Við getum brotið blað í sögunni.


Í umræðunni að undanförnu um forsetaembættið hefur ómaklega verið vegið að fjölskylduaðstæðum eins frambjóðandans. Viðlíka raddir heyrðust einnig í forsetakosningunum árið 1980. Í báðum tilfellum beindist gagnrýnin að kvenkynsframbjóðendum og hvernig þær hyggðust takast á við skyldur forseta, Vigdís Finnbogadóttir sem einstæð móðir og Þóra Arnórsdóttir sem margra barna móðir. Nú er það ekki svo að frambjóðendur hafi alltaf verið með maka sér við hlið eða barnlausir. Engu að síður virðast órtrúlega margir vera þeirrar skoðunar að kona sem á þrjú ung börn hljóti að eiga í erfiðleikum með að sinna forsetaembættinu. Þóra Arnórsdóttir hefur unnið krefjandi starf í vaktavinnu í mörg ár án þess að sú vinna hafi komið niður á fjölskyldu hennar. Maður hennar, og faðir barnanna, hefur einnig stundað krefjandi vinnu en saman hefur þeim tekist að ala upp og sinna börnum sínum af stakri prýði. Ef Þóra nær kjöri til forseta Íslands munu börn hennar njóta þeirra fágætu forréttinda að faðir þeirra mun alfarið verða heimavinnandi og sinna þörfum þeirra í fullu starfi. Það er meira en börn margra önnum kafinna foreldra fá að njóta. Það er því í besta falli fáfræði og versta falli fordómar þegar fólk álítur að vel menntuð og upplýst, jafnréttissinnið nútímakona geti ekki sinnt störfum forseta Íslands vegna ómegðar. Slík umræða hefði aldrei heyrst ef Þóra væri karlmaður í framboði til forseta – enda hafa fyrrum forsetar Íslands allir verið foreldrar. Á undanförnum vikum hefur Þóra verið önnum kafin við að sinna fjölmiðlaviðtölum vegna framboðs síns. Velgengni hennar hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim og víst er að nái hún kjöri mun það vekja mikla athygli víða um lönd og um leið vekja jákvæða umræðu um framsýna jafnréttishugsun og víðsýni Íslendinga. Ef svo fer mun Ísland, fyrst allra landa í heiminum, geta státað af þremur konum í valdamestu embættum landsins; embætti forsætisráðherra, embætti biskups og embætti forseta Íslands. Þegar við stöndum frammi fyrir vali á þjóðhöfðingja verðum við að hugsa lengra en áður hefur þekkst. Við þurfum að hugsa stórt og hugsa fram á veginn. Í raun ætti grein sem þessi að vera óþörf – enda fáránlegt að þurfa að réttlæta það á einn eða annan hátt þegar glæsileg, vel menntuð og víðsýn kona, sem býr að auki yfir þeirri undursamlegu reynslu að hafa fætt af sér og alið upp þrjú börn, sækist eftir því að verða þjóðhöfðingi landsins. Við ættum að vera þakklát fyrir að fá tækifæri til að kjósa hana sem næsta forseta Íslands. Það ætla ég að gera og vonandi get ég, þegar fram líða stundir, sagt með stolti að ég hafi átt þátt í að skrifa nafn Þóru Arnórsdóttur á spjöld sögunnar.

Fjölmenntaða fjölskyldukonu á Bessastaði

Fjölmenntaða fjölskyldukonu á Bessastaði
Eftir Ragnheiði Davíðsdóttur



Fyrir rúmum þrjátíu árum, þegar Vigdís Finnbogadóttir gaf kost á sér til forsetakjörs, risu upp raddir sem fundu framboði hennar allt til foráttu. Helst bar á gagnrýni í þá veru að hún væri einstæð móðir sem ætti ekki maka til þess að standa sér við hlið í forsetaembættinu. Þá voru þeir margir sem bentu á afskipti Vigdísar af baráttu gegn herstöðinni á Miðnesheiði. Öll vitum við hvernig fór. Með Vigdísi eignuðust Íslendingar einn ástsælasta þjóðhöfðingja sem setið hefur á Bessastöðum, að öllum öðrum ólöstuðum.
Vigdís braut vissulega blað í sögunni og fór sannarlega gegn ríkjandi hefðum. Hún þorði, gat og vildi. Gagnrýnisraddirnar voru fljótar að þagna eftir að hún tók við embætti, enda sýndi hún og sannaði að hún var starfsins verð. Sjálf var ég virkur þátttakandi í kosningabaráttu Vigdísar og minnist þess hversu alþýðleg hún var alla tíð og laus við að draga fólk í dilka eftir þjóðfélagsstöðu. Hún var frambjóðandi sem bjó yfir kjörþokka, reynslu, menntun, mannkærleik og hlýju en síðastnefndu eiginleikarnir eru þeir sem færðu henni ekki síst sigurinn.

Mér eru einnig minnisstæð varnaðarorð Vigdísar þess eðlis að hvorki hún né stuðningsmennirnir mættu undir neinum kringumstæðum tala af óvirðingu um meðframbjóðendurna. Við það var staðið. Slíkur frambjóðandi býðst þjóðinni núna, þegar forsetakosningar eru framundan. Þóra Arnórsdóttir minnir um margt á Vigdísi. Hún er ung, vel menntuð, vel upplýst og hefur þann mannkærleik og hlýju sem einkenndu Vigdísi í embætti. Bakgrunnur hennar er einnig að mörgu leyti svipaður bakgrunni Vigdísar; Þóra nam erlendis, talar fjölmörg tungumál, hefur starfað við leiðsögn um landið okkar og unnið í sjónvarpi fyrir utan þann fágæta eiginleika að hafa ómælda persónutöfra. Og hún flytur ekki ein á Bessastaði, fari svo að hún nái kjöri. Með henni fara tvö börn þeirra Svavars Halldórssonar, auk barnsins sem er á leið í heiminn þegar þessi orð eru skrifuð. Auk þeirra munu þrjár dætur Svavars án efa eiga sitt annað heimili á forsetasetrinu.

Þau hjónin hafa tekið þá ákvörðun að Svavar sinni börnunum í fullu starfi. Það eru því léttvæg rök þegar því er haldið fram að Þóra kunni að eiga í erfiðleikum með að sinna embættinu með öll þessi börn. Í því sambandi er e.t.v. rétt að varpa fram þeirri spurningu hvort nokkur hefði haft orð á barnafjöld þeirra hjóna ef dæmið hefði snúist við og Svavar boðið sig fram til forseta. Á það skal einnig minnt að þau hjón hafa bæði verið í krefjandi vaktavinnu við fjölmiðla; vinnu þar sem reynt hefur á samtakamátt þeirra þegar kemur að umönnun barna þeirra. Ef Þóra nær kjöri verður enn frekar haldið utan um fjölskylduna þar sem annað foreldrið er alfarið heimavinnandi. Ungan aldur Þóru hefur oft borið á góma þeirra sem efast um hæfni hennar. Svarið við því er að kjörgengisaldur forseta er 35 ár og sá aldur hefur varla verið settur að ástæðulausu.

Fyrir skömmu heyrði ég vel menntaða og virta konu í samfélaginu svara þessum gagnrýnisröddum á snilldarlegan hátt: "Þóra er líklega betur upplýst um flest mál en allur þorri almennings. Í starfi sínu sem fjölmiðlamaður hefur hún orðið að setja sig vel inn í hin ólíkustu mál og situr svo í munnlegu prófi frammi fyrir alþjóð; prófi sem reynir á þekkingu hennar." Ef Þóra Arnórsdóttir nær kjöri forseta Íslands höfum við valið vel menntaða, fjölupplýsta, hjartahlýja fjölskyldukonu; konu sem lætur sér annt um almenning; konu sem verður þjóðinni til mikils sóma.

Höfundur er blaðamaður og háskólanemi.


Frábærar tillögur þjóðfundar.

Mér líst afar vel á allar þessar áherslur og þá sérstaklega þessar:

Lýðræði
Stjórnarskráin tryggir: -Að valdið sé þjóðarinnar -Rétt almennings til áhrifa -Virkni og endurnýjun þings án flokkahagsmuna

Siðgæði
Á Íslandi skal valdhöfum settur skýr rammi með siðareglum þar sem mannvirðing, ábyrgð og skyldur við þegna landsins er haft að leiðarfrelsi.

Ég hlakka til að sjá hvernig stjórnlagaþing tekur á þessum tillögum. Sjálf mun ég taka mið af niðurstöðum þjóðfundar, fari svo að ég nái kjöri. Kjörnúmerið mitt er 2864.


mbl.is Grunngildin skýrð á þjóðfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég vil afnema friðhelgi forseta og þingmanna


Allt frá því ég sat námskeið í stjórnlagafræðum í Lögregluskóla ríkisins og síðar í HÍ hef ég haft mikinn áhuga á Stjórnarskrá Íslenska lýðveldisins. Það var því ekki erfið ákvörðun að taka þegar mér bauðst að gefa kost á mér til setu á Stjórnlagaþingi. Ég lauk prófi frá Lögregluskóla ríkisins árið 1978 og starfaði sem lögreglumaður  til margra ára. Ég stundaði nám í íslensku við HÍ í tvö ár en lauk ekki BA prófi. Árið 1994 lauk ég prófi í Hagnýtri fjölmiðlun frá HÍ. Ég hef starfað sem blaðamaður í mörg ár - bæði í fullu starfi og sem lausapenni. Síðustu 15 árin stjórnaði ég forvörnum og öryggismálum  hjá Vátryggingafélagi Íslands. Ég rek nú mitt eigið fyrirtæki, Tjónavarnir, sem sérhæfir sig í fræðslu og forvörnum fyrir starfsfólk fyrirtækja og stofnana.
Ég hef mikinn áhuga á að afnema eða breyta 11. og 49. greinum stjórnarskrárinnar sem kveða á um friðhelgi forseta og þingmanna - enda er það einlæg skoðun mín að allir séu jafnir fyrir lögum. Þessir einstaklingar eiga ekki að njóta fríðinda að þessu leyti. Þá vil ég vinna að því að landið verði eitt kjördæmi og aðskilnaður ríkis og kirkju verði að veruleika - enda er það vilji meirihluta almennings í landinu. Þá mun ég beita mér fyrir auknu lýðræði t.d. með því að tiltekinn fjöldi kjósenda geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál sem snerta þjóðarhag. Mannréttindamál eru mér hugleikin og ég vil auka væri jafnréttis kynjanna  og réttinda barna og ungmenna í stjórnarskrá lýðveldisins. Ég hef búið í Hafnarfirði í 7 ár, gift Jóhanni Óskarssyni til 37 ára og eigum við tvo uppkomna syni og fjögur barnabörn. Ef ég næ kjöri mun ég hvergi af mér draga við þá mikilvægu og ábyrgðarfullu vinnu sem framundan og mun fyrst og fremst hafa heiðarleika og vandvirkni að leiðarljósi.
Ragnheiður Davíðsdóttir
framkvæmdastjóri Tjónavarna.

Gott að fá verðuga samkeppni.

Það er vissulega ánægjulegt að svo margir skuli vilja taka þátt í endurskoðun Stjórnarskrárinnar. Sem frambjóðandi til Stjórnlagaþings mun ég ekki verja einni einustu krónu í framboð mitt - enda leyfir heimilisbókhaldið það ekki. Nú hlakka ég til að sjá listann yfir frambjóðendur og er sannfærð um að almenningur hefur úr nægum nöfnum að moða. Helsta áhyggjuefnið er ef fólk lætur undir höfuð leggjast að mæta á kjörstað. En við spyrjum að leikslokum.
mbl.is Á fimmta hundrað í framboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vil afnema friðhelgi þingmanna

Ég hef nú sent inn framboð mitt til Stjórnlagaþings. Ef ég næ kjöri mun ég beita mér fyrir breytingum á þeirri grein stjórnarskrárinnar sem kveður á um friðhelgi þingmenna á meðan þing starfar.

49. gr. [Meðan Alþingi er að störfum má ekki setja neinn alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða mál á móti honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.
Enginn alþingismaður verður krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema Alþingi leyfi.]1)

Þá er aðskilnaður ríki og kirkju eitt af mínum helstu baráttumálum - enda tel ég þeim fjármunum, sem ríkið ver í Þjóðkirkjuna, mun betur varið í önnur mál, meira aðkallandi fyrir almenning í landinu.

Ég mun einnig berjast fyrir auknu lýðræði í raun - þ.e. að almenningur fái að kjósa um mikilvæg málefni sem varða þjóðarheill.

 


Toyota reið á vaðið og keypti 500 miða!

Á morgun hefst fjársöfnun til styrktar SEM samtökunum sem verða með límmiða til sölu á öllum stöðvum N1 og í Fjarðarkaupum. SEM-félagar eru allir mænuskaddaðir eftir slys og flestir eftir umferðarslys og geta því ekki haldið við húsinu sínu við Sléttuveg. Þau þurfa hjálp okkar.

Það var sannarlega gleðileg stund þegar Toyota umboðið á Íslandi hafði samband við SEM samtökin og lýsti því yfir að fyrirtækið ætlaði að kaupa 500 límmiða fyrir allt sitt starfsfólk! Þeir eiga aðdáun mína óskipta og þakkir ómældar fyrir rausnarskapinn. Ég vil leyfa mér að hvetja önnur stórfyrirtæki til þess að fara að fordæmi Toyota og kaupa miða fyrir sitt fólk.

Páll Þorsteinsson, minn gamli vinur og samstarfsmaður frá Rás tvö, sem er upplýsinga- og fjölmiðlafulltrúi Toyota, sagði mér að Toyota legði mikið uppúr öryggi sinna bíla og víst er að þeir hafa komið afar vel út úr árekstraprófunum erlendis. Þess vegna sagði hann Toyota vilja leggja sitt af mörkum til fórnarlamba umferðarslysanna og um leið minna á skelfilegar afleiðingar umferðarslysa. Hafið hjartans þökk fyrir, Toyotamenn

Tökum höndum saman og hjálpum mænusködduðum og límum miða í bílinn okkar til þess að minna á aðgæslu í umferðinni.


Samúðarkveðjur suður með sjó.

Ég táraðist þegar ég frétti af þessu hræðilega slysi og hugsaði með mér, eins og ég geri alltaf þegar banaslys verður í umferðinni: "Ætlar þetta aldrei að enda?" Árlega hef ég komið í Fjölbrautarskóla Suðurnesja með umferðarslysaforvarnir og alltaf er jafn yndislegt að hitta nemendur og kennara skólans. Ég get því rétt ímyndað mér þá miklu sorg sem þar ríkir núna. Hugur minn er hjá aðstandendum, vinum og skólafélögum þessara tveggja stúlkna sem létust í kjölfar slyssins og ekki síður hjá þeim sem eftir lifa úr þessu slysi.

Ljós logar á mínu heimili til minningar um þessar tvær efnilegu stúlkur og ég bið ykkur öll að minnast þeirra með því að reyna eftir öllum leiðum að koma í veg fyrir umferðarslys. Ég sendi samúðarkveðjur til allra Suðurnesjamanna en því miður hefur þetta svæði orðið illa úti hvað varðar alvarleg umferðarslys undanfarin ár.


mbl.is Létust í bílslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur 20 í atvinnuleysinu.

Þeir líða dagarnir þótt engin atvinnan sé. Undanfarna daga og vikur hef ég verið að senda inn atvinnuumsóknir og leita eftir vinnu hjá fyrirtækjum og stofnunum sem ekki hafa auglýst eftir starfsfólki. Það er undarleg tilfinning að vera sagt upp störfum. Sjálf hef ég aðeins unnið á þremur stöðum um ævina; í lögreglunni, hjá Fróða og síðast hjá VÍS. Auðvitað hef ég líka starfað hjá Ríkisútvarpinu, bæði útvarpi og sjónvarpi og hjá Umferðarráði en það hafa allt verið aukaverk með annarri vinnu.

Nú stend ég frammi fyrir því að þurfa í fyrsta skipti á ævinni að leita að atvinnu og það er ný reynsla. Hvar á maður að bera niður? Upp í hugann koma ljóðlínur Stuðmanna þar sem segir í textanum: "Vill einhver elska 49 ára gamlan mann sem safnar þjóðbúningadúkkum og á íbúð og bíl." Þar er svolítil ádeila á aldurinn og víst er að 55 ára gömul kona á ekki eins létt með að fá atvinnu og yngra fólk. Æskudýrkun er ríkjandi á atvinnumarkaðnum - jafnvel þótt flestir viti að eldri einstaklingar eru ekki eins oft frá vinnu og þeir sem enn eru á barneignaraldri og þurfa að vera frá vegna fæðingarorlofs eða veikinda barna. Mín börn eru uppkomin, ég á hús og bíl og karl en ég safna ekki þjóðbúningadúkkum.

En ég æðrast ekki. Þetta kemur allt.


Hvílíkt heilbrigðisfólk!

Móðir mín hefur mátt reiða sig á heilbrigðisþjónustuna undanfarna 4 mánuði. Hún hefur dvalið á Landsspítalanum, á Hrafnistu í Víðinesi, á Landakoti og á Rauða kross heimilinu við Rauðarárstíg. Það er skemmst frá því að segja að starfsfólk þessara stofnana er hvert öðru betra og hefur reynst móður minni einstaklega vel. Sérstaklega vil ég þakka starfsfólkinu í Víðinesi sem hefur sýnt henni mikinn og einlægan áhuga og m.a. hringt tvisvar til þess að fá upplýsingar um heilsufar hennar eftir heilaaðgerð sem hún er nýbúin að undirgangast.

Heilaskuðalæknirinn hennar, Ingvar Ólafsson, hefur hringt reglulega til mín með fréttir af henni og gefur sér allan þann tíma sem þarf til þess að útskýra flóknar aðgerðir, afaleiðingar þeirra og eftirköst.  Það er sannarlega yndislegt að sjá hvað allt þetta heilbrigðisstarfsfólk leggur sig fram um að láta skjólstæðingum sínum líða vel, miðað við aðstæður.  Álagið á það er oft mikið en engu að síður tekst því að gera alla umönnun persónulega þannig að sjúklingnum líði vel. Það er sannarlega þakkarvert.


Næsta síða »

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband