Færsluflokkur: Dægurmál

Leiðinlegur ávani sumra karlamanna.

Í starfi mínu á ég oft samskipti við almenning sem er að leita ráða varðandi ýmis málefni sem tengjast forvörnum og öryggismálum. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema hvað sumir karlmenn hafa þann leiða ávana að kalla mig elskuna sína, þótt ég viti engin deili á þeim. "Viltu athuga þetta fyrir mig, elskan" segja þeir gjarnan í tíma og ótíma. Þetta líkar mér afar illa, enda myndi ég aldrei kalla karlmann elskuna mína (nema auðvitað bræður og syni). ég gerði smá tilraun um daginn þegar mér var orðið nóg boðið yfir "elskulegheitunum" í ónefndum opinberum starfsmanni og kallaði hann elskuna mína á móti! Það féll ekki í góðan jarðveg og maðurinn varð nánast hvumsa og kvaddi mjög snubbótt eftir að ég hafði afgreitt erindi hans með þessum orðum: "Ég skal kanna þetta fyrir þig, elskan og hafa síðan samband við þig á morgun. Ertu sáttur við það, elskan?"

 


Þarf einn að deyja í hverri fjölskyldu?

  Bergtora-&-Viktor-3

Í framhaldi af fyrri færslu minni, langar mig að deila með ykkur reynslu aðstandenda eftir sonar/bróðurmissi árið 2005. Viðtalið er birt með góðfúslegu leyfi þeirra. 

 

 

Mæðginin Bergþóra Harpa Þórarinsdóttir og Viktor Guðmundsson ræða missi sinn en sonur Bergþóru og bróðir Viktor, Þórarinn Samúel Falk, 15 ára, lést í umferðarslysi í Öxnadal þann 17. júní árið 2005

“Nokkrum vikum fyrir slysið dreymdi Dóra minn draum. Í draumnum var hann staddur við leiði afa míns, sem hvílir í horni kirkjugarðsins hér í Garðinum. Dóra þótti hann vera að moka fyrir blómum á leiði afa mín. Líklega hefur Dóri minn verið berdreyminn, því nú hvílir hann sjálfur við hlið afa.”

 

Þetta segir Bergþóra Harpa Þórarinsdóttir, móðir Þórarins Samúels Falk Guðmundssonar, sem ávallt var kallaður Dóri og var aðeins 15 ára þegar hann lést í umferðarslysi í Öxnadal, aðfararnótt 17. júní  árið 2005.  Í sama slysi beið 18 ára félagi hans og ökumaður bílsins, Sigurður, einnig bana. Slysið er mörgum minnistætt þar sem tveir ungir drengir létust í blóma lífsins og einnig vegna þeirrar hryggilegu staðreyndar að bílnum var ekið á ofsahraða með þessum skelfilegu afleiðingum. Dóri var farþegi í öðrum tevggja bíla sem voru í samfloti til Akureyrar en vinahópur í þessum tveimur bílum hugðist sækja svokallaða bíaldaga á Akureyri þessa helgi. Bróðir Dóra, Viktor, var með í för og var hann í seinni bílnum sem koma að slysinu, örstuttri stund síðar. Viktor, sem er 18 ára, hét því á dauðastund bróður síns að hann skildi gera allt sem í hans valdi stæði til þess að koma í veg fyrir að svona harmleikur endurtæki sig. Viðtalið, sem hér fer á eftir, er liður í þeirri viðleitni. Móðir hans, Bergþóra, er einnig tilbúin að ræða þessa miklu lífsreynslu í þeirri von að sú frásögn veki fólk til umhugsunar.

 

Fjölskyldan býr á Suðurnesjum. Bergþóra býr í Garðinum en Viktor býr hjá föður sínum í Keflavík. Í upphafi hverfum við aftur nokkra mánuði aftur í tímann og ég bið þau mæðgin að rifja upp daginn sem breytti lífi þeirra til frambúðar.

 

Bergþóra: Ég sá Dóra í síðasta sinn um fimmleytið þann 16.júní. Þá hafði ég gefið honum leyfi til að fara með strákunum norður á bíladagana. Hann fór þá til Reykjavíkur á undan og ætlaði síðan norður síðar um kvöldið með Sigga. Það var einhver beygur í mér fyrir þessari ferð og ég sagði honum að ég ætlaði að koma norður til Akureyrar og vera í bænum um helgina. Ég sagði honum þó ekki hvenær ég myndi koma. Ég hafði einhverja slæma tilfinningu fyrir þessari ferð og til marks um það kláraði ég allt sem ég þurfti að gera þennan dag – svona rétt eins og ég væri að undirbúa mig fyrir eitthvað.

 

Viktor: Við vorum sex saman, strákarnir, á tveimur bílum. Við Danni, vinur minn, fórum síðar um kvöldið eftir að hafa klárað að gera við bílinn hans Danna. Þá tókum  við allan farangur hópsins með okkur, en við ætluðum að vera alla þessa helgi fyrir norðan á tjaldstæðinu. Það var því algjör tilviljun að Dóri var með Sigga í bíl en ekki okkur Danna.

 

Viktor segir þá félaga hafa verið með hálfgerða bíladellu sem sýnir sig í því að sjálfur hafi hann átt fjórtán bíla á þeim tíma sem hann hefur haft bílpróf og segist alltaf hafa haft gaman af að skipta um bíla, gera þá upp og grúska í þeim. Það hafði því verið ofur eðlilegt að þeir skildu vilja sækja bíladaga á Akureyri.

 

Viktor: Við vorum í samfloti lengst af ferðarinnar en eftir að við Danni þurftum að stoppa í Varmahlíð, skildu leiðir og þeir voru svolítið á undan okkur. Ég viðurkenni fúslega að við ókum nokkuð hratt og vorum lengst af á 1120-130 km. hraða og ég reikna með að Siggi hafi einnig ekið hratt, enda var hann talsvert á undan okkur. Ég hafði reglulega samband við þá í síma og allt virtist vera í lagi. Ég bað þá að bíða eftir okkur en þeir Siggi vildi ólmur koma sem fyrst til Akureyrar þar sem frænka hans beið hans.

Bergþóra: Ég hringdi í Dóra af og til og síðasta skiptið sem ég heyrði í honum var tólf mínútur yfir miðnætti á þjóðhátíðardaginn. Hann sagðist bara  hafa ætlað að láta mig vita af sér og bað mig um að hringja ekki í sig þar sem hann ætlaði að leggja sig. “Þú veist þá að það er allt í lagi,” sagði hann síðan í lok samtalsins og kvaddi mig  með orðunum: “Ég elska þig mamma.” Ég svaraði honum með sömu orðum en það var venja hjá okkur í fjölskyldunni að kveðjast með þessum hætti. Þessi síðustu samskipti okkar eru mér afar dýrmæt.

 

Þau Bergþóra og Viktor eiga greinilega afar erfitt með að rifja þessa atburði upp og taka sér hlé áður en þau koma að næsta þætti í þessum harmleik, þ.e. aðkomunni að slysinu og véfréttinni sem barst til móðurinnar sem hafði haft illa tilfinningu fyrir þessari ferð.

 

Viktor: Það liðu ekki nema 20 mínútur frá því ég talaði við strákana þar til við komum að slysinu. Ég var búinn að taka við stýrinu á bílnum hans Danna og það fyrsta sem ég sá var að eitthvað var að gerast framundan. Síðan sá ég felgu sem mér fannst ég kannast við og síðan svartan bíl langt fyrir utan veg. Ég hugsaði með mér að þetta þyrfti ekki að vera bíllinn hans Sigga og vildi í raun ekki trúa því. Bílum hafði verið lagt þarna hjá og ég sá ekki vel svarta bílinn en svo sá ég bílnúmerið og þá vissi ég hvað hafði gerst. Ég man ég stökk út úr bílnum áður en hann stoppaði og hljóp sem fætur toguðu að bílflakinu. Mér fannst eina og þetta væri draumur sem ég hlyti að vakna af. Allt var svo óraunverulegt; rétt eins og í kvikmynd. Ég sá að Siggi var látinn og ég man ég hugsaði með mér hvað ég vorkenndi foreldrum hans. Ég vissi ekki á þeirri stundi að Dóri væri að deyja – enda var hann með lífsmarki og leit ekki út fyrir að vera í bráðri lífshættu. Hann svaraði mér einhverju þegar ég talaði til hans. Annars man ég það aðallega hversu reiður og örvæntingarfullur ég var þarna á slysstað. Þetta var allt svo ótrúlegt og fjarstæðukennt – en samt var þetta raunverulegt. Svo komu sjúkrabílarnir og síðan gerðist eitt af öðru. Þegar ég kom á spítalann var mér sagt að tveir væru látnir úr slysinu og þá vissi ég að Dóri væri dáinn því bæði Böggi og Ívar, hinir strákarnir í bílnum, töluðu við mig á slysstað.

 

Bergþóra: Ég fékk símtal frá föður strákanna klukkan hálf þrjú um nóttina þar sem hann tjáði mér að eitthvað hræðilegt hefði skeð fyrir norðan; einn væri látinn og Dóri væri meðvitundarlaus. “Það kom að því,” hugsaði ég með mér að ég færi líka norður. Áður en að því kom, hrindi ég í föður minn sem hafði mig ofan af því að fara norður en kom þess í stað strax til mín, ásamt konu sinni. Móðir  mín kom einnig til mín þessa nótt. Ég hringdi strax í Viktor en það svaraði ekki í símann hans. Ég vissi að Dóri væri dáinn. Fann það á  mér.

 

Viktor: Ég gat ekki sagt mömmu þetta sjálfur og hafði því samband við vinkonu hennar í næsta húsi of sagði henni þetta. Það var síðan afi minn sem hringdi í mig frá mömmu og þá sagði ég honum sannleikann.

Bergþóra: Þetta kom svona smátt og smátt. Ég sá það á pabba að hann var að fá slæmar fréttir þegar hann var að tala í símann og í sömu andrá kom vinkona mín inn úr dyrunum. Þannig fékk ég í raun staðfestingu á því sem ég þegar vissi.

Viktor: Ég sá að Siggi hafði ekið á ofsahraða. Það fór ekkert á milli mála enda var bíllinn það langt frá veginum. Vegurinn var mjög ójafn þarna vegna. Mér var sagt að það væri vegna þungaflutninganna en þessir stóru bílar mylja undirlagið með þessum afleiðingum. Böggi og Ívar, þeir sem lifðu slysið af, sögðu mér eftirá að þeir hefðu verið á yfir 200 kílómetra hraða þarna skömmu fyrir slysið en vissi ekki alveg hver hraðinn var þegar þeir fóru útaf. Siggi mun hafa tiplað á bremsunni sem varð til þess að bílinn nánast flaug útaf veginum.

 

Sjálfur segist Viktor ekki vera saklaus af hraðakstri í gegnum tíðina og kveðst margoft hafa ekið á ólöglegum hraða.

 

Viktor: Ég hagaði mér eins og fáviti í umferðinni. Ég stakk lögguna margoft af á Reykjanesbrautinni og hafði mjög gaman af að spyrna þegar enginn sá til. Ég hugsaði aldrei út í afleiðingarnar og hef sjálfsagt haldið að ég væri ódauðlegur og ekkert gæti komið fyrir mig. Það þurfti þetta til að stoppa  mig. Ég hét því þegar bróðir minn var að deyja að ég skildi aldrei aka svona hratt aftur. Ég lenti í árekstri í fyrra og slasaði mig í baki og er enn að takast á við afleiðingar þess slyss. Samt lét ég mér ekki segjast og átti eftir að aka oft mjög hratt eftir það. En ekki lengur. Ég hét því líka að ég myndi gera allt sem ég gæti til að koma í veg fyrir að svona hlutir endurtaki sig. Ég vil ekki trúa því að það þurfi einn að deyja í hverri fjölskyldu til að fólk fari að átta sig á að hraðinn drepur. Ég neita því þó ekki að mig langar oft til að spyrna en læt það ekki eftir mér. Ég verð að vera góð fyrirmynd núna.

 

Bergþóra hefur hlustað á son sinn og kinkar reglulega kolli undir frásögn hans. Hún segir mér að oft hafi hún óttast um strákana sína, eins og mæðrum er gjarnt að gera, en þó frekar óttast um Viktor en Dóra.

 

Bergþóra: Viktor hefur alltaf verið mikill fyrir sér og ör og ég bjóst frekar við að fá slæmar fréttir af honum en Dóra. Þeim bræðrum kom ekki vel saman þegar þeir vor yngri en undir það síðasta voru þeir orðnir nánari vinir og Dóri var farinn að stússast í bílum með bróður sínum og hafa áhuga á akstursíþróttum og bílum eins og vinahópurinn í kringum þá.

 

Hún segist taka sorgina út stig af stigi og alltaf hafa beðið eftir sjokkinu stóra.

 

Bergþóra: Það er engin ein aðferð til að takast á við sorgina. Hún er alls staðar og allt um kring. Það er allt sem minnir á son minn. Hver tími og hvert smáatriði vekur upp minningar og stundum er sorgin svo yfirþyrmandi að hún er að buga mig. En ég veit líka að Viktor og aðrir ástvinir Dóra eiga líka um sárt að binda og þess vegna verð ég að standa mig. Ég fæ mikið út úr því að tala við annað fólk og líður skást ef ég er ekki ein. Svo held ég úti bloggsíðu www.fjallkonan.tk þar sem ég læt hugann reika, tala við Dóra og fæ útrás fyrir tilfinningar mínar. Það hefur líka hjálpað mér mikið að finna hlýhug annarra og lesa skrifin frá öðrum á síðunni.

 

Viktor: Ég er kannski brattur svona dags daglega en ég á mínar erfiðu stundir og er ekkert að fela það að oft græt ég mig í svefn á kvöldin. Mér finnst líka stundum eins og vinir Dóra forðist að tala um hann eða eitthvað tengt honum – svona rétt eins og þeir haldi að það særi mig. En mér líður alltaf vel þegar ég tala um bróður minn og vil minnast hans  eins og hann var og alls þess sem hann stóð fyrir og gerði. Það hryggir mig ekki þegar talað er um hann. Síður en svo.

 

Bergþóra: Við fórum norður um verslunarmannahelgina og settum blóm og kerti á staðinn sem strákarnir dóu. Mér leið skelfilega illa og hélt ekki að þetta yrði svona erfitt sem raun bar vitni.

Viktor: Mér varð litið upp fjallið fyrir ofan veginn og sá hversu fallegir tindarnir eru þarna og hugsaði þá með mér að e.t.v. hefði Dóri dáið á fallegasta staðnum í Öxnadal. Mig dreymdi strákana líka í sumar. Mér fannst þeir standa í dyrunum á herberginu mínu. Þeir voru glaðir og kátir og sögðust ekki hafa verið sáttir fyrst í stað en væru orðnir það núna. Þeir vildu líka koma þeim boðum á framfæri að við, sem eftir lifum, ættum ekki að vera svona sorgmædd og reyna þess í stað að sætta okkur við orðinn hlut.

 

Bergþóra: Sorgin er mikil og það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki um Dóra. Allt minnir á hann. Ég veit að það verður erfitt um jólin og eins þegar afmælisdagurinn hals rennur upp. En ég á afar goða fjölskyldu og vini sem standa þétt við bakið á mér. En mér líður þó ekki síður illa þegar ég heyri fréttir af slysum þar sem ungt fólk á í hlut. Það vekur upp sárar tilfinningar.

 

Þau Bergþóra og Viktor segjast með viðtali þessu vilja vekja aðra til umhugsunar um skelfilegar afleiðingar hraðaksturs Það sé ein af þeirra leiðum til að vinna sig út úr sorginni.

 

Viktor: Það þurfti þetta til að stöðva mig. Ég viðurkenni það hreinskilnislega. Ég væri sennilega ennþá að spyrna á ofsahraða ef ég hefði ekki misst bróður minn í sumar í umferðarslysi sem varð vegna ofsaaksturs. En það er kannski sorglegast af öllu að  það skuli hafa þurft þetta til að ég hagaði mér eins og maður í umferðinni. Það á ekki einn að þurfa að deyja í hverri fjölskyldu til þess að fólk vakni til vitundar um harmleiki umferðarinnar. Ef þetta viðtal verður til þess – er tilganginum náð.


Sárin sem aldrei gróa

 

Bergtora-&-Viktor-Nú eru bráðum liðin tvö ár frá því tveir ungir menn létust í umferðarslysi í Öxnadalnum. Þar var um ofsaakstur að ræða, einn af mörgum slíkum sem leitt hafa til dauða undanfarin ár. Eftir standa aðstandendur sem eiga um sárt að binda. Þeirra sár gróa aldrei, þótt tíminn vinni með þeim. Ég veit að mótir Dóra, yngra drengsins sem lést, kvíðir 17. júní því þá eru tvö ár liðin frá slysinu. Þjóðhátíðardagurinn verður því enginn gleðidagur í lífi hennar, né móður hins drengsins, um ókomna framtíð. Nú er sumarið framundan og um næstu mánaðarmót fá ungu skólanemar sína fyrstu útborgun og þá hefur reynslan sýnt að þau fara flest í útilegu eða sína fyrstu ferð út á þjóðvegina. Við krossum fingur og vonum að allir komi heilir heim.


Hjólhesturinn virkjaður á ný

 

 hjol

Núget ég hlakkað til fimmtudagsins. Þá munum við, félagskonur í Hjólreiðaklúbbi hafnfirskra kvenna, hjóla um Fjörðinn á hjólhestum okkar. Ég gerðist meðlimur í félaginu í fyrrasumar og er það annað félagið sem ég geng til liðs við á sl. 14 árum en hitt félagið er Kattavinafélag Íslands. Fékk mig fullsadda af félagsstörfum eftir að hafa ritað fundargerðir í nokkur ár fyrir Lögreglufélag Reykjavíkur. Því virðingarheiti fylgdi ákveðin kvöð sem fólst í því að vélrita (á rafmagnsritvél) ársskýrslu formanns á fornmáli! Það var hafnfirsk vinkona mín, Svanhildur Konráðsdóttir, sem narraði mig í hjólhestaklúbbinn syðra og sé ég ekki eftir því. Hún hefur að vísu mætt illa, blessunin, verið upptekin við að leiða menningu yfir Reykvíkinga. Vonandi mætir hún á fimmtudaginn og tekur þátt í björtum dögum með okkur hinum, hafnfirsku drottningunum.


Varhugaverð einkavæðing.

logr

Mér brá í brún að heyra að nú séu uppi hugmyndir um að einkavæða lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglustörf eru vandasöm störf sem krefjast mikillar þekkingar, reynsu og ekki síst menntunar. Í lögregluna þurfa að veljast úrvals menn og konur; fólk sem getur staðið undir miklu álagi við erfiðar aðstæður. Ég tala þar af reynslu - enda starfaði ég sem lögreglumaður í níu ár. Það var á þeim árum sem allar aðstæður í samfélaginu voru mun "mildari" en nú þekkist; þ.e. ekki var eins mikið um alvarleg afbrot, fíkniefni og gróft ofbeldi. Nú er öldin önnur og því væri nær að auka kröfur til lögreglumanna með meiri menntun í stað þess að slaka á þeim. Lögreglumönnum er gefið mikið vald og vandmeðfarið. Í starfið eiga því að veljast afburðamenn og konur. Dyraverðir geta að sjálfsögðu sótt um lögreglustarfið en þá þurfa þeir að gangast undir sömu inntökuskilyrði og aðrir. Ég vara því við öllum hugmyndum um einkavæðingu lögreglunnar.


Að troðast framfyrir í biðröðinni

 hrossSvona getur farið fyrir þeim sem troðast framfyrir í biðröðinni!

Hann er óþolandi sá ósiður sumra að troðast framfyrir í biðröðinni og ganga þannig gróflega á þeirra sem beðið hafa þolinmóðir. Þið sjáið þetta ekki í bankanum því þar myndi engum detta í hug að svindla sér inn í röðina. Þið sjáið þetta heldur ekki í Bónus eða Hagkaup - enda myndi það seint verða liðið ef einhver træðist fram fyrir með körfuna sína, sneisafulla. En hvar er þá verið að troðast framfyrir í röðinni? Jú, þið sjáið það berlega þegar þið eruð á leiðinni heim úr helgarferðinni á sunnudagssíðdegi. Á Vesturlands- og Suðurlandsvegi myndast gjarnan langar biðraðir bíla sem nálgast höfuðborgina. Alltof oft sjáum við frekjudalla sem svindla sér framar í röðinni. Aka á ofsahraða framúr fjölda bíla og troða sér svo inn í bílaröðina, til þess að komast sem fyrst heim til sín. Hverslags mannasiðir eru ganga svona freklega á rétt þeirra sem á undan eru í biðröðinni? Engir. Slíkt háttarlag er helber yfirgangur og er í raun líkur því að ryðjast framfyrir í röðinni í bankanum. Hver eigum við, sem sýnum tillitssemi og biðlund, að gæta?

 


Með hættuna í eftirdragi?

 

Á undanförnum árum hefur orðið mikil fjölgun á eftirvögnum í umferðinni og þá einkanlega hvers konar ferðahýsum eins og hjólhýsum, tjaldvögnum, fellihýsum o.s.fr. Það þótti nánast óhugsandi fyrir nokkrum árum að ferðast um með stórt hjólhýsi aftan í fjölskyldubílnum en sú tíð er löngu liðin með tilkomu betri vega og bundins slitlags á flestum fjölförnustu vegum landsins. Reynslan hefur þó sýnt að margir virðast ekki gera sér grein fyrir að ákveðnar reglur gilda um eftirvagna á Íslandi. Það eru t.d. takmörk fyrir því hversu þunga eftirvagna má hengja aftan í bíla og fer það eftir þyngd bílsins sem dráttartækis. Þær upplýsingar koma fram í skráningarskírteini bílsins og ætti því enginn að velkjast í vafa um þær reglur. Því miður virðist líka bera nokkuð á því að ökumenn horfi framhjá þessum reglum og beiti of litlum bílum fyrir of þunga eftirvagna. Slíkt ábyrgðarleysi kallar á slys og óhöpp. Aksturseiginleikar bílsins breytast mjög mikið þegar eftirvagn er tengdur honum og margir hafa litla sem enga reynslu af slíkum akstri á þjóðvegum landsins. Þá hefur reynslan sýnt að margir halda af stað með slík tæki í eftirdragi, þrátt fyrir að válynd veður þar sem reynslan hefur sýnt að eftirvagnar taka mikinn vind í sig því hætta á útafakstri og/eða veltu. Margir skirrast einnig við að setja útstandandi hliðarspegla á bíla sína, en sá búnaður er nauðsynlegur til þess að fyllsta öryggis sé gætt. Dráttarbúnaði er viða ábótavant og þá vantar oft lögboðnar öryggiskeðjur milli dráttarbíls og eftirvagns. Mikil ábyrgð hvílir einnig á söluaðilum eftirvagna að upplýsa kaupendur um þær reglur sem gilda um drátt eftirvagna og þá þyngd sem draga má án sérstakt hemlabúnaðar eftirvagns. Heyrst hafa dæmi um söluaðila sem létta hjólhýsið/fellihýsið með því að taka ýmsan búnað úr því þannig að tækið vigti undir 750 kg. en það er hámarksþyngd eftirvagns, án sérstaks hemlabúnaðar. Hemlabúnaður eftirvagns
Allir eftirvagnar með leyfða heildarþyngd yfir 750 kg skulu búnir hemlum. Oftast er um að ræða svokallaða ýtihemla eða rafmagnshemla á vögnum með leyfða heildarþyngd 3500 kg. eða minna. Á þyngri vögnum skulu hemlar vera samtengdir hemlum dráttarbílsins.
Ekki er skylt að hafa hemlabúnað á eftirvagni með leyfða heildarþyngd 750 kg., eða minna. Rétt er að benda á að einungis stærstu og öflugustu fólksbílar (og jeppar) mega draga hemlalausa vagna sem eru sem næst 750 kg þungir.
Fólksbifreið og sendibifreið með eftirvagn má ekki aka hraðar en 80 km/klst. Bílar með óskráð tengitæki mega ekki fara hraðar en 60 km/klst. Enn munu vera í umferðinni nokkrir gamlir eftirvagnar, sem eru með leyfða heildarþyngd meiri en 750 kg og án hemla. Eru þeir frá þeim tíma áður en reglur voru settar um að allir eftirvagnar með leyfða heildarþyngd yfir 750 kg skuli búnir hemlum. Hámarkshraði með þessa eftirvagna er 60 km/klst en rétt er að benda á að ekki eru nema fáir bílar sem mega draga þessa vagna. Þá skal benda á að hætta getur skapast þegar bilar hemla með svokallaðan ABS

Þegar heim er komið vantar allan aukabúnað, m.a. vatnstank, gashylki og annan búnað sem þyngir eftirvagninn langt yfir leyfilega hámarksþyngd án hemlabúnaðar en leyfileg hámarksþyngd miðast alltaf við heildarþyngd.
eftirvagnsins.
Margir nýlegir fólksbílar eru búnir svokölluðum ABS (anti block system) hemlum. Eftirvagnar með ýtihemla eru sjaldan með þennan búnað. Þessi samsetning getur verið hættuleg þegar nauðhemlað er á miklum hraða á blautum vegi. Hjól bílsins stöðvast ekki þannig að hægt er að stýra bílnum við slíkar kringumstæður. Öðru máli gegnir um vagninn, sem missir veggripið og getur lagst fram með bílnum.
Þar sem nú fer í hönd einn mesti ferðatíminn er fólk hvatt til þess að huga að þessum málum í tíma.


Af sumarhúsalífi

 skorradalur

Fyrsta helgin í hinu nýja sumarhúsalífi fjölskyldunnar er að baki. Dvölin stóð undir væntingum og veðrið var með ágætasta móti, þrátt fyrir að spáin væri ekki uppbyggjandi. Hansarósin, sumarblómin og fjölæru plönturnar fengu sinn stað og tengdadóttirin sýndi óvænta hæfileika og setti upp rúllugluggatjöld - ein og óstudd. Þar mundaði hún járnsögina og borvélina eins og þaulvanur iðnaðarmaður. Hinn forvarnafulltrúinn á mínum vinnustað leitt inn með fjölskyldu sína og farið var í eina kaupstaðaferð í Borgarnes. Það var ekki laust við að ég hugsaði hlýlega til Spalar fyrir það að gera okkur kleift að aka undir Hvalfjörðinn - enda munu ég eiga aka nokkrar ferðirnar þar undir í framtíðinni. Líklega hefði okkur ekki dottið í huga að fjárfesta í sumarhúsi í Skorradal ef göngin hefðu ekki verið komin til sögunnar. Sakna lítt Hvalfjarðarins, þótt fallegur sé. Nú hlakka ég til næstu helgar.


Dýr var blandarinn allur.

Í hinu nýja lífi mínu og bónda míns, sem gengur út á heilsueflingu og hollustu í hvívetna, fjárfesti ég í blandara. Ég ákvað í fyrstu að festa ekki mikla fjármuni í þessu nytjatæki og valdi einn sem kostar 3.990 krónur í versluninni Max. Við fyrstu hræru stöðvaðist nýi blandarinn endanlega og því var ekkert annað að gera í stöðunni en skila honum. Ég fékk annað eintak og hafði framleitt einar sex hrærur þegar sá gaf einnig upp öndina. Á þessum tímamótum var ég orðin dálítið úrill og fór því með blandara hinn síðari og skilaði honum til föðurhúsanna. Við afgreiðsluborðið var elskuleg ung stúlka, ef erlendum uppruna, sem skildi illa ástkæra ilhýra málið. Hún lét mig bíða dágóða stund þangað til verslunarstjórinn kom á vettvang. Sá tók blandarann, orðalaust, og gaf stúlkunni fyrirmæli um að afhenda mér enn eitt eintakið af 3.990 kr. blandaranum. Síðan var hann rokinn. Þar sem ég hafði ekki á huga á að eignast einn ónýtan blandara í viðbót, lagði ég umtalsvert fjármagn í þetta þarfatæki og valdi stórvirka vinnuvél frá heimsþekktu vörumerki sem hefur ekki slegið feilpúst þjónar heilsueflingu okkar hjóna hnökralaust. Ég hefði gjarnan viljað fara með viðskipti mín annað eftir þessa reynslu en það reyndist ekki hægt, þar sem ég fékk ekki endurgreitt og varð því að skipta við Max og þeirra fólk þrátt fyrir skort á þjónustulund og gróflega misnotkun á mínum dýrmæta tíma sem fór í ferðirnar þrjár (með þeirri fyrstu) bið í hálftíma í allt og kostnað sem óneitanlega fylgdi þessu umstandi öllu. Ekki fékk ég svo mikið sem afsökunarbeiðni - hvað þá afslátt af blandaranum dýra og góða. Ég tel það fremur ólíklegt að við hjón venjum komur okkar í Max framtíðinni.

Það kostar ekkert.

 

sogsFyrir nokkru sá ég viðtöl við ungt fólk sem tjáði sig um gildi þess að vera í góðu sambandi við foreldra sína. Þar kom fram að það besta sem foreldrar þeirra gátu gefið þessum ungmennum var tími. Samverustundir. Einn talaði um að gaman væri að elda með pabba sínum, annar talaði um þegar fjölskyldan horfði á sjónvarp saman og enn einn um það eitt að tala við foreldra sína væri sér mikilvægt. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að unglingarnir vilja njóta meiri samvista við okkur fullorðna fólkið og þar eru kröfurnar ekki miklar; aðeins það eitt að tala við mömmu og pabba gefur lífi þeirra aukið gildi. Ég las einu sinni aðra grein þar sem fram kom hjá sálfræðingi að samskipti barna og fullorðinna fælust alltof oft í því að skipta börnunum fyrir. Sálfræðingurinn talaði um að foreldrar notuðu um of boðháttinn í samskiptum sínum. Sjálf eignaðist ég börnin mín alltof ung og hafði varla þroska né getu til að ala þau upp á þennan mikilvæga hátt. Sá þroski er nú vonandi kominn og hann nýti ég í umgengni við barnabörnin mín; tvíburastelpurnar  mínar tvær sem eru bestu vinkonur mínar og trúnaðarvinir. Það trúa því víst fæstir - en við stelpurnar skiptumst á fötum og förum saman á popptónleika! Uppvaxtarár barnanna okkar eru þau mikilvægustu í lífi þeirra og víst er að minna væri um alls konar óáran, vímuefnaneyslu, afbrot og fl. ef fólk gæfi sér tíma til að njóta þessara ára með börnunum sínum. Það kostar auðvitað tíma - en hann er hægt að fá með því t.d. að sleppa sjónvarpsætti. Það þarf ekki meira til og það kostar enga peninga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband