Færsluflokkur: Dægurmál

HHK af stað. Baráttukona í viðtali við MBL.

Í dag var farinn fyrsta ferð Hjólreiðafélags hafnfirskra kvenna. Fjórar mættu og hjóluðu í blíðskaparveðri út að vita. Við komum við veitingastað við höfnina í Hafnarfirði og fengum okkur kaffi innan um stóra og stæðilega verkamenn af öllum tegundum og gerðum og þjóðernum. Þeir hámuðu í sig íslenskum heimilismat, líkt og þeir bjóða uppá í Múlakaffi. Þetta var "menningarleg upplifun" eins of formaður HHK, Eiríksína nefndi það.

Litli námsmaðurinn bauð uppá pönnukökur ásamt kærustunni í litla sæta húsinu sem þau búa nú í á Grettisgötunni. Tóbías, nýfengið fósturbarnabarn mitt, lék sér á trampólíni í bakgarðinum á og koma svo svangur inn með jafnöldru sinni. Þau sporðrenndu einum fjórum pönnukökum á mann, 5 ára krílin.

Sonarsonur minn er að dafna. Dásamlega fallegt barn sem gerir fátt annað en gleðja foreldra sína, ömmu og afa með því að vera duglegur að drekka brjóstamjólkina, sofa vel og vera vær og góður. Hlakka til þegar hann fer að brosa. Það þarf svo lítið til að gleðja mig.

Á morgun fer ég í fermingaveislu hjá Davíð bróður mínum sem er að ferma einkabarn sitt, Ágúst Bjarka. Sá er hinn síðasti af systkinabörnunum sem fermast - enda lang yngstur þeirra.

Fyrir ykkur sem sendið mér góðar kveðjur í veikindahremmingum mínum, skal ég upplýsa að veikindin eru nú að baki.  Ég fór í hjólreiðatúrinn í dag en hann markaði upphafið að endurnýjaðri heilsurækt sem orðið hefur útundan hjá mér að undanförnu. Allt að koma.

Mogginn var að detta inn um lúguna og það fyrsta sem ég sá var tilvitnun í viðtal við vinkonu mína, baráttukonuna Láru Hönnu Einarsdóttur sem án efa er einn ötulasti baráttujaxl í umhverfismálum sem ég þekki. Hún hefur skrifað um náttúruvernd á bloggsíðu sinni www.larahanna.blog.isí nokkurn tíma og skrifar um þessi mál á þann hátt sem allir skilja, þ.e. á mannamáli. Eins og þið getið sjálf séð rökstyður hún mál sitt afar vel og skrifar skynsamlega og án allra öfga um þessi mál. Ég er óskaplega stolt af vinkonu minni og ekki minnkaði það stolt eftir að hafa lesið Sunnudagsmoggann. Ég vildi óska að fleiri eintök væru til í líkingu við Láru Hönnu.

 


Ótrúlega skemmtileg mynd.

Eva&Jokull3

Hér fáið þið að sjá litla námsmanninn minn, sem reyndar er ekki lítill lengur, þegar hann var 3 ára. Þetta var á þeim árum sem ég vann á Nýju Lífi sem blaðamaður. Þessi mynd var notuð sem myndskreyting við grein sem ég skrifaði um kynjahlutverkin. Með Jökli mínum á myndinni er dóttir vinkonu minnar, Sigrúnar Ólafsdóttur, sem heitir Eva Dögg. Svo skemmtilega vill til að bæði eru þau við nám í Danmörku og hittust fyrir tilviljun eftir 20 ár í Árósum. Hún var að læra fatahönnun (nýútskrifuð) en hann er að læra ljósmyndun. Það er því undarleg tilviljun að meistarinn hans Jökuls míns í ljósmyndun heitir Grímur Bjarnason, sá hinn sami og tók þessa ljósmynd á sínum tíma! Takið eftir fatastíl Evu Daggar og fyrirsæætutöktunum í Jökli mínum á þessari mynd. Líklega hefur það ekki hvarflað að þeim á þessum tíma (hvað þá foreldrunum) að annað þeirra ætti eftir að hanna fatnað en hitt taka ljósmyndir þegar þau yrðu stór! Jökull var að gramsa í einhverju dóti hér heima og fann þá "slides" myndir sem hann fór að kanna nánar og þetta varð útkoman.

foreldrarHér kemur svo mynd af hinum stoltu foreldrum nýjasta fjölskyldumeðlimsins. Þau geta ekki leynt hamingju sinni  - enda engin ástæða til! Drengurinn er dásamlegur.


Ömmustrákurinn minn er dásamlegur.

Það er ekki laust við að amman og afinn séu montin - enda er nýi ömmustrákurinn dásamlega fallegur og heilbrigður. Hér fáið þið að sjá hina stoltu ömmu og litla drenginn. Það er orðið nokkuð ljóst að foreldrarnir eru góðir til undaneldis!

 

 Hér koma myndir af litla ömmubarninu og ömmunni sjálfri sem hefur ekki hætt að brosa síðan í gær!

Takið eftir hvað hann er dásamlega fallegur.

 

 

lilli

 

amma


Drengur er fæddur!

Þá er hann kominn, sonarsonur minn, fyrsti drengurinn í hópi ömmubarna minna. Hann fæddist rétt fyrir fimm í dag, sprækur og fór strax á brjóstið. Ekki er búið að vigta drenginn en hann virðist stór og myndarlegur af marka má fyrstu myndirnar sem komu í rafrænu formi áðan. Amman er auðvitað himinlifandi glöð og foreldrarnir, sonur minn Svavar og tengdadóttir, Sonja, að rifna úr monti. Ég get varla beðið eftir að fá að sjá hann og knúsa.

Yndislegur dagur!


Til gamans.

MamPabsNostalgíumynd af okkur hjónakornum fyrir 25 árum. Svona til gamans.

 


Fæðingar og jarðarfarir.

Í gær fylgdi ég fyrrum tengdaföður sonar míns, Valdimar Jónssyni, til grafar. Það var falleg og virðuleg athöfn og mikið fjölmenni - enda maðurinn vinamargur og fjölskyldan stór. Sama dag fæddist lítill drengur, sonur Inga Ragnar Ingasonar, vinar míns sem var að eignast sitt fyrsta barn.  Síðar um kvöldið fór tengdadóttir mín, Sonja, á spítala með e.k. verki - enda komin að fæðingu. Sonurinn lætur þó enn bíða eftir sér - enda er hans ekki von fyrr en um miðjan maí.

Þessi tími er svolítið undarlegur. Ég er nýkomin til starfa eftir veikindi og er andstutt og þreytt - en tek þó lífinu með stakri skynsemi og passa á ofgera mér ekki. Reynir, minn góði samstarfsmaður í forvörnum VÍS, var svo elskulegur að taka að sér umferðarfund í gærkveldi og markaðsstjóri VÍS, María Hrund, sér um alla vinnuna  í sambandi við gerð auglýsingar sem nú er í framleiðslu fyrir forvarnir VÍS.

Litli námsmaðurinn er á spítala í aðgerð núna þegar þetta er skrifað og hefur mamman dálitlar áhyggjur. Aðgerðin er þó ekki stór né mikil þar sem verið er að laga stíflur í nefi og kinnkolum. Einar Thor, hirðlæknir fjölskyldunnar, sér um verkið enda ekki óvanur aðkomu að drengnum sem var fastagestur hjá honum sem lítið barn með eyrnavandamál.

Á sunnudaginn á að ferma Hjörvar, son Ólínu vinkonu minnar austur í Landssveit og þangað ætlum við hjónakornin í messu og veislu. Það er tilhlökkunarefni.

Sumarið er á næsta leiti þótt kuldinn sé enn undir þeim mörgum sem kalla má sumarblíðu. Ég mun því bíða um sinn með að taka út garðhúsgögnin.


Undarleg læknisverk og lánið í óláninu!

Jæja, þá er loksins göngu minni í heilbrigðiskerfinu lokið, vona ég. Þótt fyrr hefði verið. Síðast þegar ég skrifaði færslu var ég á leið til taugalæknanna til þess að fá fréttir af rannsóknum vegna höfuðverkjanna og krampadæmisins. Það er skemmst frá því að segja að ekkert bráðdrepandi er að hrjá mig. Skv. upplýsingum frá taugalæknum mínum er ég með e.k. æðaspasma í höfðinu sem leiðir til samdráttar í æðum og þar með meðvitundarleysis og máttleysis í slæmum tilfellum. Engin skýring finnst á því af hverju þetta gerist. Nú er ég komin með skyndilyf sem ég þarf að vera með öllum stundum en þau eiga að stoppa svona köst. Mikill léttir að vita þetta og hefur lyfjunum nú ferið plantað á alla staði eins og í bílinn, í vinnuna og heima.

En svo er það hitt dæmið; inflúensan og lungnabólgan. Eins og ég hef þegar sagt er ég búin að fara tvisvar til læknis og í bæði skiptin hef ég verið greind með berkjubólgu (í fyrra skiptið) og með berkju- og lungnabólgu í síðasta skiptið. Í báðum tilfellum var ég send heim með sýklalyf; sem sagt tvo risaskammta af fúkkalyfjum. Þegar ég hafði etið þessa skammta með tilheyrandi máttleysi, magaverkjum og slappleika, fann ég að ég var ekkert betri - jafnvel verri, ef eitthvað. Ég var auk þess með mikil andþrengsli, e.k. asmaeinkenni, sem torvelduðu mér að anda svo vel væri auk þess sem ég var nánast að kafna úr hósta. Eftir 10 daga veikindi, sem ekki sá fyrir endann á, fór ég þriðju ferðina til læknis og að þessu sinni á læknavaktina á Smáratorgi. Þar leist lækninum ekki betur en svo á ástandið að hann sendi mig á bráðamóttöku LSP. Þar hitti ég loksins á lækni sem skoðaði mig almennilega, þ.e. tók sýni úr nefi og hálsi, blóðprufur og sendi mig síðan í lungnamyndatöku. Þar kom í ljós að ég var EKKI með bakteríusýkingu - heldur vírussýkingu og þess vegna dugðu sýklalyfin aldrei á þetta! Með öðrum orðum: Tveir fyrri læknarnir afgreiddu málið með lyfseðli á 5 mínútum - án þess að vita hvort lyfin myndu virka á þetta ástand! Sýklalyfin og heimsóknirnar eru sannarlega ekki ókeypis - fyrir utan hvað það er hvimleitt og erfitt að vera svona veikur án þess að fá neitt til að lina þjáningarnar. En sem sagt: Guðný Jónsdóttir, læknir á bráðamóttökunni var fljót að greina ástandið og gaf mér "friðarpípu" sem er steralyf sem ég anda að mér og sendi mig síðan heim með innöndunarlyf sem ég anda að mér núna tvisvar á dag. Engin lyf virka á vírusinn og þess vegna verð ég bara að bíða þess að líkaminn vinni á honum. Það er allt að gerast núna en sannarlega ekki læknunum tveimur á Heilsugæslustöðvunum á Sólvangi og við Lágmúla að þakka sem afgreiddu þetta í flýti og án nánari skoðunar.

Ég er alls ekki ánægð með gang mála. Kostnaðurinn er nú komin yfir 60 þúsund krónur (með síðustu ferðinni á bráðamóttöluna) en líklega fæ ég eitthvað til baka þegar Tryggingastofnun ríkisins þóknast að greiða mér til baka og senda mér afláttarkortið sem þeir gefa sér hálfan mánuð í. Þá er ég búin að vera mun lengur veik en nauðsynlegt hefði verið ef læknarnir hefðu gefið sér meiri tíma í að skoða mig.

En heilsufarið er á uppleið. Það er stóra málið - svo mikilli uppleið að ég fór og skoðaði hönnunarsýninguna í Hafnarhúsinu í dag og ætla að hjóla svolítið á morgun. Svo ætla ég að fara í vinnuna á mánudaginn en fara mér hægt til að byrja með.

 

En... ég er ekki hissa á að heilbrigðiskerfið kosti sitt eftir reynslu mína af pilluglöðum læknum.


Of bjartsýn - greinilega!

Í ddag varð ég að fara enn eina ferðina til læknis - enda var ég orðin nær dauða en lífi í nótt af völdum hósta og andþrengsla. Það þótti mér undarlegt í meira lagi vegna þess að ég var á sýklalyfjum frá því á föstudaginn. En hvað kom á daginn? Lungnabólga og það svæsin! Nú er ég komin á enn eina tegund af lyfjum og bætist þar við nýr 5000 kall í læknakostnaðinn. ég sem hélt ag væri á leið í vinnu í þessari viku! Það verður ekkert af því. Lungnabólga er víst ekkert grín.

Á morgun er ég síðan kölluð til viðtals við taugalæknana á LSP sem framkvæmdu á mér rannsóknirnar og þá á að ræða hvað kom út úr þeim. Ég er dálítið stressuð, enda er ég nokkuð viss um að ég fái e.k. flogaveikisgreiningu. En... það er betra en svo margt annað sem hefði getað hrjáð mig. Vonandi verð ég nógu þróttmikil til að fara í bíl á LSP á morgun. Þá verða nýju lyfin vonandi farin að tikka aðeins inn í kerfið.

Ég sagði upp í útvarpinu í síðustu viku  - enda hef ég alveg nóg með vinnuna  mína í VÍS. Það var gaman að prófa útvarpið aftur en ekki svo gaman að ég nenni að leggja svona mikla vinnu í eitthvað sem gefur jafn lítið í aðrar hönd og úrvarpsþáttagerð. Þá er það líka of bindandi, finnst mér, að vera með vikulegan þátt. Fjölmiðlabakterían, sem sumir tala um, lét ekkert sérstaklega á sér kræla hjá mér og mér fannst þetta einfaldlega ekki eins gaman og áður þegar ég var á Skúlagötu 4 og á upphafsárum Rásar tvö. Það var allt önnur og skemmtilegri Ella.

Nú er ég farin að svitna all svakalega við þessar skriftir og kveð því í bili. Reyni að klóra eitthvað inn á morgun, þegar ég kem frá taugalæknunum.


Hefði aldrei getað trúað...

Heilsufarslegar hremmingar mínar, sem eru farnar að slaga  í tvær vikur, hafa kostað skildinginn. Nú stefnir allt í að útlagður kostnaður minn, persónulega, verði á bilinu 40-50 þúsund krónur. Já, segi og skrifa. Enn eru ekki öll kurl komin til grafar í þessu veikindaferli - en hér koma nokkur verðdæmi:

Dagur á slysadeild LSP, 11.390 kr.

Heilalínurit daginn eftir á LSP kr. 2.100

Rannsókn með segulómstæki kr. 18.500

Lyf vegna höfuðmála kr. 5.900

Heimsókn á heilsugæslustöð Hafnarfjarðar kr. 2.200

Lyf vegna berkjubólgu kr.  4.050

Sjúkrabíll (reikningur hefur ekki verið sendur en kostar líklega 5-10 þúsund krónur frá Selfossi - jafnvel meira)

Kostnaðurinn er þegar kominn yfir 40.000 og á eftir að hækka. Ég fæ að vísu afsláttarkort þegar greiðslur eru komnar yfir 21.000 (lyf ekki talin með) og eitthvað endurgreitt. Guð hjálpi þeim sem eru með lág laun og mikla ómegð. Hefur fólk einfaldlega efni á að veikjast eða slasast?

En hitt er svo allt annað mál að ég er aðeins að koma til sjálfrar mín eftir þessi veikindi og var að vona að ég kæmist í vinnu í fyrramálið en það er draumsýn - enda dregst ég varla áfram vegna máttleysis og verkja fyrir brjósti. Ég er orðin langþreytt á þessum ósköpum - enda er ég ekki vön því að vera svona mikið veik og svona lengi. Líklega er maður aðeins farinn að eldast, eða hvað?

 

 


Allt er þá er þrennt er.

Það er undarleg tilfinning að vera veikur og ósjálfbjarga. Eins og glöggir bloggvinir mínir hafa lesið, lenti ég í veikindum í síðustu viku við frekar óskemmtilegar aðstæður; þ.e. á Suðurlandsveginum. Nú fara fram ítarlegar rannsóknir á mér og telja læknar líklegt að um sé að ræða e.k. flogaveiki. Það eru góðar fréttir fyrir mig því hingað til hefur aldrei verið hægt að greina þessi köst mín (sem voru mjög áberandi fyrir 7 árum) en hafa ekkert látið á sér kræla í fjögur ár. Það voru því mikil vonbrigði að fá svona kast aftur eftir allan þennan tíma og það á miðjum Suðurlandsveginum! En góðu fréttirnar eru þær að það er hægt að meðhöndla flogaveiki og það verður gert.

En... sjaldan er ein báran stök. Mitt í öllu þessu dæmi dó tengdafaðir minn, háaldraður maður, og ég fékk svæsna flensu með beinverkjum og háum hita. Þannig mig komin mátti ég fylja gamla manninum síðasta spölinn og það reyndi mjög á minn annars stælta kropp og sterku sál. Vonandi gerist ekkert meira - enda allt þá er þrennt er.

Ég kem aftur spræk og fjörug til vinnu í næstu viku og ætla að byggja mig upp eftir þessi ósköp. ÉG er t.d. enn með á áætlun sumarsins að ganga á fjöll á Hornströndum og hlaupa 10 km. í Reykjavíkurmaraþoninu. En.... ef ég er raunsæ, mun ég ekki gera hvoru tveggja. En það má alltaf vona.

Mig langar óskaplega til að samfagna Óðni Elíssyni, vini mínum og fyrrum samstarfsfélaga hjá VÍS, sem er að ljúka þeim áfanga að verða Hæstaréttarlögmaður. Þá samfagnaður verður á föstudaginn en mér líst ekki á að ég veri ferðafær. Þá er fósturdóttir mín á árum áður, Ástríður Magnúsdóttir, að útskrifast úr Listaháskóla Íslands og verður sýning nemenda á laugardaginn. Það er því afar óheppilegur tími fyrir mig að veikjast núna um þessar mundir.

En ég lofa því að láta skynsemina ráða og fara mér að engu óðslega. Læt mér nægja að blogga smávegis, enda fingurnir og heilinn í sæmilegu lagi, og lesa góðar bækur.

Svo má alltaf líta á jákvæðu hliðarnar og fara í Pollýönnuleikinn góða. Ég missti matarlystina og hef því lagt af. Ég er búin að lesa fullt af góðum bókum.

kveðja

R


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband