Af sólargeisla frá Tógó og öðrum sem sólin nær aldrei til.

Þar sem ég var stödd í bílageymslu í Malaga, fékk ég yndislegt símtal frá Íslandi. Þar var vinur minn og lærimeistari, Njörður Njarðvík í símanum og sagði mér að ég hefði "eignast" stúlku í Tógó í Afríku. Ég varð bæði hræð og stolt þegar hann tjáði mér að hann vissi ekki ennþá hve gömul hún væri en sagði mér svo nafnið hennar. Gracia heitir hún og er "dóttir" mín í Tógó. Ég er stuðningsforeldri hennar og er svo innilega ánægð með þessar fréttir að argaþrasið og áreitið sem beið mín náði ekki að skyggja á þessa innilegu gleði. Meira að segja gamall "viðskiptavinur" minn á meðan ég var í umferðardeild lögreglunnar, sem varð að hella úr saurdalli sálar sinnar yfir mig á netinu vegna ummæla minna í útvarpi sem fóru í taugarnar á honum, náði ekki að víkja myndinni af afrísku stúlkunni úr huga mér. Og þá er nú mikið sagt því oft hafa þeir misvitru´"góðkunningjar"  velgt mér undir uggum.

Ég hef verið að velta því svolítið fyrir mér hvernig stendur á því að svo sterk viðbrögð verða oft vegna athugasemda sem ég læt frá mér í seinni tíð. Það er eins og ákveðinn hópur manna (karlmanna) setjist við tölvuna og ausi úr fúkyrðadalli sínum yfir mig og mína ef mér leyfist að vera ósammála þeim. Er ég allt í einu orðin svona illskeytt, spurði ég vini og vinnufélaga. Fara ákveðnar konur svona mikið í taugarnar á tilteknum karlmönnum? Svarið kom svolítið á óvart, en liggur þó í augum uppi. Menn vildu meina að netið, og allir möguleikar þess, væri ástæðan. Þeir sem væru óánægðir og fúllyndir, jafnvel með skerta sjálfsmynd og minnimáttarkennd, settust gjarnan við tölvuna og fengju þar sína útrás. Áður en netið kom til sögunnar voru það opnu símatímarnir í útvarpinu. Taktu þetta ekki nærri þér, Ragnheiður mín, sagði vinkona mín. Það eru heiglarnir sem drita svona yfir fólk á netinu í stað þess að ræða málin á  vitsmunalegan hátt. Þessir hugleysingjar myndu aldrei þora þessu annars.

Mér létti svolítið og fór að hugsa aftur í tímann. Þá var ég líka oft að tjá mig um umdeild mál í fjölmiðlum en fékk ekki yfir mig fúkyrðagusur eins og nú. Þá  hringdi einstaka símavinur og ræddi málin og stundum var skipst á skoðunum. En aldrei voru notuð óviðurkvæmileg, klúr eða meiðandi orð, eins og nú er. En þá var ekkert net og því höfðu heiglarnir ekkert athvarf.

Ég veit ekki hvort það er tilviljun eða ekki - en flestir sem tjá sig á svona ómálefnalegan hátt, kunna illa íslenskt mál og furðulega margir (þ.e. ef þeir skrifa undir nafni) miðað við fjöldann, hef ég haft afskipti af sem lögreglumaður á árum áður. Er þetta allt saman bara ímyndun mín eða tilviljun ein. Veit ekki. En vekur mig til umhugsunar.

 Litla Gracia mín í Tógó á þó hug minn allan þessa dagana - þrátt fyrr erfiða daga eftir frí.

Góða helgi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Katrín Rúnarsdóttir.

Sendi þér bros og hlátur inn í daginn, eigðu góðan dag.

Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 21.7.2007 kl. 16:00

2 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Og hvað kostar svo svona hnáta, Ranka mín? En grínlaust þá duttu mér þessi orð í hug af gefnu tilefni. Alls ekki að ég sé að líkja stúlkunni þinni í Tógó við konurnar sem koma fyrir í þessari upprifjun minni.

En Mef var fyrir margt löngu með íslenska kaupmenn á fundi í Kaupmannahöfn. Meðal þeirra var fullorðinn maður sem rak verslun úti á landi en er látinn núna. Hann var ekki mjög veraldarvanur en tilbúinn að tileinka sér siði innfæddra og þeirra veraldrarvanari í hópnum.

Í ferðinni var einnig góðvinur okkar Mef sem nú er þjóðkunnur. Hann er og hefur alla tíð verið dálítið upp á kvenhöndina og í eina tíð átti hann góðvinkonur í hverri borg.

Mef og hann sátu og snæddu morgunverð á hótelinu en með vininum var íslensk vinkona hans sem kom utan til að hitta hann og um leið njóta þess að vera með honum fjarri forvitnum augum.

Þar sem þau þrjú sátu og borðuðu kom sá fullorðni til að afla upplýsinga um hvað Danir byðu í morgunverð. Hann spjallaði góða stund við þá félaga Mef og vininn en allt i einu snýr hann sé að vininum og spyr á því ylhýra: Og hvað kostar svo svona hnáta xxxx minn?

Hvað átti blessaður kallinn að halda því kaupmennirnir gerðu ekki annað kvöldið áður en tala með miklum karlrembingi um fylgdarkonur og gleðikonur sem þeir væru að fara að hitta. Hann var því ekki í vafa um að konan sem sat við borðið væri komin úr þeirra röðum

 

Mér dettur þetta svo oft í hug því ég þekki allt þetta fólk og hefði viljað vera á staðnum til að fylgjast með svipbrigðum.Ég sé þau fyrir mér en þessi vinur okkar er afar orðheppinn og fljótur að hugsa. Hann var ekki lengi að að gera þann gamla kjaftstopp þegar hann sneri sér að viðhaldinu sínu og sló á létta strengi og hún brosti fallega til þess gamla og svaraði honum á íslensku með nokkrum vel völdum orðum. Allt í léttu gríni og það varð enginn sár.

En “hnátan” er nú tæpum tuttugu árum síðar eiginkona þessa vinar okkar.

Forvitna blaðakonan, 22.7.2007 kl. 22:29

3 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á því stórkostlega starfi sem SPES samtökin vinna í Tógó. Þar vinna menn allt í sjálfboðavinnu og það fer ekki ein króna í kostnað. Ég kynntist Nirði í H.Í. og af öðrum kennurum ólöstuðum, lagði hann að sumu leyti grunnin að lífsskoðunum mínum - svo ekki sé talað um þau áhrif sem hann hafði á mig sem blaðamann/rithöfund. Ég var því ekki lengi að hugsa mig um þegar mér bauðst að greiða ákveðna upphæð á mánuði, sem ég skal segja þér síðar hver er, og það hefði ég gert um skeið. Það var síðan fyrir tveimur vikum sem hann hringdi og þá bauð hann mér að gerast styrktarforeldri Gracíu litlu (sem ég veit þó ekki hversu gömul er ennþá) og það þáði ég eins og skot.

Ég veit ekki hvað skal segja um vin ykkar MEF eða aðra sem tala svona digurbarkalega og óskemmtilega og læt vera að tjá mig um það.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 23.7.2007 kl. 08:30

4 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Þessi saga er ekki til annars en brosa af henni og íimynda sér aðstæður en vitaskuld hef ég mína skoðun á hvað hún felur í sér; það er hinsvegar ekki til umræðu hér.

Þessi umræddi maður er mér alltaf kær, hvað sem kvensemi hans líður. 

Forvitna blaðakonan, 23.7.2007 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband