér fleiri umferðarslys sem tengjast vélhjólum. reynslan sýnir að í flestum tilfellum eru hjólamenn í umferðarlagalegum rétti, þ.e. þeir eiga oftast ekki sök á slysinu/óhappinu þegar um tvö ökutæki er að ræða. Við skýrslutöku kemur oft í ljós að sá sem olli slysinu sá ekki vélhjólið. Vélhjólamenn eru oftar en ekki dökkklæddir á dökkum hjólum og falla því oft inn í umhverfið, þ.e. götuna eða veginn. það er því sérstök ástæða til að vera aðra ökumenn við vélhjólamönnum og hvetja þá til að líta vel í kringum sig. Vélhjólaslys eru ein alvarlegustu slys á fólki sem þekkjast í umferðinni. Vélhjólamaðurinn er ekki með bílbelti eða hús yfir sér eins og þeir sem aka bifreiðum og því verða áverkar ökumanna þeirra oft mun meiri en annarra.
Ökumaður olli slysi undir áhrifum fíkniefna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2008 | 13:24
Aukabúgreinin mín...
Aukabúgreinin mín er fyrirferðarmikil með fullu starfi. Í eina tíða þótti mér ekki tiltökumál að vinna í fullu starfi sem ritstjóri, stjórna einum útvarpsþætti í viku og skrifa heila bók - allt á sama tíma! Það sem ég yngist ekki með árunum fer ekki hjá því að allt aukastúss, meðfram vinnu, taki sinn toll. Auk minnar fyrirferðamiklu vinnu sem forvarnafulltrúi hjá VÍS, með tilheyrandi ferðalögum, sé ég um Dr. RUV þáttinn minn vikulega og tók svo líka að mér að vinna páskaþátt fyrir vinkonu mína, Dr. Sigrúnu Stefánsdóttur, sem stýrir útvarpsrásum RUV af miklum myndarskap. Þetta er auðvitað afskaplega gaman og þá ekki síst að fá að kynnast útvarpsstemmningunni aftur. En... það tekur á að mæta með upptökutækið út á akurinn og klippa svo efnið heima í tölvunni, setja saman í hljóðveri og klára þetta dæmi fyrir páska. Þátturinn minn heitir "Gengið fyrir gafl" og er um fermingar fyrr og nú, eins og nafnið gefur til kynna. Ég ræði við fólk á misjöfnum aldri um þessi miklu tímamót í lífi þess og spila fallega tónlist á milli atriða. Líklega hef ég ekki gert mér grein fyrir tæknibyltingunni sem orðið hefur í upptökumálum í útvarpi - enda fékk ég vægt taugaáfall þegar ég sá öll diggital tækin og forritin sem ég þarf að nota til að koma saman einum þætti! Hér áður fyrr rogaðist ég með stórt og þungt gamaldags upptökutæki, segulbandsspólum, tók upp viðtölin mín, tímaklippti þau og fékk svo einn hinna frábæru tæknimanna RUV til að setja saman þáttinn. Þá var bandið bara límt saman og engar tölvur til að flækja málin. En nú er öldin önnur og ekki alveg í takt við tækniþekkingu dagskrárgerðarmannsins sem áður mætti með segulbandshlunkinn. En þolinmæði tæknideildar RUV eru engin takmörk sett og því hefur þetta allt saman lukkast blessunarlega. Árangurinn má heyra í RUV á annan í páskum kl. 16.05.
Um helgina ætlar forvarnafulltrúinn og dagskrárgerðarmaðurinn að hvíla sig eftir erilsama daga. Það verur kærkomin hvíld. Ætli ég skreppi ekki og heimsæki systur mínar fyrir austan fjall og taki með mér Steinunni, tvíbura, sem fallið hefur svolítið í skuggann af systur sinni, söngdrottningunni. Steinunn mun kannski leggja á með ömmu sinni og ríða út - en hún er einkar lagin hestakona og listakona - enda teiknar hún og málar af viðlíka snilld og systir hennar syngur. Ekki amalegt að eiga svona dásamlegar sonardætur.
Svo eru bara tveir mánuðir í fæðingu sonarsonarins sem von er á um miðjan maí. Hvort hann verður eins listhneigður og systur hans, er ekki gott að spá um - en líklegt er það þar sem móðir hans er listhneigð á sviði hönnunar og er lærður skraddari. Það er því allt eins víst að enn bætist í listamannaflóruna í stórfjölskyldunni. Hlakka til.
Myndin hér að ofan er af systrunum, litlum, ásamt konu sem þjóðin þekkir, Vigdísi forseta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2008 | 14:20
Stolt amma í öryggismálum!
Það var stolt amma sem horfði á barnabarnið sitt syngja í Kastljósinu í gærkveldi. Það var ekki leiðinlegt að sjá hvað stelpan stóð sig vel. Amman var dregin út úr skólastofu í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti þar sem hún var að uppfræða ungviðið um hætturnar í umferðinni og sett framan við hljóðnema og myndavél. Afskaplega skemmtileg tilbreyting að fá að tala um annað en umferðaröryggi í fjölmiðlum og ekki sakar að umræðuefnið er hæfileikarík sonardóttir. Síminn minn hefur varla þagnað vegna hamingjuóska með barnið og amman auðvitað að rifna af stolti. Systursonur minn, Davíð Smári, er einnig söngvari góður svo varla verða vandræði með söngatriði í fjölskylduboðum í framtíðinni. Eitt er víst að þessi tvö hafa ekki sönghæfileikana frá mér - enda er mér margt betur til lista lagt en að syngja.
Öryggisnámskeiðið á Hvanneyri gekk vel og allir afar sáttir. 50 manns mættu og höfðu bæði gagn og gaman af. Frábært fólk í LBHÍ á Hvanneyri stóð vel að námskeiðinu með VÍS og Reynir Aðalsteinsson, tamningasnillingur, sýndi hvernig umgangast á hesta og skilja táknmál þeirra. Það er rétt eins og ósýnilegur strengur sé á milli Reynis og hestsins - svo ótrúleg er næmni hans í samskiptum við hesta. Á myndinni hér að ofan er auk mín Rúnar Þór Guðbrandsson, frá VÍS og Elsa Albertsdóttir, doktorsnemi og hestakona sem var aðal fyrirlesarinn á námskeiðinu.
Hér má sjá upptöku úr Kastljósinu í gær.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2008 | 23:22
Hestadagur á Hvanneyri, sigur á Samfés og litli námsmaðurinn minn kominn í heimahagann!
Þetta er Stefanía mín að syngja sigurlagið á Samfés.
Góð helgi að baki. Í gær, laugardag, var ég allan daginn á Hvanneyri og á Mið-Fossum þar sem VÍS var með öryggisnámskeið fyrir hestamenn í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands. Námskeiðið heppnaðist afar vel og það var þreyttur en ánægður forvarnafulltrúi sem kom heim síðla dags, tilbúinn í að tak á móti litla námsmanninum mínum sem kom í dag heim frá Danmörku með hæstu einkunn frá skólanum sínum í Viborg.
Það var reyndar þreföld ástæða til að fagnaðar í fjölskyldunni; vel heppnað námskeið á Hvanneyri, Stefanía sonardóttir mín vann Samfés söngvakeppnina og litli námsmaðurinn kominn heim. Ekki minna en tvö lambalæri dugðu til að fagna í dag. Níu manns við litla borðstofuborðið mitt í Heiðvanginum, auk okkar hjónanna voru synir okkar og tengdadætur, Steinunn og Stefanía, barnabörnin mín, og Jón Oddur kærasti Stefaníu söngdrottningarinnar.
Á morgun tekur við annasöm vinnuvika. Margir umferðarfundir í framhaldsskólunum og upptaka á tveimur útvarpsþáttum; Dr. RUV á miðvikudaginn og páskaþættinum "Gengið fyrir gafl" sem verður á dagskrá á annan í páskum. Nóg að sýsla næstu daga.
29.2.2008 | 13:40
Af hestamönnum og afkvæmum.
Helgin framundan og miklar annir, sem aðallega felast í fyrirlestrahaldi og ferðalögum, að baki í bili. Og þó! Ein Akureyrarferð eftir. Hún skal farin síðla dags í þeim erindum að sækja öryggisfund hestamannafélagsins Léttis á Akureyri kl. 16.30 í dag. Þeir Léttismenn eru að berjast gegn lagningu akstursíþróttasvæðis í Glerárdalnum þar sem þeir telja að hætta geti stafað af hljóðmengun frá brautinni. Skil vel áhyggjur þeirra - enda er svæðið fyrirhugað á milli hesthúsahverfa þar nyrðra. Sjálf er ég að þykjast vera hestakona, þótt ástundun nú um stundir sé fátækleg. Hestar óttast hávaða og þá einkanlega hvelli og drunur, sbr. ótta þeirra við rakettur og skothvelli um áramótin.
Ég ætla líka að nota tækifærið og hitta mína ástkæru vinkonu, Sigrúnu Ólafsdóttur, fyrrum samstarfskonu mína úr lögreglunni og fjallgönguvinkonu, en hún dvelur lögnum norðan heiða í faðmi unnusta síns sem er norðanmaður. Ég hlakka til að hitta unnustann því ég er nánast farin að halda að maðurinn sé huldumaður vegna þess að mér hefur ekki auðnast að sjá hann nema í mýflugumynd á þeim þremur árum frá því þau byrjuðu sitt góða samband. Það kann að helgast af landfræðilegum annmörkum og skal nú úr því bætt.
Gracía mín, afríska dóttir mín, er að verða þriggja ára í næsta mánuði og mér barst ný ljósmynd af henni. Hún hefur vaxið og dafnað síðan ég sá hana síðast og það er komið blik í augun á henni og fallegt bros. Hitt barnið mitt sem er í útlöngum (því Gracíu kalla ég barnið mitt) er í Danaveldi og er væntanlegt heim eftir nokkra daga eftir að önninni í skólanum hans, jóska, er lokið. Þá verður aftur líf og fjör í húsinu í hrauninu í Hafnarfirði; tómar og hálfdrukknar gosflöskur fara birtast, skítugir sokkar hér og þar, tómir pítsukassar og fleira sem tengist ungu fólki - svo ekki sé talað um háværu tónlistina sem mun óma um húsið á næstunni. Já, og tómur ísskápur! En yndislegt verður að fá slánann minn aftur í Heiðvanginn.
Þá er annað karlmenni væntanlegt í fjölskylduna, nefnilega fyrsti sonarsonur minn - en fyrir á ég tvær gullfallegar og gáfaðar tvíburasonardætur á 16. ári. Hvað ég hlakka til að verða amma á ný en það skal alveg viðurkennt að ég hefði varla vit á ömmuhlutverkinu þegar það bankaði uppá - enda varla komin af unglingsaldri sjálf! En nú skal farið í ömmugírinn og það mun gerast um miðjan maí þegar prinsinn kemur í heiminn.
En nú eru það hestamenn norðan heiða og ástfangið vinafólk sem mun eiga hug minn allan næstu klukkutímana. Svo kemur helgin og vonandi blessað vorið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Skoðanir mínar
Bloggvinir
- omarragnarsson
- attilla
- konukind
- kolbrunb
- eddabjo
- annabjo
- helgasigrun
- olinathorv
- rheidur
- steingerdur
- annagisla
- sifjar
- berglist
- reynirgudjonsson
- gudrunmagnea
- kjarrip
- hhk
- loathor
- abg
- asabjorks
- astar
- gattin
- rustikus
- saxi
- ellasprella
- eythora
- fararstjorinn
- lucas
- kokkurinn
- hemba
- nonniblogg
- kolbrunerin
- hjolaferd
- larahanna
- lillagud
- lindagisla
- fjola
- stebbifr
- sveinni
- steinibriem
- thorasig
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar