Færsluflokkur: Dægurmál

Gott að eiga góða að.

Nú er heilsan á uppleið en ótal rannsóknir framundan. Í gær lét ég mig hafa það að fara í afmæli móður minnar en var hreint af manni gengin eftir það; lúin og sveitt. Ég sótti bílinn minn í leiðinni á Selfoss en minn góði samstarfsmaður, Reynir, á foreldra á Selfossi. Reynir lét fara með bílinn heim til foreldra sinna sem gættu hans fyrir mig. Það er ekki ónýt að eiga góða að þegar á bjátar. Vinkona mín, Ólína Þorvarðardóttir, færði mér engil sem heldur á kerti og lét þess getið í leiðinni að mér veitti ekki af verndandi engli og ljósi þess dagana. Tengdadóttir mín, Sonja, gengin átta mánuði með sonarson minn, lét sig hafa það að koma til mín á spítalann og vera hjá mér á svartasta tímabilinu þar og svo mætti lengi telja.

Auðvitað setur svona dæmi allt á annan endann í lífi mínu og starfi. Ég verð að fresta fjölmörgum verkefnum, eins og ég hef áður sagt, og svo var ég  t.d. staðráðin í að mæta á hið árlega Dýrfirðingakaffi, sem haldið var í dag,  en af því varð ekki. Þá var ég búin að ákveða að hlaupa 10 km í næsta Reykjavíkurmaraþoni og fleira og fleira. Nú hefur fleygur verið rekinn  í gegnum allar áætlanir og það er ekkert gott að sætta sig við það. En skynsemin ræður. Ég get að minnsta kosti bloggað meira en áður (hef tíma) og lesið færslur vina minna.

Ekki meira að sinni - en ég ætla að hafa næstu færslu skemmtilega. Veikindatal er mér ekki að skapi.


Helreiðin

Mér datt í hug að birta eitt af örfáum ljóðum sem ég hef þorað að láta frá mér í gengum tíðina. Það á vel við um þessar mundir þegar okkkur berast fréttir af alvarlegum umferðarslysum:

 

Helreiðin

Í ljósaskiptunum vakna frísandi vélfákar malbiksins.

Undir gljáfægðum mökkum leynast dulin öfl

sem bíða þess að spretta úr spori

á biksvörtum skeiðvelli

í helreið hinna útvöldu.

 

Lausgirtir knapar horfast í augu

undir tindrandi blikvitum

slá þeir undir nára

og hverfa í blásvartan jóreyk götunnar.

 

Um himininn þeysa goðin á leirljósum gæðingum eilífðarinnar

og jóreykur þeirra speglast í brostnum augum stálfáks

sem hnaut á miðri leið.

 

Með vanga við völl

grætur knapi dumbrauðum tárum

sem hverfa í bikið.


Vondir dagar sem fara batnandi.

Slysaalda gengur yfir landið. Það virðist ekki ein báran stök. Það er erfitt að liggja heima í veikindum og heyra af öllum þessum slysum. Verst er sú tilhugsun að ef til vill hefi mátt koma í veg fyrir sum þeirra ef vegamálayfirvöld hefðu brugðist strax við ábendingum um lagfæringar á merkingum á Reykjanesbrautinni.

Veðrið hefur verið mjög gott að undanförnu og því enn erfiðara að hanga innan dyra og ná kröftum. Ég er svo lánsöm að eiga heim í skjólgóðu hverfi í Hafnarfirði og get því setið stund og stund úti á sólpallinum mínum og sleikt sólina. Það léttir sálartetrið sem er ekki upp á marga fiska núna.

Bloggið hjálpar mér. Þar kemst ég í snertingu við lífið og get lesið blogg vina minna og meðtekið góðar óskir frá þeim. Það er mér mikils virði.

Litli nýi sæti bíllinn minn er austan heiða og er það í vörslu góðs fólks. Ég veit ekki enn hvort hann er skemmdur eftir útafaksturinn en það skiptir mig engu máli. Hann má laga. Sálin mín er á uppleið núna en ég hef verið afskaplega döpur og niðurdregin undanfarna daga. Á morgun ætla ég þó að fara austur og sækja bílinn minn, þ.e. sonur minn og eiginmaður sjá um þá hliðina en ég ætla að hitta móður mína sem dvelur hjá systur minni til þess að halda uppá 75 ára afmæli sitt. Það er ljósið í myrkri lífs míns um þessar mundir. En öll él styttir upp um síðir.

Kærar kveðjur og þakkir fyrir baráttukveðjurnar sem mér hafa borist. Ég held ég sé eins og kötturinn - ég á níu líf (þótt sum séu þegar farin) og kem alltaf niður á fjóra fætur.


Erfitt að halda sig frá vinnunni.

Það getur verið erfitt að vera veikur - sérstaklega í starfi eins mínu þar sem tíminn er fyrirfram ákveðinn og bókanir á hinum ýmsu atburðum. Hið slysalega atvik á Suðurlandsveginum á þriðjudagsmorguninn setti öll mín plön í uppnám. Útvarpsþátturinn minn var ekki unninn, forvarnafundum frestað og svo mætti lengi telja. Þessa dagana er ég að ná kröftum eftir þetta skelfilega krampakast en ég er nánast lurkum lamin eftir ósköpin; með harðsperrur í öllum líkamanum, stingi í höfðinu og máttlaus eins og slytti. Í morgun fór ég í heilalínurit og í næstu viku halda áfram ýmsar rannsóknir. Krafturinn í vinstri helmingi líkamans er að koma til baka og allt á góðri leið. Eftir stendur samt óvissan. Hvað olli þessu? Það er verst að takast á við óvissuna. En vonandi kemur eitthvað út úr öllum þessum rannsóknum svo hægt verði að takast á við þennan "sjúkdóm" sem vissulega setti líf mitt á annan endann. En... ég er dugleg í Pollíönnuleiknum og hann hefur reynst mér vel.

Nú sit ég hér við tölvuna og svitna við það eitt að skrifa á lyklaborðið.  Úti er dásamlegt veður sem ég hefði alveg kosið að nýta í annað en veikindi hér heima. "Þú ert slæmur sjúklingur" sagði Jói minn og meinti að ég tæki veikindin ekki nógu alvarlega. Ég væri sífellt að svara tölvupósti og redda málum í vinnunni. Það kann að vera rétt - en ég er nú einu sinni þannig að ég vil standa við gefin loforð svo fremi sem ég stend á fótunum. Á laugardaginn var ég búin að lofa mér á námskeið hjá Rauða krossinum þar sem ég átti að tala um forvarnir í hestamennsku. Dagurinn í dag hefur farið í að reyna að finna staðgengil minn, senda upplýsingar og fræðsluefni frá mér og senda afboðanir á fundi og mannamót sem ég var bókuð á.

Mér finnst þetta slæmt mál og get ekki beðið eftir því að batna og halda á, eins og amma mín sagði alltaf uppá vestfirskuna.


Lánið í óláninu. Erfið lífsreynsla.

Í gær varð ég fyrir þeirri skelfilegu lífsreynslu að lenda utan vegar á Suðurlandsvegi við Kögunarhól. Það kom ekki til af góðu þar sem ég fékk e.k. flogakast eða annað óskilgreint tilfelli sem enn er í athugun. Ég náði að aka út í kantinn en man lítt eða ekki eftir því sem á eftir kom nema hvað ég man eftir yndislegum manni og konu sem hjálpuðu mér á staðnum. Því miður veit ég ekki nöfn þeirra en þau reyndust mér afar vel á staðnum. Ég dvaldi heilan dag slysadeild LSP og naut þar frábærrar umönnunar.

Ég er á batavegi en fyrir liggur að ég þarf að gangast undir miklar rannsóknir. Það tókst þó að útiloka heilablæðingu eða annað viðlíka alvarlegt. Ég er auðvitað afar þakklát fyrir að hafa getað brugðist strax við og hægt ferðina og ekið útaf veginum án þess að skaða aðra vegfarendur. Það hefði verið óbærileg tilhugsun.

Nú jafna ég mig heima og vonast til að komast aftur til vinnu sem allra fyrst. Ég fékk lítilsháttar máttleysistilfinningu í vinstri hlið líkamans en það er allt að koma til baka.

Þótt atvikið hafi vissulega verið óhugnanlegt og litið illa út á tímabili, leitar hugur minn frekar til aðstandenda mannsins sem lést í umferðarslysi á sama tíma og ég var enn í sjúkrabílnum á leið til Reykjavíkur. Þá var einnig ungur maður sem lést í slysi í gær, þannig að mitt tilfelli er ekkert til að tala um í samanburði við raunverulegan harm þeirra sem syrgja nú ástvini sína.

Mig langar að koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra sem hjálpuðu mér og hlúðu að mér á slysstað í gær. Ef einhver veit nöfn þeirra langar mig til að þakka þeim persónulega. Ekki síður er ég þakklát sjúkraflutningamönnum sem sannarlega kunni sitt fag.

 


Bílbeltin - alltaf!

 

 

slys6

Nánast daglega heyrum við fréttir af hörmulegum umferðarslysum þar sem fólk bíður bana eða slasast mjög alvarlega. Í alltof mörgum tilfellum kemur fram í fréttinni að farþegar og/eða ökumaður hafi kastast út úr bílnum. Fyrir þrjátíu árum hefði það ekki þótt sérstaklega fréttnæmt þótt fólk kastaðist út úr bílum t.d. við útafakstur eða í bílveltum. Í dag, árið 2008,  25 árum eftir lögleiðingu bílbelta á Íslandi hlýtur það að teljast undarlegt að enn skuli berast fréttir af fólki sem kastast út úr bílum með skelfilegum afleiðingum. Það þýðir nær undantekningarlaust að bílbeltin voru ekki spennt í umrætt sinn. Í starfi mínu sem forvarnafulltrúi VÍS ferðast ég mikið um þjóðvegi landsins og ek iðulega landshornanna á milli – jafnt sumar sem vetur Víða í þéttbýli á landsbyggðinni má sjá fólk aka um götur án bílbelta og lítil börn sitja laus í fram- eða aftursætum bíla. Afsökun heimamanna fyrir þessu hátterni er oft sú að það taki því ekki að spenna beltið eða setja barnið í stólinn þær stuttu vegalengdir sem farið er! Slíkur hugsunarháttur er ekki aðeins fáránlegur – heldur lífshættulegur. Þá hefur þráfaldlega sést til sumra ökumanna fólks- og vöruflutningabíla sem ekki nota bílbelti undir stýri á þjóðvegum landsins. Sumir þeirra eru haldnir þeim misskilningi að þeir séu undanþegnir notkun bílbelta – en auðvitað er það fjarri lagi eins og reglugerð um undanþágu á notkun bílbelta kveður skýrt á um. Sömu sögu er að segja af mörgum leigu- og sendibílstórum sem telja sig undanþegna notkun bílbelta þegar þeir stunda leiguakstur. Svo er auðvitað ekki í öllum tilfellum  – enda gildir undanþága sendibílstjóra aðeins í örfáum undantekningartilfellum þegar um er að ræða dreifingu á vörum á milli húsa. Undanþága leigubílstjóranna er á sömu forsendum og lögreglumanna, þ.e. af öryggisástæðum og því eingöngu gild þegar þeir flytja farþega. Við allan annan akstur er bæði leigu- og sendibílstjórum skylt að nota bílbelti – svo ekki sé talað um vöru- og fólksflutningabílstjórana sem aldrei eru undanþegnir bílbeltanotkun  nema þar sem hætta er á skriðuföllum og snjóflóðum. Þá skal tekið fram að í einstaka tilfellum fá ökumenn læknisvottorð sem undanþiggur þá frá notkun bílbeltis en slík tilfelli eru afar fátíð. Notkun bílbelta bjarga mannslífum. Um  það vitna fjölmörg dæmi.


Skemmtilegur félagsskapur.

Ég átti afskaplega skemmtilegan forvarnafund með mæðrum i litlu bæjarfélagi. Þær koma saman reglulega með ungbörnin sín og ræða ýmis mál og fá gjarnan gest í heimsókn til þess að fjalla um ýmis mál er varða börn. Í þetta sinn kölluðu þær á mig til þess að ræða öryggismál barna í víðasta skilningi. Eftir að hafa haldið fyrirlestur um varnir gegn slysum í heimahúsum, sem og utandyra, fórum við yfir ýmiss konar öryggisbúnað sem hægt er að kaupa til þess að tryggja öryggi barnanna auk þess sem ég skoðaði barnabílstóla mæðranna í bílunum sem voru fyrir utan og gaf góð ráð. Á eftir var mér boðið í kaffi með heimabökuðu góðgæti.

Þetta var afskaplega skemmtileg stund  með ungu mæðrunum og gaman að fá að sjá öll þessi fallegu börn. Það vakti athygli mína að þessi félagsskapur, sem ætlaður er ungum foreldrum, samanstóð af konum, eingöngu. Þarna var sem sagt enginn pabbi. En félagsskapurinn var skemmtilegur og mannbætandi.


Glæsileg, upprennandi söngstjarna.

Hér kemur myndband með sonardóttur minni, Stefaníu Svavarsdóttur, þegar hún söng lagið Fever í Kastljósinu á dögunum. Það er fært inn fyrir þá mörgu sem misstu af söng hennar. Njótið heil. 


Enginn hagnast nema lyfsalarnir.

Fyrir margt löngu þók ég þátt í stofnun Félags krabbameinsveikra barna og vann meðal annars að fjáröflun fyrir félagið. Ég tók að mér að hringja í nokkra lyfsala í þeirri von að þeir létu eitthvað af hendi rakna til félagsins svo létta mætti undir með fjölskyldum krabbameinsveikra barna. Ég bjóst við afar jákvæðum viðbrögðum, einkanlega vegna þess að fólk með krabbamein er einn stærsti viðskiptavinur lyfsalanna - enda krabbameinslysin ekki aldeilis ódýr og álagning lyfsalanna ekki í lægri kantinum. Ég var í senn hissa og vonsvikin þegar ég fékk hverja synjunina á fætur annarri meðal lyfsalanna. Upp úr krafsinu höfðust heilar 5000 krónur (að vísu fyrir 17 árum) en það framlag kom frá fremur litlum lyfsala á landsbyggðinni. Nokkrir einstaklingar í fjölskyldu minni eru langveikir, þ.e. með sjúkdóma sem læknavísindin hafa ekki enn fundið lausn á; þ.e. þeir verða að taka lyf af hinum ýmsu gerðum. Sumir þessara sjúkdóma eru þess eðlis að læknar reyna hin ýmsu lyf í þeirri von að þau lini þjáningar sjúklinga sinna og virki á viðkomandi sjúkdóm. Og þar er ég komin að kjarna málsins: Þeir "reyna" lyfin á sjúklingum sínum og ef þau virka ekki eru skrifaður út annar skammtur af öðrum lyfjum. Það sem vekur furðu mína og reiði er sú staðreynd að sjúklingurinn er látinn kaupa stóran skammt af lyfinu, án þess að nokkur vissa sé fyrir því að það virki á hann. Ef það virkar ekki, situr sjúklingurinn uppi með stóran skammt af lyfjum sem hann er búinn að greiða háar fjárhæðir fyrir auk þess sem Tryggingastofnun greiðir mun hærri upphæð fyrir skammtinn sem aldrei verður notaður. Sjálf fékk ég einu sinni lyf sem átti að virka á tiltekinn kvilla og kostaði sá skammtur 5.700 krónur auk þess sem TR greiddi heilar 28.000 að auki fyrir skammtinn. Ég reyndist hafa ofnæmi fyrir lyfjunum og þegar betur var að gáð, stóð í leiðbeiningunum að ein af algengustu aukaverkununum væri ofnæmisviðbrögð! Þegar læknar ávísa lyfjum, sem kosta sjúklinginn stórar fjárhæðir auk þess sem ríkið ber enn hærri kostnað, þætti mér eðlilegra að sjúklingurinn fengi "prufuskammt" ef lyfið skyldi ekki henta. Í lyfjaskápum fjölskyldu minnar má finna mikil "verðmæti" í ónotuðum lyfjum sem senn enda í eyðingu hjá Sorpu. Í sumum tilfellum er aðeins búið að taka 2-5 töflur af viðkomandi lyfjaskammti. Til þess að kóróna vitleysuna skrifa læknar oft upp á 3-6 mánaða skammt "af því að er hlutfallslega ódýrara fyrir sjúklinginn." Ég vona svo sannarlega að lyfsalarnir séu ekki illa haldnir og geti séð af nokkrum krónum til krabbameinsveikra barna og annarra sem verða að eiga við þá viðskipti, hvort sem þeim líkar betur eða ver. Ég vona líka að læknar hætti að ávísa heilu stæðunum af lyfjaskömmtum til sjúklinga sinna án þess að kynna sér fyrst hvort lyfið gagnist viðkomandi sjúklingi eða hann hreinlega þoli það. Ef haldið verður áfram á þessari braut, halda áfram að hlaðast upp lyf sem lenda í eyðingu hjá Sorpu, almenningur borgar stórar fjárhæðir í ekkert, ríkið tapar miklum fjárhæðum og enginn hagnast nema lyfsalarnir.  


27 árum og lengi í Miðbænum.

 

Fyrir fimm árum tókum við hjón þá gæfusömu ákvörðun að flytja úr miðbæ Reykjavíkur, suður í Hafnarfjörð eftir 27 ára búsetu í Þingholtunum. Eftir að hafa búið hér í fimm ár, naga ég mig í handabökin fyrir að hafa ekki tekið þessa ákvörðun fyrr. Nú fæ ég innilokunarkennd það sjaldan sem ég á erindi á gamlar slóðir. Ég áttaði mig á því fyrr en ég kom hingað í norðurbæ Hafnarfjarðar hversu mjög ég var innilokuð á gamla staðnum. Við hjónin keyptum gamalt hús á áttunda áratugnum og gerðum það alveg upp frá rótum. 27 árum síðar var húsið komið á annan hring í endurbótum og því urðum við að taka ákvörðun um hvort við legðum í stórfelldar aðgerðir eða seldum. Síðari kosturinn varð ofaná og það er ákvörðun sem ég sé ekki eftir. Verst er að hafa ekki getað keypst einbýlishús þegar drengirnir okkar voru litlir og þurftu á meira plássi að halda og öryggi utandyra. Þegar við fluttum á Urðarstíginn var gamalt fólk í meirihluta nágranna okkar. Um leið og eitthvert húsanna var selt, var það nánast reglan að það var rifið og stærra hús, jafnvel upp á fjórar hæðir, byggt á lóðinni. Það hafði í för með sér fleiri bíla og fleiri börn. Hverfið bauð samt ekki uppá þjónustu við barnafólk, hvað þá það umferðaröryggi sem börn þurfa á að halda og eiga rétt á. Síðustu árin var það nánast heppni ef maður fékk bílastæði þegar maður kom heim úr vinnunni á daginn - svo ekki sé talað um þá sem komu í heimsókn til okkar á kvöldin. Þeir urðu oft að leggja bílum sínum í nokkur hundruð metra fjarlægð! Þá var ekki óalgengt að skemmtanaþyrstir einstaklingar gengju örna sinna í garðinum okkar og varla leið svo árið að reiðhjóli væri ekki stolið við húsgaflinn - enda enginn bílskúrinn til að geyma það. Það er því engin eftirsjá og fráleitt nein nostalgía sem grípur mig þegar ég neyðist til að fara í miðbæ Reykjavíkur.

Hér í Hafnarfirðinum er hraunið allt um hring, álfar á sveimi (örugglega) fuglasöngur, kettir á vappi, reiðhjól fá að vera í friði, engin pissar utan í húsið mitt og fegurðin ein og friðurinn ríkja. Þegar ég sé svo fréttir að niðurníddum húsum í miðbæ Reykjavíkur og metnaðarleysi borgaryfirvalda í þeim efnum, minnir það mig enn og aftur á hversu mjög ákvörðun mín var rétt að koma mér þaðan í tíma.

Nú er afar fallegur sunnudagur. Ég var búin að klippa trén í garðinum og fara í göngutúr á Garðaholtið. Innan tíðar flauta hjólavinkonur mínar í Hjólreiðafélagi hafnfirskra kvenna til leiks og þá hjólum við kellurnar saman um fallega bæinn okkar og nágrannasveitarfélög. Það verður líklega um það bil sem sonarsonur minn fæðist, þ.e. um miðjan maí. Hlakka mjög til að fá hann  í heiminn - enda eru barnabörnin, tvíburastelpurnar mínar, orðnar 15 ára að verða 16!

Ég fór einn hring á blogginu í morgun og staldraði að vanda við síðu vinkonu minnar kærrar, Láru Hönnu Einarsdóttur sem er snillingur í að skrifa um þjóðfélagsmál. Lára er mikill mannvinur, náttúruunnandi og lífsspekúlant og sannarlega mannbætandi að lesa færslurnar hennar og þess vegna vil ég að aðrir njóti líka. Slóðin hennar Láru er: www.larahanna.blog.is

Kveðja úr Firðinum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband