Færsluflokkur: Dægurmál

Ég fer í fríið...

Nú er ég á leið til Andalúsíu á Spáni í kærkomið frí. Þar dvel ég meðal spænskra næstu vikurnar og ætla að hvíla bæði hug og kropp frá amstrinu hér heima. Það er reyndar með söknuði sem ég held á brott enda ekki algengt að upplifa samfellda veðurblíðu dag eftir dag hér á landi. Ég get þó varla látið vera að fylgjast með fréttum að heiman, þökk sé mbl.is og hver veit nema ég sendi eitt og eitt blogg. Vona að talan hækki ekki á Hellisheiðinni!

Góðar stundir.


Ástæða til að gleðjast.

Fyrsta stóra ferðahelgi landsins leið stórslysalaust. Það er ástæða til að gleðjast yfir því.  Sjálf var ég á faraldsfæti um helgina og sá ekki betur en umferðin gengi vel og ökumenn væri staðráðnir í því að sýna þolinmæði og varkárni.

Reyndar var athyglisvert að sjá hina miklu fjölgun hjólhýsa, tjaldvagna og alls kyns eftirvagna í umferð. Svo virðist sem sprengja hafi átt sér stað hvað varðar mikla fjölgun eftirvagna.

Helgin mín var sólrík, eins og flestra landsmanna. Garðurinn minn naut krafta minna en það er ákaflega afslappandi að dunda í garðinum í góðu veðri.

Litli námsmaðurinn minn í Kaupmannahöfn kvartar sáran undan rigningu á sínum heimaslóðum. Líklega orðinn góðu vanur.

Nú tekur við sumarleyfi á fjarlægum slóðum. Kærkomið frí.


Þyrlan komin á loft!

Frábært var að heyra fréttir af þyrlu Landhelgisgæslunnar, mannaða lögreglumönnum, sem var við eftirlit í dag, laugardag. Fjöldi bifreiða var stöðvaður á of miklum hraða og sérstaka athygli vakti að bílum með eftirvagna var ekið á 110 km. hraða. Hvað er fólk að hugsa sem svo hagar sér?

Ég vona að þyrlan hefji sig til flugs sem oftast í löggæslumálefni.


Erfið vika að baki.

Það hefur verið frekar mikið áreiti í lífi mínu þessa vikuna og því kærkomið sumarfríið sem framundan er. Vikan hófst með látum, sem ekki verða rifjuð upp hér þar sem það gæti kallað á óumbeðin og afar ógeðfelld viðbrögð. Síðari hluti vikunnar hefur verið mun skemmtilegri þótt verkefnin hafi verið næg. Hæst ber án efa afar vel heppnuð ganga gegn slysum sem var aðstandendum til mikils sóma.

Um helgina ætla ég að slá blettinn minn, klippa trén og drekka í mig sólina. Í næstu viku byrjar langþráð frí. Vonandi verður það FRÍ með stórum staf því reynslan hefur sýnt að ég get í raun aldrei stimplað mig alveg út frá vinnunni - hvort sem mér líkar betur eða ver. Starfið er þess eðlis. Kannski slekk ég alveg á farsímanum.


Þreyttur leigubílstjóri.

Til mín hringdi leigubílstjóri sem sagði mér ótrúlega sögu af félaga sínum á stöðinni. Sá ók einungis á kvöldin og um helgar en stundaði aðra vinnu virka daga til kl. 17.00. Þessi ungi maður sagði hinum gamla og þrautreynda að hann hefði halað inn dágóða upphæð á akstri helgarinnar og það væri eingöngu vegna þess að hann hefði stundað leiguakstur alla helgina, frá 20.00 á föstudagskvöld og fram undir morgun á mánudag og það samfellt!  Ég hváði auðvitað og spurði hvort þetta væri ábyggilega sannleikanum samkvæmt og spurði jafnframt hvort leigubílstjórar þyrftu ekki að sæta reglum hvað varðar hvíldartíma, en sá reyndi í bransanum sagðist halda að svo væri ekki - alla vega hefði aldrei verið amast við mjög löngum vinnutörnum leigubílstjóra.

Af gefnu tilefni og fenginni reynslu síðustu daga, er ég einungis að tala um einn tiltekinn leigubílstjóra en ekki alla stéttina. Ég vona svo sannarlega að þetta sé einsdæmi og leigubílstjórar séu yfir höfuð óþreyttir og vel vakandi þegar þeir stunda atvinnu sína.


Ljótt er ef satt er?

Ég heyri í fréttum í kvöld (man ekki á hvorri stöðinni) viðtal við vélhjólamann sem slasaðist alvarlega þegar ekið var inn í hlið hjóls hans á þriggja akreina braut. Hann slasaðist mjög alvaralega en virðist á batavegi núna. Slæmt þótti mér að heyra að ökumaður bílsins virtist ekki líta til hliðar áður en hann skipti um akrein með þessum slæmu afleiðingum. Það eru sannarleg ekki bara vélhjólamenn sem valda slysum. Verstu tilfellin sem þeir lenda í er þegar þeir missa stjórn á hjólinu. Þá skiptir hraðinn öllu máli varðandi þá sem örkumlast.

Þegar tvö ökutæki lenda í árekstri og annað þeirra er vélhjól, er vélhjólið oftar í umferðarlagalegum rétti. Það helgast af því að hjólin sjást illa, oft eru vélhjólamenn dökkklæddir og kann það að vera ein skýringin.

Sniglarnir létu eitt sinn framleiða afar góðar og áhrifaríkar forarnaauglýsingar sem mættu vel komast í umferð á ný, þótt þær séu nokkurra ára gamlar.´

Ég óska þeim einstaklingum, sem eru illa slasaðir eftir slysið á Suðurlandvegi, góðs bata og hugur minn er með þeim og aðstandendum þeirra.


Hjólastóllinn tók í.

 

 agusta

Það tók á að ýta hjólastólnum hennar Ágústu Drafnar, vinkonu minnar, sem slasaðist í mótorhjólaslysi þegar hún var 16 ára, alla leið frá Landspítalanum að Borgarspítalanum. Gangan var á fótinn stóran hluta leiðarinnar. Erfiðið var þess virði því það var ómetanlegt að upplifa stemmninguna þegar blöðrunum var hleypt í loftið sem tákn fyrir slasaða og látna á síðasta ári. Vonandi vísar gangan veginn í átt að betri umferðarmenningu og þar með færri slysum.


Saman í göngu gegn slysum. Önnur "á fæti" hin í stól.

Það var bæði gleði og sorg sem gagntók mig þegar ég tók þátt í stórkostlegri göngu gegn slysum með vinkonu minni, Ágústu Dröfn Guðmundsdóttur í dag. Ágústa hefur verið bundin hjólastól undanfarin tæp þrjátíu ár eftir að hafa slasast sem farþegi aftan á mótorhjóli sem ekið var gáleysislega. Þá var Ágústa aðeins 16 ára gömul. Gleði okkar einkenndist af þeirri miklu samstöðu og góðu þátttöku almennings en sorgin var ekki langt undan þegar við minntumst þeirra fjölmörgu sem látist höfðu og hinna sem slasast hafa alvarlega í umferðarslysum síðustu ára. Það var áhrifaríkt að sjá þegar blöðrum var hleypt í loftið af tákni fyrir slasaða og látna á síðasta ári. Víða sást blika tár á hvarmi - enda kannaðist ég við marga syrgjendur meðal göngufólks.

Þið eruð sannkallaðar hetjur, hjúkrunarfræðingar, sjúkraflutningamenn, læknar, sjúkraliðar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem vinna við aðhlynningu slasaðra og aðstandenda látinna og mikið slasaðra.


mbl.is Góð þáttaka í fjöldagöngum gegn slysum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stolt af hjúkrunarfræðingum!

Mikið er ég ánægð með framtak hjúkrunarfræðinganna sem ætla að ganga gegn slysum í dag, ásamt fjölda manns. Ég vona að Guð gefi að þessi ganga verði´öllum vegfarendum hvatning til þess að fara að öllu með gát í umferðinni svo harmleikjum umferðarinnar linni. Nóg er nú samt.

Til hamingju með daginn, hjúkrunarfræðingar!


mbl.is Gengið gegn slysum á Selfossi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggið - áhrifaríkur miðill!

Það væri vægt til orða tekið að segja að lítil viðbrögð hafi orðið vegna umræðu minnar um ofsaakstur. Ég vil þakka öllum þeim fjölda fólks sem haft hefur samband við mig vegna umræðunnar og lýst yfir stuðningi við baráttu mína gegn ofsaakstri og hver konar ógn í umferðinni. Hvað sem segja má um ummæli mín er víst að mér gekk gott eitt til. Það vekur aftur á móti furðu mína hversu áhrifaríkur þessi miðill er; þ.e. blog.is. Margir þeir sem haft hafa samband við mig hafa tjáð mér að þeir veigruðu sér við að taka þátt í þessari umræðu af ótta við að fá yfir sig fúkyrðaflaum og órökstuddar ásakanir um fordóma og sleggjudóma.

Ég veit að þeir eru í miklum meirihluta sem fordæma hvers konar hraðakstur á götum og vegum þessa lands og í ljósi þess hvet ég alla til þess að taka höndum saman og sporna við óábyrgum akstri í umferðinni. Ég vil einnig hverja þá, sem sýnt hafa ójafnvægi í athugasemdum sínum, til þess að ræða þessi mál á málefnalegum grundvelli. Við náum aldrei árangri í baráttunni við umferðarslysin nema við sameinumst í þeirri viðleitni okkar að berjast gegn umferðarslysunum af yfirvegun.

Í dag verður gengið gegn umferðarslysunum á tveimur stöðum á landinu; í Reykjavík og á Akureyri. Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til þess að ganga með okkur og sýna þannig í verki að okkur er alvara. Umferðarslysum hefur því miður fjölgað, þótt fjöldi banaslysa endurspegli það e.t.v. ekki Það sem af er árinu. Í mörgum tilfellum getur tilviljun ein ráðir hvoru megin móðu fórnarlömb umferðarslysa lendir. Í dag eiga margir um sárt að binda vegna afleiðinga umferðarslysa og þá ekki síst ástvinir hinna slösuðu. Hugur minn er hjá þessum einstaklingum og þeir munu fá hlýjar hugsanir í dag þegar ég og fleiri ganga til góðs í þessari eilífu baráttu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband