Stolt af vinkonum mínum.

 

Gerður Kristný er vel að tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna komin með ljóðabók sína, Höggstaður. Það kom mér reyndar ekki á óvart að Gerður hlyti góða dóma fyrir bók sína en það kom mér skemmtilega á óvart að hún skyldi verða tilnefnd til verðlaunanna. Hún á þá tilnefningu fyllilega skilið.

Á morgun fer ég til Svíþjóðar og Noregs í vinnuferð. Ég hlakka til að kynnast aðferðum kollega minna á hinum Norðurlöndunum í forvarnastarfi og fá að njóta jólastemmningarinnar í Stokkhólmi og Osló - en ég hlakka ekki síður til að koma heim aftur og njóta aðventunnar hér.  Ég á enn eftir að skreyta húsið mitt í Hafnarfirðinum og setja Þingvallakirkjuna, sem bóndi minn smíðaði, í álfagarðinn minn í hrauninu í Norðurbænum.

Nú er ég búin að lesa bókina hans Hrafns Jökulssonar sem er einstakleg góð lesning; bæði hlý, húmorísk og einlæg - svo ekki sé talað um fræðslugildið því Hrafn leitar víða heimilda um líf og lífsbaráttu á Ströndum. Þá er ég búin að svíkja loforð, sem ég gaf sjálfri mér, um að geyma lestur á "Óreiðu á striga" eftir Kristínu Marju, þar til á jólunum sjálfum. Ég gat einfaldlega ekki beðið. Að vísu er ég enn ekki búin að lesa nema fjórðung sögunnar og er ekki svikin af þeim lestri. Sagan er tær snilld og ég er hreint alveg rasandi yfir því að bók Kristínar Marju skildi ekki vera tilnefnd til bókmenntaverðlaunanna. Ég verð því að vona að ég fái Sögur úr Síðunni, eftir Böðvar Guðmundsson, sem ég gæti hugsað mér að lesa á jólanótt.

Á föstudaginn átti ég frábæra stund með grunnskólabörnum í Vogum á Vatnsleysuströnd. Ég var beðin að um að koma í skólann með forvarnafræðslu um umferðarmál. Mér var launuð sú fræðsla með fallegum upplestri barnanna þar sem þau fjölluðu um aðventukransinn. Tvær fallegar stúlkur sungu síðan einn lag í lokin. Það var gaman að sjá öll börnin á sal saman og þau voru afar prúð og skóla sínum til sóma.

Mamma mín, vestfirska valkyrjan Guðmunda Helgadóttir, stendur nú í stórfelldum hveitikökubakstri fyrir afkomendur sína og hefur þegar fært mér minn skammmt. Hjá minni stóru fjölskyldu eru engin jól án þess að þetta góðgæti sé á borðum - helst með sauðahangiketi.

Í gær horfði ég á afar athyglisverðan þátt Ólínu Þorvarðardóttur, vinkonu minnar, Á ÍNN sjónvarpsstöðinni. Þar ræddu saman þrjár merkilegar konur um kvenfrelsismál á þann hátt sem ég hef ekki áður heyrt. Umræðan var málefnaleg og æsingalaus og var afar upplýsandi um málstað feminista, sem sætt hafa ómálefnalegrar gagnrýni að undanförnu. Þær stöllur, Ólína, Katrín og Sólveig voru afar skemmtilegar og fræðandi - þótt ekki væru þær fullkomlega sammála um allt. Kærar þakkir fyrir góðan þátt. ÍNN er að sækja mjög í sig veðrið og nú býður stöðin upp á marga áhugaverða þætti - enda ekkert nema fjölhæfar sjónvarpskonur sem stýra þar málum með aðra vinkonu mína, Maríönnu Friðjónsdóttur, í brúnni.

Hlakka til að fylgjast með ÍNN í framtíðinni. Það verður seint sagt að ég eigi ekki frábærar og fjölhæfar vinkonur - hvort sem þær eru ljóskáld, sjónvarpskonur (eða hvoru tveggja)  eða í öðrum skapandi störfum. Mikið er ég stolt af þeim öllum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband