Færsluflokkur: Dægurmál

Annir og Arnaldur.

Úff. Nú er mesta törnin að baki. Það hefur verið annasamt hjá mér undanfarnar vikur. Ég þeytist á milli framhaldsskóla og boða "fagnaðarerindið" í umferðarmálunum og stýri mínum elskulega útvarpsþætti, Dr. Ruv, á fimmtudögum. Nú eru annirnar að mestu að baki - enda framhaldsskólanemar á leið í prófin. Ég á samt eftir FB sem alltaf er gaman að koma í.

Sigga Hilmars, vagnstjóri, kom til mín í viðtal í síðasta þætti og var gaman að tala við þennan reynslubolta úr umferðinni - enda hefur hún ekið strætó í 22 ár. Sigga er einnig bloggari  og skrifar afar athyglisverða pistla á bloggsíðu sína www.siggahilmars.blog.is.

Annars hef ég legið í bókum að undanförnu. Nú var ég að ljúka við nýju bókina hans Arnaldar Indriðasonar. Afgreiddi hana á einum sólarhring. Hún kemur á óvart. Skemmtilegt og nýstárlegt plottið í henni.

Á morgun ætlar vinkona mín, ljóðskáldið Ólína Þorvarðardóttir, að mæta í morgunverð í Heiðvanginn til mín ásamt ektamanni sínum en þau hjón eru í kaupstaðaferð hér í höfuðborginni. Helgin verður róleg og fer að mestu leyti í hvíld og lestur, þ.e. ef ég freistast til að kaupa fleiri bækur sem ég geri án efa.

Góða helgi.


Af vestfirskum tröllum og skólafólki með lág laun.

Árlega kallar móðir mín saman stórfjölskylduna og býður uppá sviðasultu, slátur og sveskjugraut með rjóma. Veislan var heima hjá mér á sunnudaginn - enda þarf nægilegt rými til þess að hýsa fjölskyldu mína, sem sjálf kallar sig "Tröllafjölskylduna". Veit ekki hvers vegna en líkleg skýring er limaburður og útlit og e.t.v. matarlyst þessa hreinræktaða vestfirska ættbálks. Alla vega lágu einir 10 lifrapylsukeppir og 4 blóðmörskeppir, ásamt miklu magni sviðasultu sem móðir mín elskuleg hafði búið til vikuna á undan. Þetta var hin skemmtilegasta samkoma og mikið skrafað og skeggrætt.

Mánudagur og loksins farið að rofa til í umferðarfundaheimsóknum mínum í framhaldsskóla landsins. Þessi árstími einkennist af þeytingi milli landshluta og skóla á höfuðborgarsvæðinu. Í dag var ég að ljúka við 13. bekkinn í Verslunarskólanum. Alltaf jafn gaman að koma þangað með umferðarffræðslu og nemendur hreint yndislegir. Eftir þessi 13 ár sem ég hef verið á ferðinni milli framhaldsskóla hef ég eignast góða vini meðal framhaldsskólakennara; fólk sem tekur mér fagnandi á hverjum vetri. En mikið skelfing eru laun þeirra léleg!  Ég ætlaði varla að trúa því að vel menntaður framhaldsskólakennari slefaði í 250.000 krónum á mánuði. Það er til skammar að laun kennara skuli ekki vera hærri en raun ber vitni. Í þrettán ár hef ég fylgst með kennurum að störfum og veit því vel hversu mikið ábyrgðarstarf það er að uppfræða ungmenni þessa lands. Kennarar ættu því að vera með helmingi hærri laun en þeir sem ráðnir eru til að sýsla með peninga og verðbréf. En það virðist vera mikilvægara og "verðmætara" að vinna með peninga en fólk. Furðulegt - en því miður satt.


Bækur, bækur. Freistingar sem erfitt er að standast.

Þegar nýútkomnar bækur eru annars vegar, er erfitt að standast freistingarnar. Einhvern veginn finnst mér allt önnur tilfinning að eiga bókina sem ég les í stað þess að leigja hana á bókasafni eða fá hana lánaða. Það eru því farnar ófáar krónur úr sameiginlegum sjóðum okkar hjóna í bækur sem ég lauma heim þessa dagana. Að vísu tel ég ekki fram nema aðra hverja í þeirri von að minn ektamaki lesi ekki bloggið mitt. Víst ætti ég að vera hagsýn og bíða þess að samkeppnin fari að virka þannig að bækurnar lækki í verði - en ég get einfaldlega ekki beðið svo lengi.

Ég eignaðist Breiðavíkurdrenginn og Arnald í þessari viku og hef þegar lesið um drengina og er að verða búin með þá síðarnefndu. Líklega ein besta bók Arnalds um Erlend og félaga til þessa. Mikið hlakka ég líka til þess að lesa bækurnar sem von er á frá Vigdísi Grímsdóttur og Þráni Bertelssyni.

Get varla beðið eftir að klára Arnald í kvöld. Geymi mér ljóðabækur vinkvenna minna, Ólínu og Gerðar þar til síðar. Ætla að eiga þær til góða - enda þarf sérstaka stemmningu til að lesa ljóð.


Verndum Hengilssvæðið

Efni: Athugasemd við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir - Bitruvirkjun, allt að 135 MW jarðvarmavirkjun í Sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.

Ég undirrituð mótmæli fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur
á svokölluðu Hengilssvæði með eftirfarandi atriði í huga:
1.      Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís
íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar
2005. Nú, þegar verið er að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu svo gríðarlega sem raun ber vitni,
byggja á öllum auðum blettum og fækka útivistarsvæðum í þéttbýli, er brýnna en nokkru sinni að íbúar
höfuðborgarsvæðisins eigi kost á að njóta óspilltrar náttúru í hæfilegri dagsferðarfjarlægð frá heimilum
sínum. Þetta svæði er eitt örfárra í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt er að ganga um í
friði og ró, njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar fjarri amstri dagsins og síaukinni bílaumferð á
höfuðborgarsvæðinu.

Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta íbúa höfuðborgarsvæðisins og
afkomendur þeirra þessum lífsgæðum til þess eins að þjóna hagsmunum erlendra auðhringa í áliðnaði
eða annarri stóriðju. Þar af leiðandi mótmæli ég einnig að hluta svæðisins verði breytt í iðnaðarsvæði
skv. fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Ölfuss.
2.      Ein helsta tekjulind íslensku þjóðarinnar nú er ferðaþjónusta. Erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst
til Íslands til að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem landið hefur upp á að bjóða. Við auglýsum landið
sem óspillta náttúruperlu og á þeim svæðum sem það loforð stenst standa ferðamenn á öndinni yfir
þeirri fegurð sem við þeim blasir. Hengilssvæðið er einn þessara staða og vinsælt að fara þangað í
dagsferðir með erlenda ferðamenn, ýmist gangandi eða á hestbaki. Margir ferðamenn gera stuttan
stans á landinu og þá er nauðsynlegt að geta sýnt þeim óspillta náttúru sem næst
höfuðborgarsvæðinu.

Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta ferðaþjónustuna tækifæri til að sýna
erlendum ferðamönnum óspillta náttúru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og legg til að svæðið verði
friðað til frambúðar.
3.      Framkvæmdaraðili virkjana á Hengilssvæðinu er Orkuveita Reykjavíkur, en hún er einnig sá aðili sem
lét gera umhverfismat og ber kostnað af því.  Þetta eru ámælisverð vinnubrögð þar sem stór
hagsmunaaðili erí raun dómari í eigin máli. Ég mótmæli slíkum vinnubrögðum harðlega og geri þá kröfu
að óvilhallir aðilar sjái alfarið um mat á umhverfisáhrifum og íslenska ríkið beri kostnaðinn.
Umhverfismat sem framkvæmt er og kostað af hagsmunaaðila framkvæmdar getur aldrei verið marktækt.
4.      Einnig geri ég alvarlega athugasemd við kynningu og tímalengd hennar þegar svo stórar framkvæmdir
eru annars vegar sem snerta nánasta umhverfi og lífsgæði ríflega helmings íslensku þjóðarinnar.
Sex vikna frestur til athugasemda er allt of skammur og allt kynningarferlið til þess gert að sem fæstir
veiti málinu athygli og hafi skoðanir á því.
 

Flott amma!

 sogsÖmmustelpurnar mínar.

Það er gaman að vera flott amma. Sonardætur mínar, tvíburarnir Steinunn og Stefanía, segja mér að ég sé ein flottasta amman sem þekkist! Þetta er eitt besta hól sem ég hef fengið. Að vísu skal viðurkennt að við hjónin vorum ekki gömul þegar eldri sonur okkar fæddist; sá sem gerði mig síðar að ömmu. Ungur aldur ömmunnar er e.t.v. skýringin á hóli stelpnanna í minn garð.

Það er sannarlega undarlegt að upplifa sig sem ömmu 15 ára stelpna sem nú eru farnar að lána ömmu sinni skó af sér og amman lánar þeim föt að sama skapi! Öðruvísi mér áður brá þegar ömmur sátu og prjónuðu og bökuðu snúða og vínarbrauð fyrir barnabörnin. Nú hlustum við stelpurnar á sömu tónlistina og þrjár kynslóðir, þ.e. amman, pabbinn og stelpurnar hans fara saman á rokktónleika þar sem ekki á milli sjá hver skemmtir sér best!

Guðrún Helgadóttir, rithöfundur, var langt á undan sinni samtíð þegar hún skrifaði barnabækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna sem áttu útivinnandi móður og eiginmann sem fór með strákunum sínum í skólann, fyrsta skóladaginn, auk þess sem amman á heimilinu var erindreki: "Amma dreki" öðru nafni.

Nú eru allar nútímaömmur, og jafnvel langömmur, útivinnandi og ganga í gallabuxum og kúrekastígvélum. Þær hlusta á Led Zeppilin og Sniglabandið og hafa gaman af - rétt eins og barnabörnin.

Öðruvísi mér áður brá.

 


Saga af tertum og börnum.

  

Allir hafa einhvern tímann ekið á milli staða með fallega skreytta tertu í bílnum. Hvernig ekur þú með slíkan farm? Svarið er einfalt; þú ekur líklega, eins og við flest,  hægt og varlega til þess að tertan verði ekki fyrir hnjaski. Við vitum nefnilega hver örlög tertunnar yrðu ef við þyrftum snögglega að hemla. En hvað á terta í bíl og barn í bíl sameiginlegt? Jú, hvoru tveggja eru “viðkvæmur farmur” sem vernda þarf fyrir skyndilegum höggum. Þótt líkingin sé e.t.v. ósanngjörn, þar sem annars vegar er rætt um lifandi manneskju en hins vegar um matvæli, fer ekki hjá því að nokkuð sé til í henni. Fyrir skömmu ók ég með fullan bíl af tertum á leið til veisluhalda. Við hlið mér var fólksbíl ekið fram úr mér á miklum hraða. Faðirinn ók og við hlið hans sat móðirin - bæði án bílbelta. Á milli framsætanna stóð u.þ.b. tveggja ára barn - án alls öryggisbúnaðar. Við næstu umferðarljós stöðvaði bíllinn og faðirinn kveikti sér í sígarettu.

Mér varð óneitanlega hugsað til tertnanna í aftursætinu hjá mér sem allt í einu virtust svo lítils virði miðað við óvarða barnið í bílnum við hlið mér sem nú nuddaði augun í sífellu vegna reyksins frá sígarettu föður síns. Óafsakanlegt ábyrgðarleysi!

Þessi litla saga, segir meira en mörg orð um nauðsyn þess að tryggja öryggi barna í bílum. Fyrir 35 árum, þegar ég eignaðist eldri son minn, þótti sjálfsagt að staðsetja barnið í aftursæti bílsins og þar með væri öryggi þess tryggt. Frá þeim tíma hefur orðið mjög ör þróun í öryggismálum barna í bílum sem sýnir sig í því að yfirgnæfandi meirihluti íslenskra foreldra tryggir öryggi barna sinna með viðurkenndum öryggisbúnaði. En það er ekki nóg að búnaðurinn sé til staðar ef hann er ekki rétt notaður - eða alls ekki notaður, eins og dæmi eru um. Óspennt bílbelti bjarga ekki mannslífum og tryggilega festur barnabílstóll bjargar ekki barni sem ekki situr í honum. Of stór, eða lítill barnabílstóll miðað við aldur barnsins, getur reynst beinlínis hættulegur og veitir falskt öryggi. Köstum því ekki höndunum til þess mikilvæga skylduverks sem felst í því að kaupa, eða leigja, barnabílstól fyrir barnið okkar. Verum minnug þess að enginn “farmur” er eins dýrmætur og börnin okkar og slysin gera ekki boð á undan sér. Börnin stóla á okkur.

  

Ótrúlegt en satt!

Árið 1991 skrifaði ég viðtal í tímaritið Nýtt Líf um líf ungs manns sem varð konu að bana. Ungi maðurinn var fársjúkur af ýmiss konar geðröskunarsjúkdómum auk þess sem hann var þroskaskertur eftir umferðarslys á unga aldri. Í viðtalinu kom fram að hann væri vistaður í einangrun í fangelsi, þótt ljóst væri að hann þarfnaðist annarra úrræða vegna veikinda sinna.

Fljótlega eftir birtingu viðtalsins var ungi maðurinn færður á Sogn, sem var þá vistunarúrræði fyrir ósakhæfa afbrotamenn. Nú, 16 árum síðar, virðist sem þessi maður sé kominn á byrjunarreit á ný. Hann hefur dvalið á Sogni öll þessi ár en nú virðist sem Sogn sé ekki lengur skjól fyrir veika afbrotamenn lengur því þangað sækja aðrir afbrotamenn sem dvalið hafa um lengri eða skemmri tíma í öðrum fangelsum; einkum Litla Hrauni. Maðurinn sem um ræðir sætir nú einelti, að eigin sögn og aðstandenda hans, innan veggja sjúkrastofnunarinnar og er að sögn hræddur og vansæll vegna áreitis frá öðrum einstaklingum sem vistaðir eru á Sogni.

Um þetta mál verður fjallað í Kompási á morgun. Mér rann mjög til rifja ástand unga mannsins á sínum tíma og áhyggjur fjölskyldu hans og því varð ég mjög hissa og jafnframt sorgmædd þegar ég áttaði mig á að þessi sjúki og vansæli maður væri nánast í sömu sporum og fyrir 16 árum.

Þegar ég var í lögreglunni fyrir mörgum árum var gamall  maður oft í fangageymslunni. Hann var vistmaður á heimili fyrir drykkjumenn úti á landi en kom reglulega í bæinn. Þá gisti hann jafnan í fangageymslunni við Hverfisgötu þar sem hann átti ekki í önnur hús að venda. Þessi blessaði einstæðingur átti engan að og svo virtist sem við, lögreglumennirnir, væru einu vinir hans. Mér var síðar sagt að maðurinn hefði "gleymst" inni á Litla Hrauni í fjöldamörg ár. Hann hafði sem sagt verið vistaður þar um "óákveðinn tíma" en þau ár urðu á annan tundinn, ef ég man rétt. Þess ber að geta að umræddur maður hafði ekki framið afbrot sem leiddi af sér dóm og afplánun í fangelsi. Hann var með geðrænan sjúkdóm og auk þess drykkjumaður. Hann þurfti ekki að kemba hærurnar í mörg ár eftir að kerfið  "fann" hann loksins.

Mun veiki maðurinn á Sogni "gleymast" þar um ókomin ár?

 


Á ferð og flugi

Undanfarnar vikur hef ég verið á ferð og flugi vegna umferðarfunda í framhaldsskólum landsins á milli þess sem ég hef unnið að Dr. RUV, hinum ágæta neytendaþætti sem ég hef umsjón með einu sinni í viku. Ég hef líka fylgst með fyrstu skrefunum á ÍNN, útvarpsstöðinni hans Ingva Hrafns, og var meðal annars þátttakandi í einum af fyrstu þáttunum; umræðuþætti þar sem einungis konur koma fram í. Í kvöld verður vinkona mín, Ólína Þorvarðardóttir, með slíkan þátt og fær til sín góðar konur. Önnur góð vinkona mín, Maríanna Friðjónsdóttir, er sjónvarpsstjóri ÍNN og víst er að þar fer einn mesti fagmaður í sjónvarpi á Íslandi.

Á morgun ætla ég að fara með móður minni, elskulegri, á árshátíð Dýrfirðingafélagsins. Það verður án efa mjög gaman - enda er ég mikil áhugakona um Vestfirði og þá einkanlega um Dýrafjörð og Dýrfirðinga. Það verður því án efa margt skrafað og rætt á þessari árshátíð.

 


Athyglisverð viðbrögð ungmenna.

 

 slys8

Í starfi mínu sem forvarnafulltrúi VÍS er nauðsynlegt að bjóða alltaf uppá mjög gott forvarnaefni. Markhópurinn er ungt fólk og sá hópur er mjög kröfuharður hvað varðar efnið sem þeim er boðið uppá. Það ríður því á að hafa alltaf gott og áhrifaríkt efni sem heldur athygli þeirra óskiptri. Ég var svo lánsöm að detta niður á mjög gott efni frá Norður-Írlandi. Um er að ræða stuttmyndir (auglýsingar) sem framleiddar eru á vegum Umhverfisráðs Norður-Írlands þar sem fjallað er um skelfilegar afleiðingar ölvunaraksturs, fíkniefnaaksturs, hraðaksturs, skorts á notkun bílbelta, athyglisskorts o.þ.a.l.

Myndirnar eru afar áhrifaríkar, vel gerðar og raunverulegar - enda langt mikið fjármagn í framleiðslu efnisins. Sjálf skoðaði ég efnið gaumgæfilega með það í huga hvort e.t.v. væri um of "stuðandi" efni að ræða; myndir sem gætu komið illa við einhverja. Ég sýndi ungmennum efnið áður en ég fór með það í framhaldsskólana og komst að þeirri niðurstöðu að það ætti erindi við ungt fólk á leið út í umferðina sem ökumann. Ég gaf mér þær forsendur að efnið væri síst skelfilegra en það sem þau eiga að venjast í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og jafnvel í fréttum.

Eftir að hafa sýnt efnið í nokkrum framhaldsskólum komast ég að því að ungmennin gera skýran greinarmun á sláandi myndum sem tengjast umferðinni og því efni sem þau kunna að sjá í fjölmiðlum. Helsti munurinn var sá að í forvarnamyndunum kom berlega fram hvernig líf venjulegs fólks getur breyst í harmleik á örskotastundu. Unga fólkið setti sig í spor þeirra sem komu við sögu í forvarnamyndunum en ekki í kvikmyndunum. Fyrir þeim voru kvikmyndirnar skemmtun á meðan forvarnamyndirnar sýndu allt annað og alvarlegra. Þau samsömuðu sig m.o.o. því efni sem þau sáu.

Viðbrögð ungmennanna voru í senn sláandi og athyglisverð. Þau áttu erfitt með að horfa á sum atriðin, þótt þau væru fráleitt "skelfilegri" en þau atriði sem þau eiga að venjast í fjölmiðlum. "Þetta gæti komið fyrir mig eða mína fjölskyldu," sögðu þau mörg hver eftir sýningu myndanna og sum þeirra trúðu mér fyrir ýmsu sem þau höfðu upplifað sem farþegar í bílum; ofsa - og ölvunarakstri vina og jafnvel foreldra sinna.

"Af hverju er þetta ekki sýnt í sjónvarpinu," spurðu mjög margir og sögðust fullvissir um að þetta efni myndi hafa mikil áhrif til betri umferðarmenningar.

Efnið frá Norður-Írlandi er aðeins sýnt í framhaldsskólum landsins en ekki er leyft til sýninga þess í sjónvarpi eða í kvikmyndahúsum. Ég er þó engu að síður ákaflega þakklát fyrir að hafa fengið heimild til þess að sýna þetta efni í framhaldsskólum því eftir að hafa rætt við nýnemana sem njóta þess, er ég sannfærð um að það hefur mikil áhrif til góðs.

Það er ómetanlegt að fá tækifæri til að sýna þetta efni í framhaldsskólum landsins og vonandi verður slíkt efni framleitt hér á landi til sýningar fyrir almenning í fjölmiðlum. Umferðarstofa og VÍS hafa framleitt áhrifaríkar auglýsingar sem vakið hafa mikla athygli og án efa fækkað slysum. Slíkt efni verður þó alltaf að skírskota til þess aldurshóps sem því er ætlað - því ef það hittir ekki í  mark, er betur heima setið en af stað farið. Bestu gagnrýnendurnir eru þeir sem efnið er ætlað; unga fólkið sem er að feta sig áfram í umferðinni. Ég vona svo sannarlega að Norður-Írsku myndirnar verði til þess að bjarga einhverjum mannslífum og koma í veg fyrir þá harmleiki sem þær lýsa svo einstaklega vel.


Ferfættar hetjur.

Á morgun verður sendur út þáttur þar sem Björgunarhundaveit Íslands kemur við sögu. Ég var svo heppin að fá að fylgjast með æfingu björgunarsveitarinnar sem fór fram á Suðurlandi í september og nýtti tækifærið og vann útvarpsþátt fyrir Dr. RUV í leiðinni sem sendur verður út á morgun, fimmtudaginn 11. október kl. 15.30.

Það er skemmst frá því að segja að ég var gjörsamlega uppnumin af því sem ég sá og upplifði á þessari æfingu. Þarna var samankominn fjöldi einstaklinga með hunda sína sem allir eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á hundum og eru auk þess tilbúnir að leggja á sig mikla fyrirhöfn og óeigingjarnt sjálfboðastarf í þágu almennings.

Viðmælendur mínir, sem flestir komu frá Vestfjörðum, eiga allir hunda sem þeir þjálfa til leitar- og björgunarstarfa. Þessir hundar eru þjálfaðir til þess að leita að týndu fólki á víðavangi og þegar það verður undir snjóflóði. Á æfingunni varð ég vitni að því hvernig hundarnir starfa og hvað þeir eru ótrúlega næmir og lyktarskyn þeirra háþróað.  Það var hreint með ólíkindum hvað hundarnir voru naskir að finna "fígúrantana" sem svo eru kallaðir en það er fólkið sem leikur "hinn týnda".

Varla þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þessara ferfættu hetja og er nærtækast að minnast snjóflóðanna á Vestfjörðum þar sem hundarnir skiptu sköpum og björguðu mannslífum. Eftir að hafa rætt við fólkið sem leggur á sig þetta mikilvæga sjálfboðastarf með hunda sína, áttaði ég mig á að oftar en ekki hafa hundar frá Björgunarhundasveit Íslands fundið fólk sem saknað er - án þess að þess sé sérstaklega getið í fjölmiðlum að þar hafi hundurinn skipt sköpum.  Auðvitað gerir hundurinn ekkert án eiganda síns og þjálfara - en það ætti skilyrðislaust að fjalla sérstaklega um þátt þessara ferfættu vina okkar sem standa sig svo ótrúlega vel á ögurstundu. Ég bendi þeim sem vilja kynna sér Björgunarhundasveit Íslands á að leggja við hlusir á morgun á Rás eitt klukkan 15.30 og líta á vefinn www.bhsi.is

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband