Færsluflokkur: Dægurmál
10.6.2008 | 11:15
Hefðarkona í hestamennsku.
Þann 18. maí sl. heiðraði Hestamannafélagið Fákur vinkonu mína, Ingu Valfríði Einarsdóttur, sem betur er þekkt undir nafninu Snúlla, fyrir frumkvöðlastarf í þágu hestamennsku kvenna á Íslandi. Snúlla er ekkja Sigurðar Ólafssonar hestamanns og söngvara. Þau hjón bjuggu lengst af í Laugarnesinu og voru þekkt af sínum hvítu fákum; þeirra þekktastur var Gletta sem lengi vel átti Íslandsmetið í 250 metra skeiði.
Snúlla, sem veðrur níræð í haust, ber aldurinn vel og var hrókur alls fagnaðar í hófinu sem haldið var henni til heiðurs í Fáksheimilinu í Víðidal. Ekki leiddist henni að sjá hvítu hryssuna Drífu frá Hafsteinsstöðum taka skeiðssprett á vellinum.
Þessi aldna vinkona mín er mikill kvenskörungur og fáir gætu trúað því að hún væri að verða níræða ef marka má útlit hennar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2008 | 23:15
Frábært myndband frá baráttukonu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2008 | 22:52
Sættir í stóra heimferðarmálinu og viðburðarrík vika að baki.
Ég sagði frá hremmingum sem ég lenti í þegar ég kom heim frá Spáni um daginn. Ég var ekki alls kostar sátt við framgöngu Heimsferða varðandi seinkun á heimkomu okkar. Þá var ég heldur ekki sátt við þjónustu flugliða í vélinni á leiðinni heim. Nú hef ég fengið skýringar og afsökunarbeiðni frá félaginu auk þess þess sem ég hef verið í sambandi við forstjóra JetX, Jón Karl Ólafsson. Ég hef fengið viðhlítandi skýringar á seinkuninni sem átti sér eftir allt saman eðlilegar skýringar en þó viðurkenndu þeir að ekki hefði verið rétt staðið að útskýringum til farþega. Þá var mér tjáð að farið yrði ofan í kvartanir mínar varðandi þjónustuna. Ég er sátt við þau málalok. Eftir á að hyggja hefði ég viljað fá að vita strax af þessari miklu seinkun svo ég hefði e.t.v. getað komið mér heim sjálf, með öðrum leiðum, til þess að ná ráðstefnunni sem ég varð af hér heima. En hvað um það. Blóðþrýstingurinn hefur lækkað hjá mér aftur og ég tek þessu eins og hverju öðru hundbiti.
Erfið en áhugaverð vika er að baki. Ég hélt blaðamannafund þar sem kynnt var þjóðarátak VÍS gegn umferðarslysum í vikunni og vona að það komi til með að fækka umferðarslysum í sumar. Ég hef fengið sterk viðbrögð við auglýsingunni okkar sem virðist vekja mikla athygli. Þá notaði ég síðari hluta vikunnar til þess að dreifa bæklingi um öryggi í hestamennsku en nú eru hestamenn að sleppa fákum sínum í haga og því mikið um sleppiferðir um landið. Ég setti nokkur vel valin skilaboð í útvarpið og kom bæklingnum á reiðskóla og í hestavöruverslanir. Vonandi komast allir hestamenn heilir á áfangastað.
Um helgina ætla ég að hreyfa mig eitthvað, heimsækja litla sonarson minn sem nýlega varð mánaðargamall og elda góðan mat. Svo er ég óðum að klára bók, sem mér var bent á hér á blogginu, sem heitir "Dagbók góðrar grannkonu." Hún er afar góð og vel skrifuð og kom á óvart.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.6.2008 | 11:49
Auglýsingin frá VÍS
Myndbandið okkar, "Gefðu þér tíma" hefur vakið mikla athygli. Hér er það til skoðunar fyrir þá sem vilja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2008 | 09:28
Brotamenn umferðarinnar njóta fríðinda umfram aðra brotamenn.
Í gær var sett af stað þjóðarátak VÍS gegn umferðarslysum. Af því tilefni gerðum við hjá VÍS könnun eða athugun á Reykjanesbrautinni á mánudaginn. Í tvo tíma skoðuðum við hversu margir færu um aðra akbrautina (í suður) og töluðu í síma á sama tíma. Niðurstaðan var sláandi: 343 ökumenn sáust tala í símann, þ.e. ekki með handfrjálsan búnað. Í þeirri tölu eru ekki taldir með þeir sem sáust ekki greinilega eða voru e.t.v. að senda SMS skilaboð undir stýri.
Þessi litla, og e.t.v. óvísindalega könnun, gefur okkur tilefni til að ætla að farsímanotkun við akstur sé mun meiri en við höfðum áður ímyndað okkur. Þessi tala kom út úr tveggja tíma skoðun á umferðinni á einni götu í Reykjavík, einn dag.
Í þjóðarátaki VÍS beinum við sjónum okkar að hinum undirliggjandi þáttum sem orsakavaldi í umferðarslysunum. Einn af þeim er streita og einbeitingaskortur sem e.t.v. endurspeglast í óhóflegri notkun farsíma á meðan ekið er.
Í morgun kom ég fram í Ísland í bítið og fjallað m.a. um ofsaakstur og úrræði til þess að sporna við þeim glæp. Tilefni þessarar umræðu var frétt sem sagði frá síendurteknum hraðakstursbrotum manns sem virtist vera ennþá með ökuréttindin, þrátt fyrir að hvert brot af þessu tagi gefi refsipunkta sem ættu að hafa svipt hann ökuréttindum fyrir löngu. Ástæða þessa er einföld: Maðurinn hefur safnað á sig málum sem eru ekki enn afgreidd í kerfinu, þ.e. þeim hefur ekki verið lokið á formlegan hátt og því virka punktarnir ekki strax. Mig grunar (m.a. vegna reynslu minnar af lögreglustörfum) að þessir menn neiti sök, eins og þeir eiga rétt á, og því verði að rannsaka málið með tilheyrandi skýrslutökum af lögreglumönnum, honum sjálfum og e.t.v. vitnum. Slík rannsókn tekur tíma auk þess sem það virðist lenska hjá síbrotamönnum í umferðinni að láta ekki ná í sig til skýrslutöku. Á meðan er málið óafgreitt og þeir halda ökuréttindunum.
Ef þetta er rétt, sem ég hallast að, þá velti ég því fyrir mér hvernig menn komast upp með að sleppa við handtöku þegar þeir eru teknir aftur og aftur. Lögreglan hlýtur að hafa í sínum fórum upplýsingar um að þessir menn eigi óafgreidd mál og hafi ekki náðst til þeirra áður, hlýtur að vera ástæða til að handtaka þá og yfirheyra til þess að hægt sé að ljúka fyrri málum.
Það er líka umhugsunarvert af hverju maður sem tekinn er á 170 km. hraða, dauðadrukkinn, er látinn laus að yfirheyrslu lokinni. Ef sami maður hefðu verið staðinn að því að handleika vopn, sem hann hefur e.t.v. leyfi fyrir, dauðadrukkinn, hefði hann umsvifalaust verið tekinn úr umferð. Með þessu er ég að benda áherslumun brotanna. Svo virðist sem ofbeldismenn umferðarinnar geti ítrekað ógnað lífi og limum samborgara sinna með notkun samgöngutækis á meðan tekið er mun harðar á öðrum ofbeldismönnum.
Þessu þarf að breyta. Lögin eru skýr. Viðurlögin við brotunum eru til staðar - bæði í Umferðarlögunum og Hegningarlögunum. Það þarf aðeins að beita þeim. Þannig getum við fyrst stöðvað þessa menn og jafnframt komið í veg fyrir síendurtekin brot manna sem bíða afgreiðslu fyrri mála.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2008 | 21:18
"Ágæti viðskiptavinur..."
Með þessum orðum byrjar bréfið sem ég fékk í dag frá Heimsferðum. Eins og ég sagði frá í síðustu færslu, tafðist heimför okkar frá Malaga um heilan sólarhring og fyrir vikið varð ég af ráðstefnu sem ég hafði hlakkað lengi til að sækja - auk þess sem ég verð að greiða ráðstefnugjald og annan kostnað af viðburði sem ég gat ekki sótt. En sem sagt, Heimsferðir sendu okkur bréf í dag þar sem ferðaskrifstofan útskýrði ástæðuna.
Flugvél frá Air Finland, sem leigð er af JetX flugfélaginu til tímabundinna verkefna, bilaði á flugvellinum í Mallorca daginn áður en við áttum heimflug. Hún var því kyrrsett á staðnum þar til viðgerð hafði farið fram. Í bréfinu er þess getið að allar upplýsingar væru hafðir eftir flugrekanda sem var önnum kafinn, að sögn, við að leita leiða til að finna aðra flugvél með áhöfn sem gæti komið okkur heim. Bréfið gengur út á að allar upplýsingar sem Heimsferðir veittu farþegum væru eftir þeirra bestu vitund og fengnar frá Air Finland.
Í lok bréfsins stendur að Heimsferðir, sem beri enga bótaskyldu í slíkum tilefllum, vilji bæta okkur þetta upp með því að veita okkur inneign á aðra ferð með Heimsferðum að upphæð kr. 6000 á mann gegn framvísun þessa bréfs. Síðan erum við beðin afsökunar í þeirri von að við sýnum þessum ófyrirsjáanlegu kringumstæðum sem upp komu, eins og það er orðað, skilning.
Bréfið er gott og gilt og allra góðra gjalda vert. Við hefðum þó gjarnan viljað fá meiri upplýsingar fyrr í ferlinu og svo virtist sem fararstjórar Heimsferða hefðu ekki hugmynd um ástæðu seinkunarinnar. Það var t.d. nokkuð ljóst að töfin yrði meira en nokkrir klukkutímar fyrst okkur var útvegað herbergi yfir nótt. Engu að síður var alltaf verið að geta nýja brottfarartíma reglulega.
Á leið okkar heim í vélinni var fjölskylda sem átti aðeins bókað far heim en var ekki að öðru leyti á vegum Heimsferða. Sú fjölskylda, sem innihélt tvö ung börn, hafði fengið upplýsingar á flugvellinum sjálfum um að "aðeins" yrði 10 tíma seinkun á vélinni og mætti því um miðja nótt alla leið frá Marbella (klukkustundarakstur) með leigubíl en varð að fara aftur til baka þegar ljóst var að vélin færi ekki fyrr en daginn eftir. Þessi misvísandi skilaboð, sem farþegar fengu á heimferð, kostuðu þessa fjölskyldu því um 10.000 ísl. krónur. Margir aðrir farþegar voru sárir og reiðir út í Heimsferðir að veita þeim ekki meiri og ítarlegri upplýsingar en raun bar vitni. Það kostar nefnilega ekkert að hafa samband reglulega og láta vita. Maður getur fyrirgefið og umborið ýmislegt ef manni er sýnt tillitssemi og virðing.
Ég veit ekki hvort ég kem til með að framvísa þessu bréfi upp í aðra ferð á vegum Heimsferða - enda kemur það á engan hátt í stað ráðstefnunnr sem ég ætlaði að sækja með vinkonum mínum á Bifröst. Bóndi minn er þó mun umburðarlyndari en ég og sýnir þessu skilning eftir að afsökunarbréfið með skýringunum kom. Í bréfinu er þó ekki minnst einu orði á skort á þjónustu, og að mínu mati öryggi, í Air Finland vélinni á leiðinni heim. Um það fjalla ég í næsta pistli en það verður þó ekki fyrr en ég hef fengið skýringar hjá forstjóra JetX, sem leigði vélina, enda sanngjarnt að hann fái að svara áður en lengra er haldið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.5.2008 | 09:59
Ótrúleg þjónusta Heimsferða.
Ég var að koma heim frá Spáni og flaug frá Malaga. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þjónustu Heimsferða að þessu sinni; læt fyrst á það reyna hvort Andri Ingólfsson eða hans fólk munu biðjast afsökunar eða reyna að bæta okkur hjónum upp fjárhagslegan skaða sem við urðum fyrir vegna sólarhringsseinkunnar flugs. Ég ætla einnig að láta á það reyna hvað Jón Karl Ólafsson, forstjóri JetX - Primera Air, sem flýgur fyrir ferðaskrifstofuna, hefur að segja þegar ég skýri honum, persónulega, frá þjónustuleysinu um borð í vélinni sem flaug okkur heim, sólarhring of seint.
Ég er vægast sagt ekki í tilfinningalegu jafnvægi núna, eftir þessa útrúlegu "þjónustu" og læt því gott heita í bili. Bæði Heimsferðir og JetX munu fá að njóta vafans að sinni. En ekki of lengi... ég mun skýra frá þessum ósköpum í smáatriðum síðar og þá einnig frá viðbrögðum þeirra aðila sem bera ábyrgðina.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.5.2008 | 23:35
Vantar góða kilju að lesa.
Er ekki einhver, sem les þetta fyrir klukkan 08.30 í fyrramálið, sem getur bent mér á góðar bækur sem ég get lesið í fríinu? Ég er á leið til útlanda og ætla að safna kröftum, lesa og slappa af. Ég er reyndar búin að lesa margar þessar kiljur sem komið hafa út að undanförnu - en þætti vænt um ef þið gætuð gefið mér holl ráð í þeim efnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.5.2008 | 23:02
Góð helgi.
Helgin var bara góð. Í gær varði ég deginum með VÍS fólki við leik og störf. Í dag fór ég í veislu sem haldin var til heiðurs minni góðu vinkonu, Snúllu, sem var heiðruð af Fáki fyrir ómetanlegt framlag til hestamennsku. Þessi næstum níræða vinkona mín lék á alls oddi í veislunni og hver gæti trúað því að hún eigi ekki nema örfáa mánuði í nírætt.
Ég sló blettinn í morgun; fyrsti sláttur sumarsins. Það var ákveðin stemmning yfir því. Svo heimsótti ég litla sonarson minn sem er allur að braggast, hefur þyngsts um heil 300 grömm.
Yngri sonurinn kom í heimsókn með sambýliskonuna og litla fóstursoninn sem var klæddur eins og Súperman. Þau þáðu vöfflur og rjóma. ´
Á morgun kemur nýr dagur og þá tekur við undirbúningur fyrir Þjóðarátak VÍS gegn umferðarslysum. Það verður öflugt í ár og vonandi árangursríkt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.5.2008 | 18:26
Hraðamælingar í dagvinnu!
Ég bý við Heiðvang í Hafnarfirði; friðsæla íbúðagötu sem loku er í annan endann og gegnumakstur því ekki mögulegur. Í götunni hefur borið á hraðakstri og þá sérstaklega á kvöldin og um helgar. Íbúar við götuna gerðu athugasemdir og höfðu samband við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði í þeirri von að brugðist yrði við með einhverjum hætti.
Í gær birtust bæjarstarfsmenn með hraðamælingatæki á vagni sem segir til um og skráðir umferðarhraða í götunni. Þannig hyggjast umferðaryfirvöld kanna hver raunverulegur hraði er í götunni, áður en ákveðið verður hvernig brugðist skuli við. Tæki, sem er á vagni á hjólum, var komið á staðinn kl 8 um morguninn en síðan brá svo við að það var tekið niður fyrir klukkan 5 í eftirmiðdaginn! Þetta þótti okkur íbúunum einkennileg aðgerð við hraðamælingar þar sem aðal hraðaksturinn á sér yfirleitt stað eftir klukkan fimm á daginn og einnig um helgar. Ég spurðist fyrir um ástæður þess að vagninn var fjarlægður og svörin sem ég fékk hjá Þjónustumiðstöð bæjarins og frá konu sem heitir Helga var að verkamennirnir ynnu aðeins í dagvinnu og því yrði að taka vagninn fyrir vinnulok þeirra. Ef vagninn stæði fram eftir kvöldi eða um helgar væri hætta á að hann yrði skemmdur! Ég spurði þá hvort hann mætti ekki standa að minnsta kosti til klukkan 8 á kvöldin en þá kom það svar að þá yrði að greiða verkamönnunum yfirvinnu!
Ég hef skipt mér lengi að umferðarmálum í landinu og hef aldrei orðið vör við að umferðarslysin og hraðaksturinn takmarkaðist aðeins við dagvinnutíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Skoðanir mínar
Bloggvinir
- omarragnarsson
- attilla
- konukind
- kolbrunb
- eddabjo
- annabjo
- helgasigrun
- olinathorv
- rheidur
- steingerdur
- annagisla
- sifjar
- berglist
- reynirgudjonsson
- gudrunmagnea
- kjarrip
- hhk
- loathor
- abg
- asabjorks
- astar
- gattin
- rustikus
- saxi
- ellasprella
- eythora
- fararstjorinn
- lucas
- kokkurinn
- hemba
- nonniblogg
- kolbrunerin
- hjolaferd
- larahanna
- lillagud
- lindagisla
- fjola
- stebbifr
- sveinni
- steinibriem
- thorasig
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar