Færsluflokkur: Dægurmál
11.1.2008 | 08:42
Nýtt ár - ný tækifæri.
Þessi árstími hefur löngum lagst illa í mig - enda jólin að baki og hversdagsleikinn tekur við. En hvert ár felur í sér ný tækifæri og gamla árið er liðið og veðrur ekki breytt. Ég hlakka til að takast á við krefjandi verkefni í vinnunni. Mörg slík framundan. Á næstunni fer ég aftur að ferðast um landið og boða "fagnaðarerindið" í formi umferðarslysaforvarna. Litli námsmaðurinn minn er farinn til Jótlands og er að jafna sig í fætinum sem brotnaði illa um daginn. Hann er hörkujaxl hann Jökull minn og lét sig hafa það að fljúga til Danmerkur með illa farinn fót; mjög kvalinn. Nú er hann byrjaður að haltra í skólann og lætur vel af sér.
Móðir mín nýtur lífsins í karabíska hafinu með frænku sinni. gömlu konurnar skemmta sér vel og njóta þess að vera í blíðunni. Sonur minn, sá eldri, er á leið til Florida í dag með konunni sinni og vinum en þau eiga von á barni í vor sem er mikið tilhlökkunarefni fyrir ömmuna sem hefur ekki eignast barnabarn í bráðum 16 ár! Tími til kominn.
Nú er föstudagur og helgin að koma. Hún verður nýtt í útiveru og hreyfingu. Bækurnar á náttborðinu mínu eru allar lesnar og skortur á fleiri góðum. Ég var að enda við að lesa um þeldökka lásasmiðinn hennar Elísabetu Jökulsdóttur og er enn að hugsa málið. Veit ekki alveg hvernig mér finnst hún. Ég er ekki á því að fólk eigi að gera upp ástarsambönd á bók - en sitt sýnist hverjum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2008 | 08:43
Námsmaðurinn minn farinn á öðrum fætinum!
Nú tekur hversdagsleikinn við eftir að yngri sonur minn, námsmaðurinn í Danmörku, er aftur farinn til Jótlands til þess að nema fræðin. Hann varð reyndar fyrir því óláni að fótbrotna daginn áður en hann fór út. Það gerðist með þeim hætti að hann fékk ofan á sig rekka þegar hann var að ljósmynda með þeim afleiðingum að stóra táin á hægri fæti fór nánast í tvennt. Ekki skemmtileg byrjun á nýrri námsönn. En ég fer gjarnan í Pollíönnuleikinn við aðstæður sem þessar og segi: "Guði sé lof fyrir að þetta varð ekki verra."
Jóladótið var tekið niður á Heiðvanginum í gær og því fylgir alltaf nokkur söknuður. Það er jafn leiðinlegt að pakka því niður til ársdvalar og það er skemmtilegt að taka það upp og punta fyrir jólin. Nú taka við umferðarfundir, áætlunargerð og amstur vinnudagsins. Náin samskipti við Ræktina voru endurnýjuð þessi áramótin og mæti ég þangað daglega núna til þess að koma mér í form tímanlega - enda metnaðarfullt áramótaheit verið strengt sem þarf að standa við.
Ég varð ljúka við að lesa Þúsund bjartar sólir og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þá las ég Óreiðu á striga og varð alveg heilluð. Ég hef aldrei lesið jafn mikið á stuttum tíma og nú að undanförnu. Þetta hafa verið feit bókajól hjá mér og mínum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.1.2008 | 10:10
Væntingar um áramót.
Á hverju ári bind ég vonir við að nýja árið verði betra en það síðasta. Í dag, annan dag ársins, er sú von heitust í brjósti að síðasta ár, þar sem banaslysin voru færri en í meðalári, sé aðeins upphafið að varanlegri fækkun banaslysa í umferðinni. Reynslan hefur þó sýnt að ef banaslysum fækkar, fjölgar þeim sem eru alvarlega slasaðir; þ.e. stundum er aðeins tilviljun hvoru megin móðunnar miklu fólk lendir. Sú hefur því miður orðið raunin hvað varðar síðasta ár. Við Íslendingar búum svo vel að eiga þrautþjálfaða og mjög færa lækna og björgunaraðila sem oft tekst að bjarga lífi þeirra sem koma illa slasaðir inn á spítalana eftir umferðarslys. Það þýðir þó ekki að það sé gott líf sem bíður þeirra sem lifðu slysin af - enda eru afleiðingarnar stundum svo skelfilegar að líf þeirra sem lifa slysið af verður hrein martröð; eilíf barátta við að takast á við líkamlega og andlega fötlun.
Nú blasir talan O við á skúlptúrnum á Hellisheiðinni sem segir okkur tölu látinna í umferðarslysum. Öll áramót á ég þá von að sú tala haldist út árið. Guð láti gott á vita.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.12.2007 | 08:25
Frábærir tónleikar og áramótaheitið.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að sækja tónleika hljómsveitarinnar Bob Gillan og Strandvarðanna milli jóla og nýárs. Barnabarnið mitt, Stefanía Svavarsdóttir, stórsöngkona, syngur með hljómsveitinni sem er innansveitarhljómsveit í Mosfellsbæ. Það er skemmst frá því að setja að ungu krakkanir í hljómsveitinni fóru hreint á kostum. Þau eru öll 15 og 16 ára og gerðu þau sér lítið fyrir og fluttu smelli stórhljómsveita á borð við Dire Straits, Eagels og fleiri stórmenna.
Það var dásamlegt að upplifa framtak þessara krakka sem ákváðu að halda tónleika til þess að styrkja hljóðfærakaup hljómsveitarinnra. Tónleikarnir voru haldnir í leikhúsi Mosfellsbæjar og í hléi var boðið uppá smákökur og gos. Amma var auðvitað rosalega stolt af stelpunni sinni sem söng undurvel og ég er illa svikin ef hún á ekki eftir að gera stóra hluti í söngnum í framtíðinni.
Í þessum færslum mínum hefur mér orðið tíðrætt um frábæra æsku þess lands og þann kraft og sköpunargleði sem einkennir hana. Það hefur ekki farið framhjá mér þegar ég heimsæki framhaldsskóla landsins hversu stolt við getum verið af ungmennum þessa lands. Það gleymist oft að langstærstur hluti ungmennanna okkar er til fyrirmyndar á allan hátt og hljómsveitin Bob Gillan er til marks um það.
Í dag er gamlársdagur. Ég lýsi því hér með yfir að áramótaheit mitt er að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2008. Undirbúningurinn hefst strax á morgun þegar ég hef æfingarnar með því að endurnýja kortið mitt í World Class og hefja um leið hlaupaæfingar. Markmiðið er að taka 10 kílómetra hlaupið. Nú er þetta áramótaheit mitt komið í "loftið" og því ekki aftur snúið. Og hana nú.
Ég óska vinum mínum í bloggheimum gleðilegs árs og friðar með kærri kveðju og þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.12.2007 | 09:13
Kraftaverk á 34. stræti og Heiðmerkurganga...
...hvoru tveggja er ómissandi í jólahaldi mínu. Kraftaverk á 34. stræti er jólamynd sem ég horfi á á hverjum jólum og er alltaf jafn skemmtileg og ómissandi. Þetta er sannkölluð jólakvikmynd með góðum og þörfum boðskap.
Í gær fór ég í gönguferð með Ólínu, vinkonu minni, og hundunum Blíðu. Við gengum í Heiðmörkinni, ásamt fleira fólki sem naut þess að viðra sig í nýfallinni mjöllinni. Blíða hljóp fram og til baka og sýndi öllum sem hún mætti mikinn áhuga.
Annars hef ég varla farið út úr húsi þessi jólin utan Heiðmerkurgöngunnar. Námsmaðurinn á heimilinu fer aftur utan eftir áramótin og hefur nánast hertekið bílinn minn þessi jólin.
Nú eru aðeins tveir vinnudagar þar til áramótahátíðin gengur í garð. Ég er strax farin að hlakka til hversdagsleikans sem tekur við eftir áramót með stöðugum ferðum í ræktina og hækkandi sól. Tvisvar ferður sá feginn sem á steininn sest.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2007 | 16:49
Skatan var rauð í sárið og kæfandi góð!
Eins og undanfarin ár bauð eldri sonurinn okkur foreldrum sínum, tengdaforeldrum, ömmu sinni og fleira góðu fólki í skötu í Perlunni. Skatan var frábær; rauð í sárið og vel kæst. Hnoðmörinn var eins og hann gerist bestur að vestan og félagsskapurinn ekki leiðinlegur. Tengdadóttir mín, sem á von á barni, blómstraði í dag - enda á hún afmæli og var því skötuveislan nokkurs konar afmælisveisla í leiðinni.
Örverpið mitt, Jökull, er að vinna í Hans Pedersen fram á kvöld og missti því af skötunni. Strákarnir mínir báðir eru aldir upp við hefðir foreldranna og eta því bæði þorramat og skötu og eru alveg lausir við matvendni. Það eiga þeir ekki síður afa og ömmu í Skerjafirði (föðurfólkið) að þakka - enda var þar jafnan rammíslensku matur á borðum.
Þetta mun vera í fyrsta skipti frá því ég fór að búa að ég er búin að undirbúa jólin tímanlega. Nú bíðum við Jói eftir jólunum við kertaljós og jólakveðjur. Seinni skata dagsins er síðan stundvíslega klukkan sex þegar ég mæti til "bróður míns" Jóhanns Davíðssonar, sem reyndar er ekki genatískur bróðir minn - heldur góður félagi úr lögreglunni sem heldur ótrúlega skötuveislu í bílskúrnum sínum í Kópavogi. Konan hans, Gógó, er vestfirsk valkyrja frá Súgandafirði og víst er að hún kann að meta skötuna, eins og hún á kyn til. Í þeirri dásamlegu veislu hitti ég gamla félaga úr lögreglunni og fleira gott fólk sem mætir til Jóa "bróður" árlega í skötu.
Í fyrramálið höldum við Jói af stað um níuleytið (þ.e.a.s. Jói maðurinn minn) og förum okkar árlega rúnt í kirkjugarðana. Það er alltaf hátíðleg stund - þótt vissulega fylgi því söknuður. Í Grafarvogskirkjugarði vinnur dásamleg kona sem staðið hefur vaktina á aðfangadegi frá því ég koma þangað fyrst í þessum erindum. Hún kann að umgangast syrgjendur og er bæði hlý og gefandi kona. Í litla skrifstofuhúsinu hennar í garðinum er ljós á kertum og konfekt og kaffi. Þessi kona, sem ég veit ekki hvað heitir, er sannarlega sínu erfiða starfi vaxin.
Það er dásamlegt hér í Hafnarfirðinum núna. Ég finn næstum því fyrir jólunum - sem senn taka landið.
Gleðileg jól.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.12.2007 | 10:27
Vestanvindurinn hélt fyrir mér vöku.
Nú fer sólin að hækka á lofti á ný. Það er tilhlökkunarefni. Ég var að ljúka við síðasta þáttinn minn fyrir jól af Dr. RUV og er á leiðinni í jólafrúkost í Efstaleitið á eftir. Þar býð ég enn og aftur upp á mínar vestfirsku hveitikökur sem senn eru að verða uppurnar - enda hefur móðir mín, elskuleg, staðið sveitt við eldavélina við að baka flatkökur ofan í ættbálk sinn.
Ég er langt komin með Óreiðu á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur sem er hreint alveg frábær bók. Langur biðlisti komin á hana frá ættingjum og vinum. Ég var reyndar svo lævís að ég gaf bækur í jólagjöf sem ég get síðar fenið að láni. Sniðugt.
Ólína vinkona mín sendi mér Vestanvindinn í gær og ég lá fram á nótt við að lesa ljóðin hennar, prósana og smásögurnar. Ljóðin eru einstaklega vel ort og best þóttu mér sonnetturnar hennar. Ólína virðist hafa mjög gott vald á rímuðum kveðskap og fer létt með að yrkja ljóð í sonnettustíl.
Þetta verða mikil og góð bókajól. Ég á enn eftir að lesa Himnaríki og Helvíti og bókina hans Gyrðis Elíassonar. Heppin að eiga þær eftir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.12.2007 | 23:27
Ljós á jólum til þeirra sem eiga erfitt.
Í dag fór ég með pakkann í póst sem á að enda í Tógó í Vestur-Afríku. Ég ákvað að senda hann með hraðpósti svo hann bærist Gracíu minni í tæka tíð fyrir jól. Þetta var fyrsti pakkinn sem ég sendi henni og í honum var Dimmalimm á frönsku, ljósmyndir af okkur í fjölskyldunni og svolítið smádót. Erfiðast var að fá einhvern til að snara bréfinu sem ég skrifaði lillunni minni yfir á frönsku - en mér skilst að íbúar Tógó sé margir hverjir tvítyngdir; tali frönsku auk móðurmáls síns. Það tókst að lokum að finna frönskumælandi vin, en hann (hún) var þá allan tímann á hæðinni fyrir ofan mig í vinnunni. Bjarnveig tölvukona hafði numið í Frakklandi og talar góða frönsku sem ég naut nú sannarlega góðs af - eða öllu heldur litla dóttir mín í Tógó. Leið afar vel þegar ég var búin að senda pakkann. Gracía mín á ábyggilega erfitt núna því hún var að missa bróður sinn, sem einnig hafði fengið íslenska fósturforeldra. Ég sendi henni ljós yfir lönd og höf og vona að pakkinn minn veki hjá henni gleði.
Mér verður alltaf hugsað til þeirra sem eru nýbúnir að missa sína nánustu á þessum árstíma eða til þeirra sem eru veikir og þurfa að dvelja á sjúkrahúsum um jól og áramót. Vinkona mín og nafna, Ragga, berst nú fyrir því að ná heilsu eftir að hafa veikst mjög alvarlega í nóvember. Hún er mikið veik ennþá en vonandi úr lífshættu - þótt hún sé enn á gjörgæsludeild. Ég sendi henni ljós á spítalann daglega og ljósadýrð á jólunum. Ég sendi líka ljós til foreldra og annarra ástvina þeirra sem misst hafa sína nánustu í umferðinni á þessu ári og þá sérstaklega fjölskyldu litla drengsins sem varð fyrir bíl í Keflavík nýlega. Það er sárara en tárum taki þegar það vantar svo tilfinnanlega einn í hópinn við jólaborðið. Á þessum árstíma birtist söknuðurinn svo einstaklega sár.
Ég sendi vinkonu minni, Bessý, í Garði á Suðurnesjum ljós. Hún missti yngri drenginn sinn í umferðarslysi fyrir hálfu þriðja ári. Það mun vanda einn við jólaborðið hennar. Hugsa til hennar dagalega og einnig til vinkvenna minna, Ragnhildar og Svanhildar. Þær misstu son og bróður fyrir 11 árum með nokkurra vikna millibili: Ragnhildur eina son sinn og Svana yngsta bróður sinn. Þeir voru 16 og 18 ára og hvíla í sömu röðinni í Grafarvogskirkjugarði. Við Jói minn kveikjum kerti á leiðum þeirra á hverjum aðfangadagsmorgni eftir að hafa kveikt ljós hjá ömmu og afa og pabba mínum. Það er fastur liður í jólahaldi okkar og verður einnig svo á mánudaginn kemur.
Ég sendi góðri vinkonu minni, Maríönnu, líka ljós í sorg hennar vegna missis yngsta sonar síns í lestarslysi í Kaupmannahöfn fyrir 3 árum. Þessi ársími er henni erfiður, veit ég.
Guð veri með öllum syrgjendum á þessum árstíma. Þeir fá allir ljós frá mér í huganum - því þegar allt kemur til alls er ljósið sterkara en myrkrið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2007 | 08:36
Gleymi aldrei aðfangadegi...
...þegar ég starfaði í lögreglunni, fyrir mörgum árum, og hafði það verk með höndum að keyra út verðlaun til þeirra barna sem unnið höfðu í jólagetraun lögreglunnar. Um var að ræða nokkur hundruð bækur sem börn fengu afhent sem verðlaun fyrir umferðargetraun. Bókunum var pakkað inn í jólapappír og þeim ekið heim til barnanna. Af mörgum störfum mín um í lögreglunni var þetta hið allra skemmtilegasta. Flest börnin biðu spennt eftir jólunum eftir hádegi á aðfangadag og urðu því afar hissa og glöð þegar einkennisklæddur lögreglumaður bankaði á dyr á aðgangadag til þess að afhenda þeim óvænta jólagjöf. Okkur, lögreglumönnunum, var gjarnan boðið uppá smákökur, konfekt og rjúkandi kókó. Við upplifðum sanna jólagleði með börnunum.
En það voru ekki öll börn sem nutu jólagleði þessi eftirminnilegu jól. Eitt sinn bönkuðum við uppá í íbúð í miðborg Reykjavíkur. Dyrnar lukust upp og lítið óttaslegið andlit birtist í rifunni af dyrunum. Innan úr íbúðinni bárust háreysti og megnan áfengis- og tóbaksþef lagði frá íbúðinni. Litli drengurinn, svona um það bil 6-8 ára, tók óttasleginn við bókinni, þakkaði fyrir sig og lokaði síðan dyrunum áður en við gáum brugðist frekar við.
Þetta atvik hefur setið í vitund minni um hver jól og minnt mig á að það eru ekki öll börn sem njóta gleðilegra jóla vegna óreglu foreldra sinna. Í þessu tiltekna tilfelli var barnaverndaryfirvöldum gert viðvart en ég veit ekki hvað síðar gerðist.
Ég hvet alla foreldra til þess að neyta ekki áfengis yfir jólahátíðina. Jólin eru hátíð barnanna og þau eiga eiga ekkert annað skilið en góðar minningar frá bernskujólum sínum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.12.2007 | 15:49
Unglingarnir mínir, sögur úr sveitinni og afríska dóttir mín.
Mikið óskaplega á ég bágt með að ákveða hvað ég á að gefa sonardætrum mínum, sem eru 15 ára, og bróðursyni, sem er á fermingaraldri, í jólagjöf. Það er eins og engin hugmynd vakni. Það þýðir lítt að kaupa föt og veit ekkert hvaða tónlist þessir krakkar hlusta á. Gjafabréf í Kringluna eða Smáralind finnst mér og ópersónulegt svo ég er alveg "lost" þessa stundina. Í fyrra keypti ég bækur sem ég hélt þau hefðu gaman af - en það féll ekki í góðan jarðveg. Ég er þó ekkert á því að sleppa þeim við að fá uppbyggilegar gjafir og er með eina ísmeygilega hugmynd í gerjun sem gengur út á gjöf sem veitir upplifun. Segi ekki meir - enda gætu þau verið á gægjum á blogginu.
Ég var að koma úr Engjaskóla þar sem ég hitti 8 eldhressa og klára 15 ára stráka. Þeir voru hver öðrum fallegri og yndislegri. Hjálpuðu mér með nýju tölvuna sem ég var að fá til afnota frá vinnuveitendum mínum og róuðu mínar trekktu taugar þegar hver skilaboðin á fætur öðrum poppuðu upp á skjáinn og forritin neituðu að hlýða. Alveg með ólíkindum hvað þessir unglingar eru klárir á tölvur og miklir bjargvættir miðalda forvarnafulltrúa á örlagastundu. Svo báru þessar elskur græjurnar fyrir mig alveg út í bíl að fyrirlestri loknum.
Nú er á á kafi í "Sögum úr Síðunni" eftir Böðvar Guðmundsson og skemmti mér konunglega. Yndisleg sveitasaga af rammíslensku fólki sem fer sínar troðnu slóðir og kippir sér ekki upp við smámuni. Skemmtilega skrifuð bók, kómísk og lífleg; uppfull af fallegum myndum úr Síðunni.
Brá mér á Laugaveginn til að kaupa jólagjöf fyrir fósturdóttur mína í Tógó. Datt niður á Dimmalimm á frönsku - en mér skilst að fóstrurnar hennar Gracíu minnar geti einna helst lesið frönsku, utan eigin móðurmáls. Ég ætla að senda henni fyrstu jólagjöfina og einnig ljósmyndir af fjölskyldu hennar í Hafnarfirðinum.
Hlakka til jólanna. Alltaf gaman að verða barn einu sinni á ári. Hlakka þó enn meira til þess þegar barnabarnið mitt, númer þrjú, fæðist í maí á næsta ári. Tími til kominn - enda verða 16 ára liðin frá tvíburafæðingunni þegar litla krílið fæðist. Mér er sagt að sonur minn sé góður til undaneldis og ekki sakar að konan hans er yndisleg og falleg.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Skoðanir mínar
Bloggvinir
- omarragnarsson
- attilla
- konukind
- kolbrunb
- eddabjo
- annabjo
- helgasigrun
- olinathorv
- rheidur
- steingerdur
- annagisla
- sifjar
- berglist
- reynirgudjonsson
- gudrunmagnea
- kjarrip
- hhk
- loathor
- abg
- asabjorks
- astar
- gattin
- rustikus
- saxi
- ellasprella
- eythora
- fararstjorinn
- lucas
- kokkurinn
- hemba
- nonniblogg
- kolbrunerin
- hjolaferd
- larahanna
- lillagud
- lindagisla
- fjola
- stebbifr
- sveinni
- steinibriem
- thorasig
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar