Færsluflokkur: Dægurmál
26.4.2007 | 12:51
Börnin eru bestu sendiboðarnir
Eitt af því skemmtilegasta sem VÍS gerir í sínu fjölbreytta forvarnastarfi er að taka á móti leikskólabörnum. Þau fá að sjá bíómynd um Venna Vísa, gamlan karl sem er með barnahjarta en gerir margar vitleysur í umferðinni og heima hjá sér og banga sínum. Þá fá börnin að sjá "klessubílana" og fá fræðslu um barnabílstóla, loftpúðahættuna, reykskynjarann, hjálminn umferðarreglurnar og fl. og fl. Þegar þessir litlu sendiboðar koma heim fara þau að spyrja mömmu og pabba óþægilegra spurninga, eins og hvar reykskynjarinn sé, hvort búið að að skipta um rafhlöðu, hvort eldvarnarteppi sé til á heimilinu, af hverju mamma og pabbi tali í símann undir stýri, af hverju afi noti ekki bílbeltið og fleira og fleira. Þannig virkjum við börnin til þess að minna foreldrana á að viðhafa öryggi á heimilinu, sem í bílnum. Við hjá VÍS finnum mjög fyrir þessari fræðslu í aukinni sölu á öryggisbúnaði, t.d. reykskynjurum og eldvarnarteppum í kjölfarið. Það eru vissulega forréttindi að fá að vinna með ungviðinu að þessu mikilvæga forvarnastarfi. Börn eru bestu sendiboðarnir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.4.2007 | 09:35
Að rækta garðinn sinn.
Orðtækið hefur tvöfalda merkingu eins og allir vita, þ.e. eiginlega og óeiginlega. Þótt sannarlega sé mikilvægt að rækta hinn mannlega garð, hreinsa illgresið á brott og hlúa að viðkvæmum gróðri; vökva og snyrta, er ekki síður þörf á stórkostlegum framkvæmdum í raunverulega graðinum við Heiðvanginn. Vegna vanmáttar eigandans, hafa klippingar trjáa og önnur yndisleg vorverk orðið að bíða. Ég vona bara að mínir góðu grannar horfi ekki alltof oft ínn í garðinn minn þegar þeir viðra ferfætlingana sína, sem nóg virðist af hér í Norðurbæ Hafnarfjarðar. En fátt er svo með öllu illt: Veikindi hafa nefnilega einn afar jákvæðan kost en hann er sá að þá eykst lestur umtalsvert. Á undanförnum vikum hefur meðallestur minn á ársgrundvelli hækkað verulega og þótt ég læsi ekki staf fram að áramótum er ég þegar búin að setja persónulegt met í lestri. Mér tókst að klára Halldór Laxness eftir Halldór Guðmundsson. Snilldarverk. Þá las ég "Skip með segl og allt" eftir vinkonu mína, Gerði Kristnýju en sú bók skilur mikið eftir sig og er afar vel skrifuð og skemmtileg; full af alls kyns táknum og vísunum. Jakobína systir mín kom með "Fávitann" sem ég ætla að lesa, en gerði hlé á því bókmenntaverki til að lesa "Karítas án titils" eftir Kristínu Marju. Sú bók er meistaraverk, vel skrifuð, skýrar og eftirminnilegar persónur, ljóslifandi atburðararás og vandvirkni einkenndi þessa stórkostlegu bók. Ég tímdi varla að lesa hana og kveið því að klára hana. Hein unun. Ég hlakka til að lesa næstu bók Kristínar Marju. Þá hef ég veriðð að lesa Skipið eftir Stefán Mána. Sannkallaður þriller en samt ofnotkun á lýsingarorðum og frasakenndum orðatiltækjum. Á náttborðinu er líka Íslandsklukkan sem ég las nú í þriðja sinn og áttaði mig á að í hvert sinn sem maður les Halldór Laxness, sér maður nýja hlið á honum og verkum hans. Nú þótti mér "Eldur í Köben" langskemmtilegust þessara þriggja bóka en áður var það Íslandsklukkan. Og hafi ég dáðst að Snæfríði Íslandssól áður, minnkaði sú aðdáun ekki við þennan lestur.
Hinn andlegi þáttur garðvinnunnar hefur því fengið að njóta sín að undanförnu fyrir utan ræktun vináttusambanda því vissulega fæst staðfesting á því hversu fjölskyldan er mikilvæg og vinirnir ómetanlegir, þegar heilsan gefur sig og maður er neyddur til að horfa á spræka nágranna sína taka til hendinni garðvinnu vorsins í góðu veðriÞá er gott að eiga annan garð til að rækta og til þess þarf maður ekki líkamlega krafta eða stórvirkar vinnuvélar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2007 | 13:31
Enginn veit hvað átt hefur...
Það er orðið langt síðan ég hef skrifað færslu á þessa síðu og kemur það ekki til af góðu. Ég varð fyrir því óláni að fara í meinlausa skurðaðgerð sem varð til þess að spítaladvölin mín lengdist í annan endann; þ.e. einn sólarhringur á spítala varð að nokkrum sólarhringum auk ómældra óþæginda. Ekki ætla ég að fjölyrða um veikindi mín, sem nú sér reyndar fyrir endann á. Spítaladvölin mín á St. Josepsspítalanum í Hafnarfirði varð mér mikill lærdómur og góð lífsreynsla. Hafi ég ekki vitað það áður, fékk ég staðfestingu á því hvað við Íslendingar búum við góða og örugga heilbrigðisþjónustu. Það kann að virka klisjukennt að mæra heilbrigðisstarfsfólk - en ég get ekki orða bundist: Það kom reyndar ekki á óvart að allt starfsfólk spítalans hafi unnið sitt starf af fagmennsu og metnaði; heldur sú staðreynd að mannlegur kærleikur einkenndi öll þeirra störf. Deildarlæknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og annað starfsfólk vann sem einn maður að því að láta mér líða vel miðað við aðstæður. Eftir útskrift af spítalanum átti ég daglega ernidi á St. Jósepsspítalann og fékk þá afar hlýjar kveðjur og óskir um góðan bata. Eftir þessa lífsreynslu áttaði ég mig enn frekar en áður á því hversu heppin ég er að eiga kost á svona frábærri heilbrigðisþjónustu. Tímabundið heilsuleysi kallar einnig á heimspekilegar vangaveltur um lífsgildin og víst er að allir, sem einu sinni hafa upplifað mikil veikindi, átta sig á að það er ekki sjálfgefið að halda góðri heilsu. Ég er ein þeirra. Enginn eitt hvað átt hefur fyrr en misst hefur...
Nú safna ég kröftum á nú og kem tvíefld til starfa.
Knús og kossar íá St. Josepsspítalann í Hafnarfirði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.3.2007 | 08:38
Vafasamur heiður
Á vefnum www.bb.is er frétt þar sem fjallað er um ljósmynd BB frá hörmulegu banaslysi við Hnífsdal og hún gerð að fréttaefni vegna verðlauna sem ljósmyndin hlaut í samkeppni um bestu fréttaljósmyndina. Í sjálfu sér er ekkert að því að verðlauna athygsiverðar fréttaljósmyndir - en þegar í hlut á ljósmynd sem sýnir hörmulegan mannlegan harmleik, finnst mér of langt seilst eftir athyglinni og í raun ættu slíkar myndir ekki að koma til álita í slíkri samkeppni. Allir vita að banaslys í umferðinni skilur eftir sig djúp sár og söknuð hjá aðstandendum sem nú þurfa að upplifa sárar minningar í ný, þegar ljósmyndin er birt opinberlega. Slík myndbirting er ekki við hæfi og fráleitt til þess fallin að berja sér á brjós vegna verðlauna sem BB kann að hafa fengið vegna hennar. Hún er í öllu falli siðlaus.
Ég vil nota þetta tækifæri til að votta aðstandendum og vinum ungu stúlkunnar, sem lést í umræddu slysi, samúð mína um leið og ég sendi hýjar kveðjur til allra þeirr sem nú eiga um sárt að binda vegna myndbirtingarinnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.3.2007 | 10:35
Heim í Réttó!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2007 | 16:37
Helmingur nemenda á yfir 150 km. hraða!
Í bítið í morgun ók ég áleiðis á Selfoss þar sem ég átti stefnumót við ungmenni í Fjölbrautarskólanum Selfossi. Eftir góðan umferðarfund með nýnemum skólans, hélt ég aftur af stað áleiðis í átt að Kömbun um en sá mér til skelfingar skilti þar sem á stóð að vegirnir um Hellisheiði og Þrengsli væru lokaðir vegna skafrennings og ófærðar. Það var því ekki um annað að ræða en reyna að eyða tímanum á milli þess sem ég hringdi í 1777 til þess að fá nýjustu upplýsingarnar um færðina. Við þessar undarlegu aðstæður kom í ljós hvað tæknibyltingin er undursamleg. Í mínum nýja og örugga smábíl sat ég og skrifaði tölvupóst, svaraði skeytum og vann vinnuna mína, á bílaplaninu við Bónus í Hveragerði! M.ö.o: Faríminn minn er þeim eiginleikum gæddur að ég get farið inn á tölvupóstinn minn og skrifað, svarað og skoðað. Síminn minn varð mér því ómetanlegt vinnutæki við þessar óviðráðanlegu aðstæður.
Nemendur FSU voru hreint alveg frábærir. Þau voru mjög lifandi í tímanum, spurðu spurninga og komu með nytsamlegar ábendingar og athugasemdir um umferðina, vegamál, löggæslumál og fl. Það var aðeins einn skuggi á ferð minni austur fyrir fjall (fyrir utan óveðrið) en það var sú staðreynd, sem kom fram á hjá nemendum, að næstum helmingur þeirra viðurkenndi að hafa setið í bíl sem ekið var á yfir 150 km. hraða! Reyndar hef ég áður fengið þessi viðbrögð í öðrum skólum við spurningu minni um ofsaakstur en varð ekki síður hissa og vonsvikin þegar ég fékk svarið við næstu spurningu sem var hvort þau hefðu verið hrædd. Aðeins fjórar hendur fóru á loft. Mér er þó næst að halda að hinir hafi ekki þorað að viðurkenna hræðslu sína, af ótta við viðbrögð skólafélaganna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2007 | 15:46
Hversu öruggur er bíllinn?
Er öryggisþátturinn í bílum ekki söluhvetjandi? Mér virðist sem sjaldnast sé lögð áhersla á þann þáttinn þegar bílar eru auglýstir. Meira er lagt uppúr flottheitunum, kraftinum og snerpunni. Þegar ég keypti mér smábíl í vetur, valdi ég hann aðallega út frá öryggissjónarmiðum. Það vildi bara svo skemmtilega til að bíllinn var líka mjög fallegur og þægilegur - sem var bara bónus ofan á öryggið sem ég setti í fyrsta sæti. Menn ættu að kanna öryggispófanir sem gerðar hafa verið á bílnum en stjörnugjöfin segir til um öryggið. Þetta er hægt að sjá á síðunni www.euroncap.com.
Eftir margra ára starf í lögreglunni og sem forvarnafulltrúi VÍS, hef ég áttað mig á að bíltegundin getur skipt sköpum varðandi áverka í umferðarslysum. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar um minni bíla er að ræða. Það er nefnilega hægt að bæta bílinn - en ekki mannslíf eða varanlega örorku.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2007 | 10:16
Ljósmyndarinn minn Kaupmannahöfn
Það er ekki laust við að tómlegt sé í kotinu okkar í Norðurbænum í Hafnarfirði þegar "örverpið" okkar er flutt til Danmerkur til þess að stunda nám í ljósmyndun. "Litlu hjónin" eins og ég kalla þau Jökull minn og Gyðu kærustuna hans, eru búin að hreiðra um sig í miðborg Kaupmannahafnar og það var ekki laust við að móðurhjartað slægi hraðar þegar drengurinn sagði mér að hann hafði farið á átakasvæðið á Norðurbrú til þess að ljósmynda óeirðirnar. En einhvern tímann verður móðirin að slíta naflastrenginn. Það er reyndar ekki laust við að ég öfundi hann svolítið að vera fátækur námsmaður í Köben. Það er eitthvað sem ég hefði viljað framkvæma á mínum ungdómsárum og hver veit nema enn sé von!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2007 | 10:05
Er árangur loksins að nást?
Í þau þrjátíu ár sem ég hef komið að umferðaröryggismálum, hefur mér oft liðið eins og ég get ímyndað mér að Bakkabræðrum hafi liðið þegar þeir áttuðu sig á að þeir voru endalaust að bera vatn í botnlausa tunnu. M.o.ö. það hefur stundum hvarflað að mér að gefast upp á þessu endalausa verkefni að reyna að hafa áhrif á almenning og stjórnvöld í baráttunni við umferðarslysin. Það sem hefur þó haldið mér við efnið er að af og til er hægt að merkja árangur af þessu forvarnastarfi. Þótt síðasta ár hafi ekki verið uppörvandi þegar litið er til banaslysa og annarra alvarlegra slysa, er þó eins og núna sé dropinn loksins farinn að hola steininn í þeirri baráttu. Undanfarin ár hefur alvarlegum umferðarslysum meðal ungmenna fækkað í hlutfalli við aðra aldurshópa. Vonandi er það sönnun þess að umferðarslysaforvarnir VÍS meðal ungmenna landsins hafi loksins skilað sér. E.t.v. er eftirfarandi saga, sem ég vona að sé einkennandi fyrir forvarnir okkar, staðfesting þess: Einn daginn þegar ég var að versla í einum stórmarkaðnum, víkur sér að mér ung stúlka og spyr hvort ég sé ekki sama konan og kom í skólann til hennar nokkrum vikum fyrr. Ég játti því og þá sagði þessi unga stúlka að eftir heimsókn frá VÍS, væru nokkrir strákar í skólanum hennar, sem áður mættu alltaf akandi án bílbelta, alltaf með bílbeltin spennt. Þessi litla saga gladdi mig meira en orð fá lýst og endurspeglar e.t.v. þá staðreynd að þau ungmenni, sem sótt hafa umferðarfundi VÍS, hafa sýnt mun lægri tjóns- og slysatíðni meðal viðskiptavina VÍS, en önnur ungmenni sem ekki hafa notið þessarar fræðslu. Ef fræðsla okkar hefur haft sömu áhrif á önnur ungmenni, er víst að árangur er að nást í baráttunni við umferðarslysin. En vissulega eru þeir enn of margir sem stunda ofsaakstur, ölvunarskstur og fleiri afbrot í umferðinni. Mér er þó næst að halda að það sé fámennur hópur ökumanna sem fátt virðist hafa áhrif á annað en öflug umferðarlöggæsla og harðar refsingar. Í þeim efnum er líka afar jákvæð breyting að eiga sér stað. Með sameiningu lögregluembætta hefur umferðarlöggæsla stóraukist og nú er svo komið að daglega heyrast fréttir af kærum lögreglunnar vegna hraðaksturs og ölvunaraksturs auk kæra vegna farsímanotkunar í akstri og vanrækslu á notkun bílbelta. Þau eru ófá skiptin sem sú sem þetta ritar hefur gagnrýnt lögregluyfirvöld opinberlega fyrir of litla áherslu á umferðarlöggæslu og þjóðvegaeftirlit. Þess vegna skal þess getið sem vel er gert og því vil ég hrósa hinum nýju embættum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglukstjórans á Suðurnesjum fyrir frábært starf að undanförnu sem vonandi er aðeins byrjunin á því sem koma skal í öflugri umferðarlöggæslu. Vissulega er skelfilegt að heyra fréttir af öllum þessum tilfellum sem menn eru stöðvaðir á ofsahraða en við megum ekki gleyma því að slíkar fréttir benda til þess að lögreglan sé að vinna vinnuna sína. Aukning á fjölda þeirra sem teknir eru fyrir ölvuna við akstur er að sama skapi engin sönnun fyrir því að fleiri aki undir áhrifum áfengis en áður. Það næst einfaldlega til þeirra þegar lögreglan stundar öflugt eftirlit. Sýnileiki og afskipti lörgreglunnar hefur geysileg fyrirbyggjandi áhrif. Það er því ekki nægilegt að stunda öflugt forvarnastarf meðal ungmenna því það eru líka þeir eldri sem brjóta af sér í umferðinni og sumir þeirra gætu kallast síbrotamenn umferðarinnar. Þá þarf að stöðva með löggæslu og hertum viðurlögum. Allt þarf þetta að spila saman og nú þegar við sjáum líka fram á tvöföldun helstu umferðaræðanna út frá Reykjavík, er víst að umferðarslysum mun fækka verulega ef marka má árangurinn af tvöföldum þess kafla sem þegar er kominn á Reykjanesbrautinni. Nú eru kosningar framundan og vonandi verða umferðaröryggismál og samgöngumál ofarlega á baugi enda sameiginlegt hagsmunamál allrar þjóðarinnar án tillits til pólitískra skoðanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2007 | 16:10
Engin unglingavandamál
Eftir að hafa heimsótt fjóra framhaldsskóla undanfarið með forvarnir um umferðaröryggi er ég nánast uppnumin yfir því hvað við eigum frábær ungmenni. Þessir krakkar eru hvert öðru betra; gáfuð, hlý og yndisleg í alla staði. Undantekningarlaust fékk ég mjög gott hljóð og var athygli þeirra óskipt þann tíma sem ég stoppaði. Spurningar þeirra og athugasemdir voru skyndasmlegar og vel ígrundaðar. Því hefur aflltof oft verið haldið fram að unga fólkið í dag sé bæði ókurteist og dónalegt og mörgum er tíðrætt um hið svokallaða unglingavandamál. Ég hef heimsótt framhaldsskóla landsins undanfarin 12 ár og er alltaf að átta mig á því betur og betur hvað heimur batnandi fer hvað varðar þetta unga fólk. Agi, háttvísi og elskulegheit er það sem einkennir yfirgnægandi meirihluta þeirra ungmenna sem ég hitti reglulega og hefur þetta farið batnandi undanfarin ár. Reykingar eru á undanhaldi meðal framhaldsskólanema (það sé ég af fjölda þeirra sem standa út undir skólavegg, reykjandi) því þeir eru æ færri með hverju árinu. Þá hefur VÍS styrkt nemendasfélög skólanna og því fylgt með útfáfustarfsemi þeirra, m.a. skólablöðunum. Þar eru iðulega ljósmyndir af ýmsum uppákomum og dáist ég að því öfluga félagslífi sem er í skólunum. Þótt vissulega séu svartir sauðir til meðal nemenda, er alveg víst að þeim fer fækkandi og mér er næst að halda að áfengis- og vímuefnanaysla sé einnig að minnka verulega meðal þessa hóps. Ég er sannarlega stolt af því að fá tækifæri til að móta skoðanir þessara krakka á umferðinni og er sannfærð um að þau taka þessa fræðslu alvarlega og tileinka sér það sem fram fer á umferðarfundum VÍS. Besti vitnisburðurinn um það eru þau fjölmörgu ungmenni sem stoppa mig af og til í Kringlunni, eða annars staðar þar sem ég er á ferð, og segja mér að boðskapurinn hafi haft mikil áhrif á þau sem ökumenn. Það þykir mér afar vænt um og vegur meira en allt annað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Skoðanir mínar
Bloggvinir
- omarragnarsson
- attilla
- konukind
- kolbrunb
- eddabjo
- annabjo
- helgasigrun
- olinathorv
- rheidur
- steingerdur
- annagisla
- sifjar
- berglist
- reynirgudjonsson
- gudrunmagnea
- kjarrip
- hhk
- loathor
- abg
- asabjorks
- astar
- gattin
- rustikus
- saxi
- ellasprella
- eythora
- fararstjorinn
- lucas
- kokkurinn
- hemba
- nonniblogg
- kolbrunerin
- hjolaferd
- larahanna
- lillagud
- lindagisla
- fjola
- stebbifr
- sveinni
- steinibriem
- thorasig
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar