8.6.2007 | 09:54
Örlagavefur var ofinn á hjóli
Vegna hinnar miklu sprengju sem átt hefur sér stað í fjölgun mótorhjóla á götunum birti ég hér viðtal við ungan mann sem slasaðist alvarlega í mótorhjólaslysi.
Páskadagur árið 1992 líður Berent Karli Hafsteinssyni seint úr minni. Þann dag urðu miklar og afdrifaríkar breytingar á lífi þessa unga manns þegar hann slasaðist mjög alvarlega eftir að hafa misst stjórn á vélhjóli sínu á ofsahraða á Faxabraut á Akranesi. Benni missti vinstri fótlegg neðan við hné og hvorki fleiri né færri en 48 bein í líkama hans brotnuðu, þar af voru 9 opin beinbrot. Þá eru ótaldir aðrir áverkar sem hann fékk við að hendast tugi metra niður í stórgrýtta fjöru. ,,Ég var mikill dellukarl á hvers konar hjólum þegar ég var unglingur og lærði snemma á skellinöðru. Svo óx þetta stig af stigi þangað til ég var kominn á 1.100 cc hjól, 165 hestafla, sem auðvitað var algjört brjálæði. Auðvitað fór maður alltof geyst og komst oftast upp með það því löggan náði manni aldrei á þeim tækjum sem hún hafði. Ég hefði svo sem mátt vita að hverju stefndi enda sagði bróðir minnmér að selja hjólið áður en ég dræpi mig á því. Hann sagði að það ætti ekki að standa á því Suzuki GSR 1100 slingshot heldur Suzuki GSR 1100 suicide! Ég hefði betur farið að að ráðum hans. Benni segist hafa verið uppreisnargjarn ungur maður á þessum árum. ,,Einu sinni var ég sviptur ökuréttindum og sektaður vegna hraðaksturs en náðist þó aldrei á hjólinu. Ég var sviptur án sannana, fylltist eftir það þrjósku, setti svokallaða flækjur á hjólið til að framkalla sem mestan hávaða og storkaði þannig löggunni meðvitað. Bað kærustuna um að stíga af hjólinu,,Þetta gerðist í blíðviðri á páskadag og margir voru á rúntinum þennan dag. Ég hafði ákveðið að selja mótorhjólið en ætlaði að fara síðasta sprettinn og sýna hvað í okkur byggi, hjólinu og mér. Til allrar hamingju bað ég þáverandi kærustu mína að fara af hjólinu en hún hafði verið aftan á hjólinu fram að því. Við höfðum verið saman í eitt ár þennan sama dag.Líklega sagði undirmeðvitundin mér að það væri öruggara, segir Benni alvarlegur í bragði. ,,Ég gaf hraustlega í og var á 230-250 km. hraða á Faxabraut, sem var nokkurs konar spyrnubraut okkar vélhjólagæjanna á þessum árum. Í raun man ég ekkert frá því sem síðan gerðist en mun hafa farið ofan í holu í malbikinu, fipast á hjólinu og endað ofan í stórgrýttri fjörunni, hjálmurinn þeyttist af mér við fyrsta högg og því var ég hjálmlaus þegar ég lenti í grjótinu. Þetta var lélegur hjálmur enda gáfu festingarnar sig við minnsta högg. Ég var klæddur keppnisgalla, sérstökum mótorhjólasamfestingi sem hefur án efa orðið til þess að ég missti ekki vinstri handlegginn. Benni hafnaði í sjónum eftir að hafa henst á sjóvarnargarð og man ekkert frá því nokkrum vikum fyrir slys þar til hann rumskaði á spítalanum, 2-3 vikum síðar. ,,Mér var haldið sofandi enda voru 48 bein í líkamanum brotin, þar af 9 opin beinbrot, þar á meðal höfuðkúpan, auk innvortis meiðsla. Líkamsþyngdin hrapaði úr 78 í 47 kíló við það að vera rúmfastur í nokkra mánuði.Vinstri fóturinn var svo illa farinn taka varð hann af rétt ofan við ökkla. Síðar varð að taka meira af honum í áföngum vegna dreps sem komst í sárið og endaði með því að ég er með stúf rétt neðan við hné. Ég var heppinn að missa ekki allan fótlegginn en hann fór hann mjög illa; margbrotnaði. Var vakandi þegar fóturinn var sagaður afVíst er að hörmungar Benna voru rétt að byrja þegar hér var komið sögu.Hann fór í ótal aðgerðir og segist hafa verið vakandi þegar fóturinn var sagaður af honum! Ég heyrði sarghljóðið þegar verið var að taka af mér fótinn og það var ekki skemmtileg lífsreynsla. Ég sá út undan mér á skurðarborðinu alls konar tæki og tól sem notuð, þar á meðal sagir og hnífa . Þá varð ég að gangast undir ótal aðgerðir sem tengdust viðgerðum á vinstri handlegg en ég get til dæmis ekki beygt vinstri handlegginn eða beitt honum sem skyldi. Svo fóru fingurnir mjög illa, segir Benni og sýnir mér visinn og boginn handlegg og kræklótta fingur. ,,Enn eitt áfallið stafaði að líkindum af blóði sem dælt var í mig þegar ég þurfti á blóðgjöf að halda. Í ljós kom síðar að þetta blóð var smitað af lifrarbólgu C sem var talin ólæknandi. Þetta var auðvitað mikið áfall og kallaði yfir mig ólýsanlegar kvalir í krabbameinslyfjameðferð sem lagði mig næstum í rúmið í 9 mánuði. Ég kastaði látlaust upp og horaðist mikið; var nánast eins og beinagrind á tímabili. Það var ekki á afleiðingar sjálfs slyssins bætandi, ég átti nóg með að jafna mig af því. Núna er ég samt laust við einkenni af lifrarbólgunni, þökk sé meðferðinni sem ég fékk. Ári eftir slysið var ég á Grensásdeild Borgarspítalans í nokkra mánuði og náði þá að taka meiraprófið. Það hjálpaði mér mikið að geta dreift huganum við eitthvað og ég dúxaði meira að segja! segir hann stoltur. Vinir í raunBinni var mjög virkur í alls konar félagsstarfi áður en hann slasaðist. Þá var hann í vélvirkjanámi auk þess sem hann stundaði líkamsrækt, eróbikk og sund. ,,Ég var mjög vel á mig kominn líkamlega og það er talið hafa bjargað lífi mínu. Hugarfarið hjálpaði mér svo við endurhæfinguna sem er búin að standa yfir látlaust allan tímann og sér ekki fyrir endann á því enn. Ég ákvað að standa á eigin fótum og liður í því var að fara í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki þar sem ég þekkti ekki hræðu. Þaðan útskrifaðist ég árið 1999. Ég hef verið meira og minna í sjúkraþjálfun, aðgerðum og í endurhæfingu á Reykjalundi árum saman en hef yfirleitt verið mjög bjartsýnn, þrátt fyrir allt. Það var ekki fyrr en ég lenti í þessu lifrarbólgudæmi sem ég fór að finna til þunglyndis.. Foreldrar mínir, systkini og kærasta reyndust mér afar vel, einkum nefni ég mömmu sem varla vék frá mér á spítalanum. Hún hefur nánast verið í hálfu starfi að sinna mér, panta tíma hjá læknum og aðstoða mig á allan þann hátt. Benni segist ekki hafa átt rétt á slysabótum því hann var talinn hafa ekið svo hratt að teldist vítavert gáleysi og með þar með hafi hann fyrirgert bótarétti sínum. ,,Auðvitað er mjög slæmt að verða af bótunum því þær hjálpa oft til að koma undir sig fótum á ný. Teknar voru skýrslur af félögum mínum eftir slysið. Þeir vitnuðu gegn mér og sögðu mig hafa verið á ofsahraða, sem var auðvitað satt. Ég er samt ósáttur því ég var ekki einn um að brjóta lögin. Við vorum allir meira og minna brotlegir í umferðinni. Ég er ekki bitur gagnvart þessum strákum en neita því samt ekki að eftir slysið áttaði ég mig á því hverjir voru sannir vinir og hverjir ekki. Á meðan ég dvaldi á spítalanum fékk ég yfir 400 manns í heimsókn en eftir að ég kom heim þynntist hópurinn og nokkrir tryggir vinir urðu eftir. ,,Líður eftir atvikumBenni er núna í starfsþjálfun í skóla á vegum Sjálfsbjargar, Hringsjá, sem hann segir mjög góðan undirbúning undir lífið. ,,Annars er mjög erfitt að gera framtíðaráætlanir því maður þarf sífellt að vera að fara frá í þjálfun, aðgerðir og fleira þvílíkt. Fáir vinnuveitendur sætta sig við slíkt. Ég finn alltaf til einhvers staðar og er aldrei verkjalaus, sef illa og á erfitt með að gera það sem mig langar til. Álagið á hægra fótinn er mikið því ég beiti honum meira en gervifætinum. Það er varla á þann hægri bætandi þar sem hann skaddaðist illa og hef ég orðið að fara í margar aðgerðir á honum líka. Fólk áttar sig ekki á öllu því sem fylgir svona slysum. Ég tek til dæmis aldrei framar mark á slysafréttum þar sem tekið er svo til orða að viðkomandi ,,líði eftir atvikum. Þetta getur einfaldlega þýtt að sá sé jafn illa farinn og ég á sínum tíma. Það sést ef til vill ekki mikið utan á mér að ég sé illa farinn enda hef ég verið duglegur að koma mér í þjálfun á ný. Þess vegna lít ég ágætlega út enþað er ekki allt sem sýnist í þessum bransa, segir Benni og brosir. Ég get svo sannarleg tekið undir þessi orð hans enda lítur hann mjög vel út, hressilegur ungur maður sem ber ekki slysið utan á sér. Hann er samt að koma úr enn einni aðgerðinni sem hann kallar ,,hálfgerðan tittlingaskít! Ónot þegar heyrist í sírenum,,Ég er afar þakklátur fyrir að hafa ekki slasað aðra en sjálfan mig. Sumir þurfa að bera þær byrðar til æviloka að hafa slasað eða svipt aðra lífi í umferðinni með gáleysi sínu. Ég get líka þakkað mínum sæla fyrir að hafa beðið vinkonu mína að stíga af hjólinu áður en ég fór í ferðina örlagaríku. Ég get líka verið þakklátur fyrir að vera þó ekki verr farinn en raun ber vitni. Ég get gengið og stundað kynlíf sem er meira en þeir geta sagt sem lamast eftir slys. En það þýðir þó ekki að ég sé sáttur við ástandið. Maður skapar sér sín örlög sjálfur og ég get engum um kennt nema sjálfum mér. Nú fæ ég alltaf ónot í magann þegar ég heyri í sírenum sjúkra- eða lögreglubíla og þá ekki síst þegar ég heyri spyrnuhljóðin í mótorhjólastrákunum sem þeysa upp Breiðholtsbrautina rétt hjá heimili mínu. Þau heyri ég oft þegar ég ligg andvaka og get ekki sofið vegna verkja. Benni segir ýmsar minningar vakna þegar hann kemur inn á gamla Borgarspítalann (Landspítala-háskólasjúkrahús í Fossvogi) þar sem hann dvaldi svo lengi. Hann talar um stuðning foreldra sinna sem reyndist ómetanlegur. Mamma og pabbi hafa reynst mér ótrúlega vel og ég á þeim mikið að þakka. Ég bjó nánast á ,,hótel mömmu fyrstu árin eftir slysið og er reyndar mjög háður henni ennþá. Þá á ég fósturson sem er sjö ára, son fyrrum sambýliskonu minnar. Hann er oft hjá mér og gefur mér mikið. Ég var í sambúð á tímabili en slysið og afleiðingar þess reyna mjög á samband fólks og það þarf sterkan maka til þess að þola álag sem þessu fylgir. Samt horfi ég bjartsýnn til framtíðarinnar og á mikla möguleika þrátt fyrir allt. Nú tek ég bara fyrir einn dag í einu og ætla mér að ná mér eins vel og hægt er miðað við aðstæður. Slysið kenndi mér ákveðið æðruleysi og að taka ekki öllu sem sjálfsögðum hlutum. Pabbi orti vísu um slysið sem lýsir mér nokkuð vel: Aflið er unglingum erfiður skóliáhættan heillar og aldrei neitt hik.Örlagavefur var ofinn á hjólivið andvaraleysi eitt augnablik. Líf og heilsa er það dýrmætasta fólk á og sorglegt þegar lífinu er stefnt í voða á þann hátt sem ég gerði. Ég vona að reynsla mín verði öðrum víti til varnaðar, segir þessi bjartsýni ungi maður að lokum og gengur, nánast óhaltur, stæltur og myndarlegur út í haustið.Um bloggið
Skoðanir mínar
Bloggvinir
- omarragnarsson
- attilla
- konukind
- kolbrunb
- eddabjo
- annabjo
- helgasigrun
- olinathorv
- rheidur
- steingerdur
- annagisla
- sifjar
- berglist
- reynirgudjonsson
- gudrunmagnea
- kjarrip
- hhk
- loathor
- abg
- asabjorks
- astar
- gattin
- rustikus
- saxi
- ellasprella
- eythora
- fararstjorinn
- lucas
- kokkurinn
- hemba
- nonniblogg
- kolbrunerin
- hjolaferd
- larahanna
- lillagud
- lindagisla
- fjola
- stebbifr
- sveinni
- steinibriem
- thorasig
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir þetta. Það veitir ekki af að minna á að þótt menn lifi slysin af er ekki þar með sagt að allt sé í lagi.
Steingerður Steinarsdóttir, 8.6.2007 kl. 12:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.