21.6.2007 | 08:56
Þyrlulöggæsla í baráttunni við ökuníðinga.
Mikið hefur verið rætt um leiðir til að sporna við hvers konar hraðakstri og leiðir til að stöðva ökuníðinga. Lögreglan hefur átt í erfiðleikum með að stöðva mjög hraðseið ökutæki og þá einkanlega kraftmikil vélhjól. Árið 1993-1994 var gerð afar athyglisverð tilraun þar sem Gró, þyrla Landhelgisgæslunnar, var notuð til eftirlits. Árangurinn var umtalsverður. Á þeim tíma voru mikil brögð af því að torfæruhjólum og vélsleðum væri ekið eftir göngustígum í úthverfum í Reykjavík og átti lögreglan erfitt með að uppræta þessi brot þar sem eftirför með venjulegum löggæslutækjum, reyndist erfið. Með þyrlunni var aftur á móti hægt að fylgja hjólinu eftir og sjá þannig hvert því var ekið, þ.e. heim að hvaða húsi. Daginn eftir var ökumaður hjólsins einfaldlega heimsóttur og hann eða foreldrar hans látnir sæta ábyrgð. Það er skemmst frá því að setja að akstur vélknúinna ökutækja á gang- og reiðstígum nánast lagðist af þann tíma sem þyrlan var sýnileg.
Þá gagnaðist þyrlulöggæsla afar vel við eftirlit með hraðakstri á þjóðvegum, sérstaklega Suður- og Vesturlandsvegi. Ofsaakstur var festur á myndband og um leið og ökutækinu var fylgt eftir. Lögreglumenn í þyrlunni voru í beinu sambandi við kollega sína á jörðu niðri og sátu fyrir ökuníðingunum og stöðvuðu aksturinn, án þess að ökumaður hefði minnsta grun um að með honum væri fylgst. Þannig varð hann aldrei var við eftirför og hafði því enga ástæðu til að stinga af á enn meiri hraða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Í Bretlandi eru gerðar út löggæsluþyrlur með mjög góðum árangri. Fyrrum her- og lögreglumenn stofnuðu með sér fyrirtækið PAS sem gerir út þyrlur sem leigðar eru út til lögregluembætta um allt Bretland. Í áhöfn þyrlunnar eru auk lögreglumanna, læknir og búnaður til þess að sinna bráðaútköllum.
Eftir þetta eina ár var mikill áhugi meðal lögreglumanna að fá áframhaldandi afnot af þyrlu Landhelgisgæslunnar en áframhald varð ekki á þessu samstarfi. Lögreglumennirnir sem sinntu eftirlitinu rituðu skýrslu um þetta verkefni þar sem fram kemur ótvíræður árangur í baráttunni við ofsaakstur og aðra óáran í umferðinni. Þá tóku þeir upp á myndband ýmis tilfelli af lögbrotum sem tókst að uppræta, m.a. svívirðilegan ofsaakstur á Hellisheiðinni um verslunarmannahelgi þar sem ökuníðingur stofnar lífi og limum fjölda manns í hættu. Þann ógæfusama ökumann tókst að stöðva áður en hann olli slysi.
Ég er sannfærð um að þyrlulöggæsla myndi draga verulega úr ofsaakstri, akstri ölvaðra ökumanna á hálendinu og glæfraakstri á göngu- og reiðstígum. Oft hefur verið þörf - en nú er nauðsyn.
Um bloggið
Skoðanir mínar
Bloggvinir
- omarragnarsson
- attilla
- konukind
- kolbrunb
- eddabjo
- annabjo
- helgasigrun
- olinathorv
- rheidur
- steingerdur
- annagisla
- sifjar
- berglist
- reynirgudjonsson
- gudrunmagnea
- kjarrip
- hhk
- loathor
- abg
- asabjorks
- astar
- gattin
- rustikus
- saxi
- ellasprella
- eythora
- fararstjorinn
- lucas
- kokkurinn
- hemba
- nonniblogg
- kolbrunerin
- hjolaferd
- larahanna
- lillagud
- lindagisla
- fjola
- stebbifr
- sveinni
- steinibriem
- thorasig
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.