Færsluflokkur: Dægurmál
28.5.2007 | 15:17
Eru læknar ósnertanlegir?
Mér er næst að halda að sumir læknar fylgist ekki með framþróun í tæknimálum. Margir þeirra virðast njóta ofurverndar og virðast hafa það markmið í lífinu að láta ekki ná í sig undir neinum kringumstæðum. Eins og glöggir bloggarar lásu, lenti ég í veikindahremmingum um páskana. Niðurstaða læknasveitar þeirrar er skoðaði mig, var sú að ég yrði að gangast undir meiriháttar bloðrannsóknir vegna þess að blóð mitt vildi ekki storkna eins og eðlilegt getur talist. Mér var vísað til blóðmeinafræðings sem sendi mig í ótal bloðrannsóknir. Síðan eru liðnar okkrar vikur og ég hefi ekki enn fengið að líta niðurstöður þeirra rannsókna. Ástæðan er einföld: Mér hefur ekki tekist að ná í lækninn - þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Sá ágæti maður hefur símatíma einu sinni í viku og þann dag verður fólk að hringja í læknastofuna og láta setja sig á svokallaðan símalista sem læknirinn hringir út sama dag. Ekki þýðir að hringja á öðrum degi og óska eftir að nafn manns sé sett á listann góða þannig að læknirinn hringi þegar símadagurinn rennur upp. O, nei. Á miðvikudegi skal hringa og ekkert múður. Ef hinn sjúki getur ekki hringt á miðvikudegi, er það hans vandamál. Á listann skal hann ekki nema þennan tiltekna dag. Ég á hreint ekki orð yfir þessa "þjónustu". Það er eins og sumir læknar hafa aldrei heyrt minnst á tölvupóstsamskipti. Ekkert væri auðveldara en ef læknirinn svaraði fyrirspurn minni tölvupósti. Nú er ég reyndar orðin nokkuð viss um að niðurstöður títtnefndra blóðrannsókna minna feli ekki í sér bráðdrepandi sjúkdóm því þá væri læknirinn líklega búin að hringja. Það hefur hann aftur á móti ekki gert, þrátt fyrir að mér hafi tekist að smygla mér inn á listann góða, þótt ekki væri miðvikudagur! Kann að vera að það hafi verið mín höfuðsynd að lauma mér inn á símalistann á röngum degi? Hvað er þetta með lækna og aðgengi sjúklinga að þeim? Af hverju vernda þeir gegn því að sjúklingar þeirra hafi aðgengi að þeim? það er t.d. auðveldara að ná símsambandi við ráðherra en blóðmeinasérfræðinginn minn. Í öllum bænum stigið nú niður af þeim stalli sem þið teljið ykkur þurfa að trjóna á, ágætu læknar. Þið eruð bara venjulegt fólk eins og við hin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.5.2007 | 11:39
Fjórar stjörnur vestur á Rauðasand.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2007 | 10:34
Hetjusaga af bestu gerð
Mikið óskapleg er ég stolt af því að hafa átt þess kost að fá, fyrir hönd VÍS, að styrkja kvikmynd Þorsteins Jónssonar, "Annað líf Ástþórs" sem frumsýnd verður á mánudaginn. Þetta er mikil hetjusaga ungs manns sem lamaðist neðan mittis eftir umferðarslys. Ástþór Skúlason er ungur bóndi á Rauðasandi á Barðaströnd. Þar býr hann blönduðu búi ástamt unnustu sinni. Þessi ungi bóndi var ekki á því að gefast upp þótt lamaður væri og þar með bundinn hjólastól. Með óbilandi kjarki og dugnaði hefur honum tekist hið ótrúlega, þ.e. að stunda hefðbundinn búskap, þrátt fyrir fötlun sína. Í kvikmynd Þorsteins Jónssonar er dregin upp mynd af Þorsteini og fjölskyldu hans og daglegu lífi þeirra í sveitinni. Þar er m.a. sýnt hvernig Ástþór stundar sveitastörfin á sérbútbúinni dráttarvél, hvernig hann gerir við vélar og tæki, stundar minkaveiðar og fl. og fl. Hann virðist ekki láta neitt stöðva sig í þeirri ætlan sinni að halda áfram þar sem frá var horfið, áður en hann fatlaðist - þrátt fyrir hjólastólinn. Ég var svo lánsöm að kynnast Ástþóri skömmu eftir að hann fatlaðist en þá var hann gestur VÍS þegar þjóðarátaki félagsins gegn umferðarslysum var hleypt af stokkunum fyrir nokkrum árum. Þegar heimildarmynd Þorsteins Jónssonar var í vinnslu, gafst VÍS kostur á að styrkja framleiðsluna og í samstarfi við Ástþór og Þorstein, varð að samkomulagi að VÍS fengi að nota efni úr myndinni á umferðarfundum VÍS í framhaldsskólum landsins. Það er okkur ómetanlegt að fá að nýta reynslu þessa baráttumanns og benda um leið á mjög alvarlegar afleiðingar umferðarslysanna. Kvikmyndin "Annað líf Ástþórs" veðrur forsýnd á Skjaldbreiðarhátíðinni á Patreksfirði á sunnudaginn (Hvítasunnudag) en frumsýning verður á annan í Hvítasunnu í Tjarnarbíói. Myndin mun svo fara á almennar sýningar í Háskólabíói dagana 29. - 31. maí.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2007 | 08:29
Börn undir stýri?
Ég get ekki stillt mig um að minnast á frétt sem ég heyrði í útvarpinu í morgun þar sem sagt var frá tveimur 17 ára stúlkum sem lentu í hörðum árekstri í Reykjavík. Það er svosem ekki í frásögur færandi að ungt fólk lendi í umferðarslysum. Hitt vakti aftur á móti athygli mín a að stúlkurnar voru fluttar á "barnadeild" Hringsins; þ.e. þær eru skilgreindar sem börn í heilbrigðiskerfinu. Þetta segir okkur að börn eru undir stýri í umferðinni því samkvæmt lögum eru fólk skilgreint sem börn fram til 18 ára aldurs. Þessar stúlkur mega aka bíl, svo hættulegt sem það er nú, en ekki kaupa áfengi eða gifta sig - hvað þá eignast bílinn sem þær aka! Er ekki eitthvað að svona reglum, þ.a. að fólk megi stjórna stórhættulegu tæki og hætta eigin lífi og limum - á barnsaldri! Sjálf hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að hækka beri ökuleyfisaldurinn í 18 ár og samræma hann þar með sjálfræðisaldrinum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2007 | 13:51
Ofbeldið í umferðinni
Einu sinni var maður sem skaut úr öflugum riffli út um gluggann á íbúðinni sinni án þess að huga að afleiðingunum. Maðurinn var umsvifalaut handtekinn, úrskurðaður í gæsluvarðhald og látinn gangast undir geðrannsókn. Annar maður vopnaður" kraftmiklu ökutæki hugði heldur ekki að afleiðingunum þegar hann mundaði vopn" sitt innan um saklausa borgara í friðsælu íbúðahverfi í Reykjavík. Byssumaðurinn slapp með skrekkinn. Hann slasaði engan en hlaut þó þungan dóm fyrir að hætta lífi og limum samborgara sinna. Hinn ofbeldismaðurinn tók aftur á móti löglegt samgöngutæki og notaði sem leikfang með þeim afleiðingum að líf heillar fjölskyldu snérist upp í harmleik. Á vegi ofbeldismannsins á vélknúna ökutækinu varð lítið barn eftir bílaleik" vanþroska og sjálfumglaðs ökumanns er örkumla fyrir lífstíð. Hvor þessara tveggja er meiri ofbeldismaður? Þessar tvær ólíku sögur eru raunveruleg dæmi úr íslenskum veruleika og undirstrika að ofbeldismenn umferðarinnar eru engu minni afbrotamenn en hinir sem beita banvænum vopnum til þess að fá útrás fyrir annarlegar hvatir sínar. Sakleysislegt ökutæki getur reynst hættulegt vopn í höndum þess sem ekki hefur þroska, vit né hæfleika til
þess að nota það á réttan hátt. Og til þess að undirstrika óréttlátt mat dómsyfirvalda á vægi þessara tveggja ofbeldisverka má geta þess að sá með byssuna hafnaði á bak við lás og slá en hinn fór frjáls ferða sinna áður en sírenuvæl sjúkabílsins, sem flutti barnið lífshættulega slasað, hafði þagnað.
Það er hryggileg staðreynd að alltof stór hluti þeirra sem valda alvarlegum slysum í umferðinni eru undir karlmenn. Ástæðan er oftast sú sama: Ofmat á eigin hæfileikum sem ökumenn. Margir átta sig því miður ekki á því fyrr en of seint að hestöflin sem þeir ráða yfir er þeir sitja undir stýri geta reynst banvæn ef þau eru misnotuð sem leikfang þar sem lífi og limum saklauss fólks er ógnað. Bíll eða vélhjól getur snúist upp í stórhættulegt manndrápstæki höndum vanþroska óvita. Sorglegust er sú vitneskja að við getum komið í veg fyrir fjölda mannlegra harmleikja með því að haga okkur eins og viti bornar manneskjur í umferðinni.
Við viljum ekki sjá meira blóð, fleiri tár og hnípna foreldra, systkini, afa, ömmur og vini yfir moldum eða við sjúkrabeð ungmenna sem áttu lífið framundan. Tollur umferðarinnar er þegar orðinn allt of stór. Nú er mál að linni. Nú segjum við stopp með því að láta skynsemina ráða. Allt of margir þekkja hinn bitra sannleika á bak við það að vera vitur eftirá. Þeir vilja ekki fá ykkur í hópinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2007 | 09:33
Fíkniefnaneysla er á undanhaldi.
Fyrir skömmu birtist frétt af rannsókn þar sem fram kom að fíkniefnaneysla, reykingar og áfengisneysla séu á undanhaldi í framhaldsskólum landsins. Það er ekki í fyrsta skipti sem vísbendingar koma fram í þá veru. Í hvert skipti sem slíkar skoðanakannanir/rannsóknir eru birtar heyrast efasemdaraddir sem véfengja þessar niðurstöður og kannanir. Yfirleitt eru það aðilar sem eiga e.k. hagsmuna að gæta, þ.e. þeir sem bjóða uppá meðferðarstarf fyrir unga vímuefnaneytendur og eiga því allt sitt undir því að fá fjármagn til starfseminnar. Þetta er leiðinda ávani - enda eigum við að gleðjast yfir niðurstöðum sem benda til minni neyslu meðal þessa aldurshóps. Ég hef lengi haft góða tilfinningu fyrir því að vímuefnaneysla sé að minnka meðal framhaldsskólanema. Sú tilfinning er ekki byggð á vísindalegum rannsóknum - heldur reynslu minni af samskiptum við þennan aldurshóp. Í fjölda ára hef ég heimsótt framhaldsskólanema með fræðslu um umferðarslysaforvarnir og í þeim heimsóknum hef ég rætt við nemendur um þessi mál (utan dagskrár). Í þeim samskiptum fæ ég æ sterkar á tilfinninguna að þessi vondu mál séu á undanhaldi. Færri reykja framan við skólahúsnæðið, fleiri árshátíðir og uppákomur af ýmsu tagi eru án alls áfengis og tóbaks auk þess sem ég skynja breyttar áherslur hjá krökkunum, m.a. þeir að nú er líkamsrækt og hreysti í tísku og ekki "cool" að vera í einhverju bulli, eins og krakkarnir segja.
Það er sannarlega ekki uppörvandi fyrir framhaldsskólanema landsins þegar sjálfskipaðir "besservissarar" í meðferðargeiranum draga sífellt í efa þann árangur sem náðst hefur. Við eigum að fagna því sem vel er gert og sjálf hef ég tröllatrú á að tilfinning mín sé rétt; þ.e. að áfengisneysla, reykingar og önnur vímuefnaneysla sé á undanhaldi meðal framhaldsskólanema. Til hamingju með það, framhaldsskólanemar!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2007 | 10:59
Ég er orðin SPES og er stolt af því.
Dægurmál | Breytt 10.5.2007 kl. 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2007 | 14:01
Kvartmílubraut og flugvellir passa ekki í nánd við hesthúsahverfi.
Útreiðar og hestamennska er tómstundagaman sem getur reynst hættulegt við ákveðnar aðstæður. Hestar eru flóttadýr og viðbrögð þeirra við áreiti jafn misjöfn og hestarnir eru margir. Hestar eru næmar skepnur og skynja áreiti frá umhverfinu, ýmisst sjónræn eða hljóðræn, á annan hátt en manneskjan. Skyndileg viðbröð hesta við slíku áreiti hafa því miður leitt til tíðra og oft alvarlegra slysa á knöpum að undanförnu. Til marks um það má geta þess að eftir að þrengt hefur verið að hesthúsahverfum hér á höfuðborgarsvæðinu með byggingu nýrra hverfa í nánd við þau, hefur slysum og óhöppum sem tengjast hestamennsku, fjölgað. Það er m.a. rakið til hávaða frá byggingaframkvæmdum, akstri stórvirkra vinnuvéla, sprenginga og annars hávaða og sem slíku fylgir. Fréttir af hugsanlegum flugvelli á Hólmsheiði og niðursetningu kvartmílubrautar á bökkum Glerár, á milli hesthúsahverfa, vekja því áhyggjur mínar. Það er sannarlega hægt að finna önnnur svæði fyrir kvartmílubnraut en á útreiðaleiðum norðlenskra hestamanna og flugvöll á fráleitt að staðsetja á misvinasömu svæði - svo ekki sé talað um hættuna sem skapast af því fyrir hestafólk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2007 | 10:43
Gott fólk í næstum öllum flokkum
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2007 | 11:15
Hvar eru umferðarmálin?
Hverjar eru áherslur stjórnmálaflokkanna í umferðaröryggismálum? Ég hef leitað með logandi ljósi að þessum mikilvæga málaflokki í stefnuskrám stjórnmálaflokkanna en ekkert fundið annað en einhverja hálfvelgju, almennt orðaða. Umferðaröryggismál er sá málflokkur sem snertir alla þjóðina og því hefði ég viljað sjá loforð um aukið fjármagn í umferðarslysaforvarnir og skilyrðislausan forgang um tvöföldun Suðurlands- og Vesturlandsvegar - STRAX. En því miður virðast umferðaröryggismál ekki vera sérstaklega vænleg til atkvæðaveiða. Þar virðast álver og jarðgöng vega mun þyngra. Í dag las ég umfjöllun í Fréttablaðinu um afleiðingar ölvunaraksturs fyrir 10 árum. Sláandi frásögn móður, sem missti unga dóttur sína í umferðarslysi. Ölvaður ökumaður sofnaði undir stýri með þeim skelfilegu afeiðingum að árs gamalt barn varð móðurlaust. Nú hafa viðurlög við þessum glæpum og öðrum alvarlegum umferðarglæpum, verið hert og er nú meðal annars ákvæði um haldlagningu á ökutæki viðkomandi ökuníðings. Þá hefur lögreglueftirlit stóraukist og það hefur haft afar jákvæð áhrif á umferðina. En ég lýsi eftir áherslum stjórnmálaflokkanna í umferðaröryggismálum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Skoðanir mínar
Bloggvinir
- omarragnarsson
- attilla
- konukind
- kolbrunb
- eddabjo
- annabjo
- helgasigrun
- olinathorv
- rheidur
- steingerdur
- annagisla
- sifjar
- berglist
- reynirgudjonsson
- gudrunmagnea
- kjarrip
- hhk
- loathor
- abg
- asabjorks
- astar
- gattin
- rustikus
- saxi
- ellasprella
- eythora
- fararstjorinn
- lucas
- kokkurinn
- hemba
- nonniblogg
- kolbrunerin
- hjolaferd
- larahanna
- lillagud
- lindagisla
- fjola
- stebbifr
- sveinni
- steinibriem
- thorasig
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar