Til hamingju, Ómar!

Það er mjög gleðilegt að Ómar Ragnarsson skuli hafa hlotið þessi verðlaun og sannarlega viðurkenning á því mikla frumkvöðlastarfi sem hann hefur unnið í þágu umhverfisverndar undanfarin ár. Ég hef fylgst með Ómari og dáðst að elju hans og hugsjónarstarfi og styð hann að heilum hug. Lára hanna Einarsdóttir er annar óeigingjarn umhverfissinni sem vinnur með hjartanu eins og Ómar. Hún er mikil hugsjónarkona sem leggur metnað í færslur sínar á bloggsíðu sinni: www.larahanna.blog.is

Mér kæmi ekki á óvart að sjá hana sem arftaka Ómars í umhverfisverndinni.


mbl.is Ómar Ragnarsson verðlaunaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað minningar mun næsta helgi skilja eftir sig?

það er ekki laust við smá kvíða hjá mér þegar ég hugsa til verslunarmannahelgarinnar. Í áratugi hef ég verið á "vaktinni" fyrir þessa helgi, fyrst í lögreglunni og hjá Útvarpi Umferðarráðs og nú síðustu árin sem forvarnafulltrúi hjá VÍS. Mestar áhyggjur hef ég auðvitað haft af því hvernig ungum ökumönnum gengur að komast heilir til og frá áfangastað en reynslan sýnir að margir nýbakaðir ökumenn fara í sína fyrstu ferð út á þjóðvegina um þessa helgi. Í gær tók ég á móti 30 ungmennum á umferðarfundi VÍS en öll eru þau að læra til bílprófs og hættulegustu árin þeirra sem ökumenn framundan.

En fátt er svo með öllu illt... Á undanförnum árum hefur alvarlegum slysum meðal þessa aldurshóps fækkað og er það í fyrsta skipti frá því ég fór að skipa mér að umferðarmálum sem ég sé þessa þróun. Það eru vissulega gleðileg tíðindi.

En það eru fleiri ógnir sem steðja að ungmennunum okkar en umferðin. Mér verður hugsað til allra þeirra ungu stúlkna sem fara á sína fyrstu útihátíð og hvort þær koma heilar heim á líkama og sál. Nauðganir hafa verið tíðar á útihátíðum og líklega eru fæstar þeirra kærðar. Sjálf er ég búin að ganga í gegnum þann ótta sem fylgir því að sjá á eftir sonum mínum á útihátíð um verslunarmannahelgi en ég skil enn betur ótta foreldra ungra stúlkna sem oft eru varnarlausari en strákarnir við slíkar aðstæður.

Ég vona og bið að fréttir fjölmiðla verði jákvæðar eftir þessa helgi og hvet alla foreldra til þess að vera sem mest með börnum sínum þessa helgi. Samvera fjölskyldunnar er besta forvörnin gegn umferðarslysum og annarri óáran sem því miður fylgir þessari helgi.


Í skjóli nætur er farið á skjön við vilja íbúa.

Hér í Norðurbæ Hafnarfjarðar er lítið leiksvæði; opið gróðursvæði á milli Norðurvangs og Heiðvangs. Þar kúrir leikskóli sem nú á að stækka með því að koma fyrir tveimur lausum skólastofum til eins árs. Leyfið er kallað "stöðuleyfi" sem felur í sér að ekki þarf að fara með málið í lögbundið skipulagsferli. Þessar tvær stofur eiga að anna eftirspurn eftir leikskólaplássum hér í hverfinu. Það hefur aftur á móti ekki verið gert ráð fyrir þeirri auknu umferð sem þessi stækkun kemur til með að hafa í för með sér hér um Heiðvang og Norðurvang en 40 börn kalla á aukna umferð bíla. Þannig háttar að göngustígur er meðfram húsinu mínu frá Heiðvangi niður á þetta svæði. Það er því alveg ljóst að bílaumferð mun aukast verulega hér um Heiðvanginn þar sem það hlýtur að verða freistandi að stoppa bílana við göngustíginn og fara með börnin þaðan í leikskólann - enda mun styttra þaðan en frá Norðurvangi.

Það sem vekur mesta furðu okkar íbúanna er að yfirvöld í Hafnarfirði boðuðu til fundar með íbúum hverfisins í vor og þar kom fram megn andstaða við þessa framkvæmd. Nær allir íbúarnir voru á móti þessu og færðu fram rök fyrir því að þetta svæði bæri engan veginn þessa starfsemi auk þess sem mikilvægu útivistarsvæði væri fórnað. Stærstu og mikilvægustu rökin gegn þessu voru þó sú hætta sem skapast af aukinni umferð um rólegar íbúðagötur hér í hverfinu þar sem gildir 30 km hámarkshraði.

Fyrir síðustu kosningar var mikil áhersla lögð á aukið íbúalýðræði og mikilvægi þess að íbúar Hafnarfjarðar ættu kost á að hafa áhrif á stefnu bæjaryfirvalda í hinum ýmsu málum sem að þeim snúa. Það lýðræði er nú haft að engu og mér virðist sem bæjaryfirvöld ætli sér með góðu eða illu að setja þessar skólastofur niður á þessum litla reit - án þess að virða skoðanir íbúa. Með þessu er ljóst að stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar eru að svíkja enn eitt kosningarloforðið og virða að vettugi vilja kjósenda sinna og annarra sem láta sér annt um öryggi barna sinna og annarra vegfarenda.

Í mínum huga, og fjölmargra annarra íbúa þessa hverfis, er alveg ljóst að stöðuleyfið er komið til að vera og auðvelt að framlengja leyfinu áfram. En hvað mun þessi "tilraunastarfsemi" kosta þegar upp er staðið? Höfum við efni á, eða leyfi til að láta á það reyna?


Ævintýraför á Hornstrandir.

Það væri synd að segja að ekki hafi ýmislegt óvænt gerst í Hlöðuvík á Hornströndum um helgina. þar var ég ásamt góðu fólki í fjögurra daga ferð þar sem gengið var um næsta nágrenni. Eins og flestir vita, sáum við eitthvað sem líktist hvítabjörnum í fjarska en lesa má meira um þau mál á www.olinathorv.blog.is

fjoll

Þótt vissulega hafi ísbjarnarmálið vakið athygli okkar, var það sannarlega ekki hápunktur ferðarinnar. Í Fjóra daga gekk þessi góði hópur á nálæg fjöll í sól og blíðu og sáum við meðal annars fjölda refa, seli og blómabreiður. Þetta var yndisleg ferð, erfið en mikil og góð upplifun. Með mér í för vestur voru þær stöllur og vinkonur mínar, Maríanna Friðjónsdóttir og Kolbrún Jarlsdóttir, sem báðar eru sjónvarpskonur góðar. Við unnum saman við gerð sjónvarpssöfnunarþáttarins "Á allra vörum" og ákváðum að skella okkur á Hornsstrandir með vinafólki okkar. Ég hef reyndar farið áður í gönguferð í Hornvík og nágrenni en sjónvarpskonurnar voru að fara sína fyrstu Hornstrandaferð. Þær eru ekki bara ánægðar - heldur himinlifandi! Ég skelli inn mynd af okkur í Hlöðuvíkurskarði á leið út Veiðileysufirði og yfir í Hlöðuvík.


Hornstrandir og fl.

Það er orðið langt síðan ég skrifaði færslu síðast. Sumarið hefur tekið tíma;  þ.e. góða veðrið en það hef ég notað öðrum þræði til að æfa mig fyrir Hornstrandaferð sem stendur til aðra helgi. gönguhópurinn minn, sem samanstendur af góðu fólki víða af landinu, fer í fjögurra daga göngu frá Hlöðuvík og endar á Hesteyri. Ég hlakka mikið til þessarar ferðar en nú bætast í hópinn þær Maríanna Friðsjóndóttir og Kolbrún Jarlsdóttir, vinkonur mína, sem koma með í fyrsta sinn. Þær eru báðar göngugarpar miklir og ég get varla beðið eftir því að kynna þeim þessa dásemd sem Vestfirðirnir eru, sérstaklega Hornstrandirnar. Við munum dvelja í nokkra daga  í Dýrafirði, nánar tiltekið í Haukadal, þaðan sem allt mitt fólk á ættir sínar að rekja. Sá staður nálagst Himnaríki í mínum huga og hefur dvölin þar lækningarmátt á sál og líkama.

Ég set hér inn að gamni mínu mynd af undirritaðri, ásamt góðu samstarfsfólki hjá VÍS, þar sem við vorum að spóka okkur í nánd við Búrfellsgjá í Heiðmörkinni.

burfell


Tilræði við saklaust fólk.

 

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem maður er staðinn að því að aka á ofsahraða undir áhrifum áfengis. Í mínum huga er þetta ekkert annað en tilræði við almenna vegfarendur; saklaust fólk sem ekur um götur og vegi landsins. Refsirammi Umferðarlaganna er nægilega rúmur til að hægt sé að dæma menn í allt að tveggja ára fangelsi fyrir alvarleg brot. Þá eru einnig nokkrar lagagreinar í Hegningarlögunum sem hægt að er dæma eftir í svona alvarlegum málum sem þessum. Hvernig væri ef dómstólar þessa lands nýttur sér þær lagaheimildir sem eru tiltækar þegar svona tilræði á sér stað í umferðinni.

 


mbl.is Ölvaður á 156 km hraða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið er ég lánsöm.

 

 

Ég er svoooo lánsöm að eiga alla mína heila á húfi. Á því átta ég mig æ betur eftir því sem ég fæ oftar fréttir af hremmingum annars fólks. Um daginn tók ég viðtöl við nokkrar konur sem allar höfðu greinst með krabbamein. Svo er ég að upplifa umferðarslysin í gegnum vinnuna mína og þakka alltaf Guði fyrir að ég, eða mínir, sleppum blessunarlega við þær hörmungar. Það er löngu alkunn  staðreynd að engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Ég get varla slitið mig frá litla Sindra Arnari sem nú er orðinn 2 mánaða og farinn að setja "agú" og brosa til ömmu sinnar. Drengurinn er hreint guðdómlegur og amman er að missa sig af hamingju. Ég á reyndar erfitt með að koma ekki við hjá honum daglega  og er alltaf að finna mér einhverja ástæðu til að "droppa inn" í Skógarhlíðinni.

 bara

Ég var líka svo lánsöm að eignast annað barnabarn á síðasta ári þegar ég fékk nýja tengdadóttur, Báru, og með henni Tóbías, sex ára gutta sem er yndislegur og skemmtilegur strákur sem á að byrja í skóla í haust. Hér sjáið þið mynd af okkur þremur, mér Báru og Tóbíasi. Myndin er tekin þegar Sindri fékk nafnið sitt.

 

Á morgun ætla ég að skjótast á landsmótið og skoða graðhest sem sýndur verður í fyrramálið en hann mun vera faðir hests sem ég er að spá í. Alltaf gaman að sjá fallega hesta og skemmtilega knapa.

 


Hvað mun gerast í sumar á vegum landsins?

15 manns létust í umferðinni á síðasta ári. Hraðakstur var helsta orsökin. Þetta eru ekki nýjar fréttir enda vermir hraðakstur hið vafasama toppsæti yfir afleiðingar umferðarslysa. Nú eru helstu ferðahelgar sumarsins framundan og því blundar ótti í hugum margra hvort allir skili sér aftur heilir heim. Um þessi mánaðarmót fá ungu ökumennirnir sína fyrstu útborgun og þá má ætla að þeir fari út á þjóðvegina - enda hefur fyrsta helgin í júlí jafnan verið erfið hvað varðar umferðarslys. Margir ungir ökumenn fá sína fyrstu reynslu af þjóðvegaakstri einmitt um þessa helgi. Guð gefi að þeir komist heilir til og frá áfangastað.


mbl.is Hraðakstur algengast orsök banaslysa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

17. júní skírn, fjáröflun og góð helgi framundan.

 

skirn

Sonarsonur minn, Sindri Arnar Svavarsson, var skírður af sr. Hirti Magna Jóhanssyni, Fríkirkjupresti, á 17. júní, nákvæmlega 36 árum eftir að faðir hans var skírður af öðrum Fríkirkjupresti, sr. Þorsteini Björnssyni. Hjörtur Magni framkvæmdi þessa athöfn af látleysi og hlýju eins og honum einum er lagið.

Í kvöld verður þátturinn "Á allra vörum" sendur út frá Skjá Einum og hefst útsending kl. 21:00 og stendur til kl. 23:30. Ég hvet alla Íslenginga til að taka þátt í þessari fjáröflun með því að hringa í símanúmerin 903-1000 - 903-3000 eða 903-5000 en við það skulfærist viðkomandi upphæð á símreikning viðkomandi símanúmers. Þá er einnig hægt að hringa í síma 595-6000 og tala við þjóðþekktar konur sem taka á móti framlögum í síma. Við vinkonurnar, ég, Maríanna Friðjónsdóttir og Guðrún Jónsdóttir erum nú í annað sinn að vinna að sjónvarpssöfnun en við erum allar þátttakendur í Áhugahóp um bætta umferðarmenningu. Sá hópur stóð fyrir fyrstu sjónvarpssöfnuninni af þessum toga árið 1989 og safnaði hvorki meira né minna en 30 milljónum í húsbyggingasjóð SEM samtakanna. Sú vinna var öll unnin í sjálfboðavinnu og svo er einnig í þessu tilfelli. Ætlunin er að safna peningum fyrir skoðunartæki sem greinir krabbamein í brjóstum mun fyrr en nú er hægt að gera og eykur verulega lífslíkur kvenna sem greinast með þessa mein.

 taekid_forsida_400

Um helgina ætla ég að fara með sonarsyni mínum, Sindra Arnari, foreldrum hans og e.t.v. fleirum í sumarhúsið í Skorradal. Við sonur minn ætlum að ganga á fjallið ofan við bústaðinn og er það liður í æfingu fyrir fjögurra daga göngu á Hornströndum sem ég ætla að takast á hendur, ásamt góðum vinum, um miðjan júlí. Nýir meðlimir í þeirri göngu eru þær Maríanna Friðjónsdóttir og Kolbrún Jarlsdóttir, fjölmiðlakonur, en þær eru lykilkonur í útsendingu þáttarins "Á allra vörum" í kvöld. Þær hlakka mikið til að ganga með okkur - enda fátt eins dásamlegt og það að njóta vestfirskrar náttúru í góðra vina hópi. Við stelpurnar ætlum að aka vestur saman og dvelja í einhverja daga í ættaróðali fjölskyldu minnar í Haukadal í Dýrafirði og halda svo norður á bóginn í Veiðileysufjörð og ganga í fjóra daga og enda síðan á Hesteyri.

Dagskráin um helgina verður þó sniðin dulítið eftir EM - enda missi ég aldrei af knattspyrnuveislum.  ég held með Hollandi - enda frábært lið sem spilar léttan og leikandi bolta sem unun er á að horfa.


Konur eru konum bestar og eru á allra vörum!

Í dag vann ég erfitt en afar gefandi verkefni fyrir allar konur þessa lands. Ég tók sjónvarpsviðtöl við níu hetjur; íslenskar konur sem vilja deila sárari reynslu sinni af brjóstakrabbameini með þjóðinni. Tilefnið er sjónvarpsþáttur sem sendur verður út í beinni útsendingu á Skjá einum næsta föstudag. Um er að ræða skemmti- og söfnunarþátt þar sem safnað verður peningum til þess að kaupa nýjan og fullkominn rannsóknarbúnað til þess að greina brjóstakrabbamein mun fyrr en hingað til hefur verið hægt að gera.

Þátturinn ber yfirskriftina "Á allra vörum" en frumkvæðið áttu nokkra konur sem starfa í fluggeiranum sem ákváðu að safna peningum til kaupanna með því að selja varaliti. Nú hefur verkefnið undið uppá sig og er orðið að sjónvarpssöfnum sem fer fram þann 20. júní á Skjá einum. Að verkefninu vinna eingöngu konur; þ.e. konur stjórna þættinum; konur skemmta í þættinum og konur vinna alla undirbúningsvinnu. Ég var beðin um að taka sjónvarpsviðtöl við níu konur sem greinst hafa með krabbamein í brjósti. Það gerði ég í dag og verkefnið en var ekki auðvelt - en afar gefandi og þakklátt. Allt gekk ákaflega vel - enda voru konurnar hver annarri dásamlegri auk þess sem þær auðvelduðu mér mjög viðtölin með því að vera frjálslegar og bjartsýnar. Þær ræddu um áfallið að greinast með krabbamein, álagið á fjölskylduna, lyfjameðferðina, bataferlið, vonina og framtíðina. Það var aðdáunarvert hvernig þær deildu þessari sáru lífsreynslu með mér og næsta föstudag fær þjóðin tækifæri til að sjá og heyra frásagnir þeirra.

Viðtölin voru tekin upp heima hjá enn einni valkyrjunni sem leggur þessu málefni lið; í yndislegum garði við húsið hennar þar sem Gullregnið var í bakgrunni og gróðurinn í sínum fallegasta skrúða. Sviðsmyndin var einkennandi fyrir birtuna, bjartsýnina og trúna á lífið sem var svo áberandi í málflutningi allra þessara kvenna.

Allar konurnar sem taka þátt í þessu verkefni, bæði þær sem eru framan og aftan við myndavélarnar auk þeirra sem svara í símana á föstudaginn, gera það í sjálfboðavinnu. Það gerum við allar fyrir mæður okkar og ömmur, dætur okkar, barnabörn  og reyndar allar konur á Íslandi. Við viljum leggja þessu málefni lið svo hægt verði að greina brjóstakrabbamein á frumstigi svo koma megi í veg fyrir dauðsföll af völdum þessa sjúkdóms.

Ég hvet ykkur öll til að taka þátt í þessari söfnum, næsta föstudag á Skjá einum.  Útsendingin hefst klukkan 21:00 og mun standa í hálfan þriðja klukkutíma.

Íslenskar konur eru konum BESTAR og standa saman.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband