Færsluflokkur: Dægurmál

Persónuleg og sérstæð heimildamynd.

 

raudiÉg sá mynd Þorsteins Jónssonar, Annað líf Ástþórs, á mánudaginn. Myndin er einkar áhugaverð og nálgun Þorsteins sérstæð. Kvikmyndagerðarmaðurinn virðist hafa náð góðu persónulegu sambandi við fólkið sem kemur fram í myndinni og áunnið sér traust þess. Það skilar sér í útkomunni en myndin segir sögu Ástþórs Skúlasonar sem lamaðist í umferðarslysi en neitar að láta fötlunina aftra sér við bústörfin og stundar þau í hjólastólnum á sveitabæ sínum á Rauðasandi. ! Í myndinni eru stórkostleg myndskeið af vestfirskri náttúru og dýralífi. Ég óska Þorsteini og Ástþóri til hamingju með áhrifaríka og fallega kvikmynd.


Hörmulegt slys ungu fjölskyldunnar

 

VatnsskarðÞegar ekið er um Hellisheiðina sjáum við á skilti að aðeins tveir hafa látist af völdum umferðarslysa það sem af er þessu ári. Það er auðvitað tveimur of mikið en engu að síður langt undir meðaltali. Það segir þó ekki alla söguna af hörmungum umferðarslysanna því fjölmargir slasast það alvarlega að líf þeirra verður gjörbreytt. Fréttir af alvarlegu umferðarslysi þar sem ung fjölskylda, foreldrar og ungabarna, slösuðust alvarlega minnir okkur enn og aftur á vígvöll umferðarinnar, eins og ég hef svo oft nefnt þjóðvegina okkar. Það er hreint til háborinnar skammar að vestrænt lýðræðisríki hafi ekki enn, árið 2007, tvöfaldað alla helstu þjóðvegi landsins. Í nágrannalöndum okkar myndi vegur eins og þjóðvegur eitt á Íslandi teljast sveitavegur, þ.e. vegur sem ætlaður er mun minni umferð en tíðast um hringveg okkar. Við getum ekkert annað gert en höfðað til eigin samvisku og gert allt sem í okkar valdi stendur til að slíkir harmleikir endurtaki sig ekki. Það er ekki laust við að ugg setji að mér þegar ég hugsa til mestu ferðahelganna sem framundan eru en reynslan sýnir að yfir sumartímann verða flest og alvarlegust umferðarslysin. Ég bið fyrir fjölskyldunni ungu og hvet alla til þess að sýna nú í verki að þeir geta lagt sitt vog á lóðarskálarnar til þess að umferðin verði betri. Mín heilræði til okkar allra er að aka alltaf eins og ástvinir okkar séu í bílnum sem fer á undan og kemur á móti okkur.


Eftir höfðinu dansa limirnir

hjalmur 

Varla þarf að fara mörgum orðum um gildi þess að sýna gott fordæmi. Nærtækast er að nefna ábyrgð foreldra og annarra uppalenda í því sambandi. En fyrirmyndirnar birtast víða í samfélaginu; fólk sem komist hefur til áhrifa og valda; fólk sem setur lög og reglur sem það ætlast til að aðrir hlýði. Máltækið segir að eftir höfðinu dansi limirnir og því hljótum við að gera þær kröfur til boðbera “fagnaðarerinda” af ýmsum toga að þeir gangi á undan með góðu fordæmi - öðrum til eftirbreytni. En því miður virðist reyndin önnur í alltof mörgum tilfellum. Í starfi mínu sem forvarnafulltrúi fylgist ég eðlilega með notkun öryggisbúnaðar og jafnframt því fólki sem ég tel að eigi að vera fyrirmyndir annarra í þeim efnum. Þar ber fyrst að nefna foreldra og forráðamenn barna og ungmenna sem þráfaldlega sjást aka án bílbelta og hjóla án reiðhjólahjálma á sama tíma og þeir gera þær kröfur að börnin þeirra spenni beltin og noti hjálma. Á reiðhjólum sjást óvarðir kollar fullorðinna á meðan börnin bera hjálm á höfði. Hið sama má segja um ýmsa ráðherra og bílstjóra þeirra sem ég hef séð aka með beltin óspennt.

Varla þarf að minna þessa aðila á að í landinu eru gildandi lög um skyldunotkun bílbelta.

Það hlýtur að vera eitthvað mikið að þegar alþingsmenn þjóðarinnar hunsa þau lög sem þeir setja sjálfir en ætlast á sama tíma til þess að sauðsvartur almúginn virði þau. Getum við ætlast til að ungmennin okkar, áhættufólkið í umferðinni, noti þessi öryggistæki, á sama tíma og höfðingjarnir skirrast við því?

Umferðarslysin fara ekki í manngreinarálit og víst geta háir sem lágir örkumlast og dáið á vígvelli umferðarinnar. Við hljótum þó að gera þær kröfur til boðbera laga og reglna að þeir sýni gott fordæmi og noti allan þann öryggisbúnað sem sannað er að kemur í veg fyrir alvarlega áverka í slysum. Að öðrum kosti hætta börn og ungmenni að bera virðingu fyrir lögunum en sjálf skynja ég ákveðin teikn í þá veru þegar þau spyrja - eðlilega - hvort höfðingjarnir séu hafnir yfir lög.

 

Eru læknar ekki búnir að uppgötva tölvupóstinn?

Angry Enn bólar ekkert á símatali frá blóðmeinalækninum mínum - þrátt fyrir að ég hafi samviskusamlega hringt þann dag sem gefinn var upp sem "símadagur" og óskað eftir að komast á hinn eftirsótta símalista læknisins. Þangað komst nafnið mitt, en enn bólar ekkert á símtali frá Guðmundi Rúnarssyni, lækni, sem lútir enn á niðurstöðum ítarlegra blóðrannsókna sem ég var látin gangast undir. Þótt mig sé farið að gruna að niðurstöðurnar gefi ekki til kynna bráðdrepandi sjúkdóm, er það lágmarkskurteisi að skýra sjúklingnum frá niðurstöðunum. Hverjar svo sem þær eru. Mér tókst í dag að veiða út úr símadömunni á læknastofunni tölvunetfang læknastöðvarinnar (fékk auðvitað blákalt nei, þegar ég óskaði eftir netfangi Guðmundar læknis) og sendi póst á manninn í þeirri vona að pósturinn bærist til hans í áframsendingu. Nú bíð ég spennt, því niðurstöður rannsóknanna kveða upp úr með það hvort ég geng á Hornstrandir í góðra vina hópi í sumar. Varla fer ég að æða á fjöll, eigandi á hættu að slasa mig og jafnvel blæða út uppá öræfum! Það er því undir Guðmundi Rúnarssyni blóðmeinalækni komið hvort ég geng á Hornstrandir í sumar. Og hana nú.


Frábær ungur maður

 

Það var sannarlega uppörvandi að lesa um unga manninn, aðeins 17 ára gamlan, sem bjargaði lífi lítils barns í sundlauginni í Kópavogi. Því hefur stundum verið haldið fram að ungmenni séu löt og hirðulaus, kærulaus og sjálfselsk. Þessi ungi maður afsannar þá kenningu. Hann tekur starf sitt alvarlega og vinnur fumlaust og ákveðið að því að endurlífga litla barnið. Þá kom fram í fréttinni að hann ynni á tveimur stöðum. Duglegur strákur. Sjálf var ég að taka á móti ungmennum frá Stuðlum sem komu í heimsókn til VÍS til þess að fá fræðslu um umferðarslysafrvarnir. Þessir ungu krakkar hafa misstigið sig á lífsins leið en eru að endurhæfa sig undir öruggri leiðsögn frábærs starfsfólks á Stuðlum. Það var vissulega gaman að taka á móti þeim. Þau voru kurteis, lifandi og spurul og sjálfum sér og Stuðlum til sóma í hvívetna. Krakkarnir voru öll búin að fá vinnu í sumar utan einnar stúlku sem ætlaði að fara í áframhaldandi meðferð, staðráðin í að ná sér til fulls. Þegar svona vel gengur er gaman að vera forvarnafulltrúi hjá VÍS.


Svartalognið og krafturinn

horn

Það var svartalogn við Skorradalsvatnið, þar sem finna má mín nýju hvíldarheimkynni, um liðna helgi. Byrjunin á sumarhúsalífi mínu lofar góðu og ekki sakar að umhverfið í Skorradal er ægifagurt - eins og reyndar Ísland allt í viðlíka blíðviðri. Hafði reyndar heyrt það frá minni ágætu vinkonu, Inger Önnu, sem er hreinræktaður Skorradalsbúi frá fornu fari, að óvíða væri yndislegra en í Skorradalnum. Þótt ég sé vissulega sammála Inger minni, er mér næst að halda að hún hafi ekki enn upplifað vestfirskan fjallasal um jónsmessuna í því stórkostlegasta logni sem hægt er að finna hér á landi. Í Haukadal í Dýrafirði kemst maður næst almættinu þegar fjöllin standa á haus í spegilsléttum firðinum og þögnin undursamlega er aðeins rofin af söngröddum fuglanna. Mikil ósköp hlakka ég til að fara vestur í sumar og ganga á Hornstrandir með góðum vinum og anda síðan að mér orkunni frá Arnarnesinu, handan við fjörðinn. Þá verð ég aftur barn, auðmjúk og bljúg frammi fyrir svo mikilfenglegu sköpunarverki almættisins.


Okkur kemur það öllum við

 Limaburdur

 

Ölvunarakstur sé eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum þjóðarinnar. Varla þarf að fara mörgum orðum um réttmæti þeirrar fullyrðingar - enda enda er það sannað að fimmta hvert banaslys á Íslandi tengist ölvunarakstri á einn eða annan hátt auk þess sem stóran hluta alvarlegra slysa má rekja til þess að ökumaður var drukkinn. Líklega hefði mátt koma í veg fyrir marga harmleiki götunnar ef tekist hafi að stöðva ökumennina áður en slys hlutust af.

 

Því miður virðist sem sumir veigri sér við að tilkynna til lögreglu ef þeir verða þess varir að ölvaður maður sest upp í bíl. Þetta á sérstaklega við ef hinn ölvaði er fjölskyldumeðlimur eða vinnufélagi en þá vilja margir loka augunum og telja að þeim “komi ekki við” hvað aðrir aðhafast. Slík viðhorf eru ekki aðeins ámælisverð - heldur beinlínis stórhættuleg. Hver myndi láta undir höfuð leggjast að tilkynna um eftirlýstan ofbeldismann, eða innbrotsþjóf sem staðinn er að verki? Líkingin er að því leyti til réttmæt að þeir sem beita fólk líkamlegu ofbeldi og þeir sem setjast undir stýri ölvaðir, ógna umhverfi sínu og geta skaðað saklaust fólk; fólk sem allt eins gæti verið nákomið þeim sem veigraði sér við að hringja til lögreglunnar og tilkynna um athæfið. Umferðarslysin fara nefnilega ekki í manngreinarálit.

           

Annar mikilvægur þáttur til að sporna við ölvunarakstri er öflug og markviss löggæsla. Fram hefur komið að ölvunarakstur sé mikið vandamál úti á landsbyggðinni þar sem það þykir nánast sjálfsagt að aka ölvaður  heim af ballinu eða kránni. Í ýmsum bæjarfélögum er löggæsla lítil á nóttunni og löggæslusvæðið stórt sem lögreglumennirnir á staðnum þurfa að sinna. Ef lögreglan þarf að sinna útkalli um langan veg geta ölvaðir ökumenn, og aðrir afbrotamenn umferðarinnar,  athafnað sig að vild án þess að eiga á hættu að mæta lögreglubíl. Sumir þeirra hafa þegar komist í skýrslur Umferðarstofu  yfir “mikið slasaða” og allt of margir komast á skrá yfir “látna í umferðinni” – eða það sem verra er; eru valdir að dauða eða örkumli farþega sinna.


Slysagildrur við hesthúsahverfi

hestar

 Ég las viðtal við Gunnar Sigtryggsson, hestamann, í Fréttablaðinu í dag þar sem hann segir frá óskemmtilegri reynslu sinni af nábýli framkvæmda við hesthúsahverfi. Gunnar datt af baki þegar hestur hans fældist vegna áreitis frá framkvæmdum nálægt hesthúsahverfi. Þetta tilfelli er aðeins eitt af mörgum slíkum og um það get ég vitnað því ég reið sjálf á milli hesthúsahverfanna í Heimsenda og Andvara og átti fullt í gangi með að hemja, annars dagfarsprúðan hest, sem var sífellt að kippast til vegna hávaða í vélum og tækjum. Það er nánast óríðandi á milli hverfa vegna vinnuvéla og hávaða frá þeim. Framkvæmdaaðilar taka ekki nógu mikið tillit til hestamanna og stöðva ekki tækin í tæka tíð áður en riðið er hjá. Ég sendi Gunna, vini mínum, góðar kveðjur með von um skjótan bata um leið og ég hvet vinnuvélastjórnendur og Þungaflutningabílstóra til að taka tillit til hestafólks.


Forvarnahelgin liðin

Helgin einkenndist af ferðalögum og forvörnum. Á laugardaginn var ég fengin til að halda fyrirlestur um forvarnir í sumarhúsum að beiðni Félags sumarhúsaeigenda í Borgarfirði. Eftir að upplýst sumarhúsaeigendur um varnir gegn vatnstjónum, innbrotum og eldsvoða, hélt ég í sumarbústað fjölskyldunnar í Skorradal og upplifði spegilsslétt Skorradalsvatnið í sannkallaðri, kaldri sumarblíðu. Eftir eitt stykki sakamálareyfara, gönguferðir og grillveislur, hélt ég í bæinn á löglegum hraða (því miður við mismikinn fögnuð samferðarmanna á þjóðvegunum) og endaði síðan helgina á frumsýningu myndarinnar "Annað líf Ástþórs" sem fjallar um lamaðan bónda frá Rauðasandi á Barðaströnd sem lætur fötlunina ekki aftra sér við sveitastörfin. Ég er svo lánsöm að fá að nota kafla úr myndinni til sýninga á umferðarfundum VÍS en víst er að það myndefni á eftir að vekja nokkra til umhugsunar um alvarlegar afleiðingar umferðarslysanna. Góð helgi leið án þess að ég heyrði í fátæka námsmanninum í Kaupmannahöfn. Bíð og vonast eftir símtali.

Samskiptalatir námsmenn!

 

Er ég ein um það að finnast barnið mitt, sem stundar nám í útlöndum, helst til latt að hafa samband? Líklega ekki, ef marka má vinkonur mínar sem einnig eru mæður námsmanna í útlöndum. Helstu samskiptin við börnin felast í innlögnum á bankareikninginn, eða svona allt að því. Símreikningurinn hefur hækkað á þessu heimili til mikilla muna - enda hringir drengurinn aldrei öðruvísi en á okkar kostnað. Það kann að vera að ég sé helst til stressuð vegna litla ungans í útlöndum og gleymi því alltof oft að hann er fullra 23 ára! Þótt drengurinn sé ekkí búsettur í annarri heimsálfu, þætti gamla settinu gaman að fá af og til símatöl frá fátæka námsmanninum - svona rétt til að heyra fréttir að heiman. Ef til vill sinnir internetið öllum fréttaþörfum þessa unga fólks. Datt svona í hug að skella þessu fram í þeirri von að ég sé ekki ein um þennan pirring. Móðurhjartað slær nefnilega jafn heitt þótt unginn sé sannarlega kominn af barnsaldri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband