6.6.2007 | 11:28
Þarf einn að deyja í hverri fjölskyldu?
Í framhaldi af fyrri færslu minni, langar mig að deila með ykkur reynslu aðstandenda eftir sonar/bróðurmissi árið 2005. Viðtalið er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.
Mæðginin Bergþóra Harpa Þórarinsdóttir og Viktor Guðmundsson ræða missi sinn en sonur Bergþóru og bróðir Viktor, Þórarinn Samúel Falk, 15 ára, lést í umferðarslysi í Öxnadal þann 17. júní árið 2005
Nokkrum vikum fyrir slysið dreymdi Dóra minn draum. Í draumnum var hann staddur við leiði afa míns, sem hvílir í horni kirkjugarðsins hér í Garðinum. Dóra þótti hann vera að moka fyrir blómum á leiði afa mín. Líklega hefur Dóri minn verið berdreyminn, því nú hvílir hann sjálfur við hlið afa.
Þetta segir Bergþóra Harpa Þórarinsdóttir, móðir Þórarins Samúels Falk Guðmundssonar, sem ávallt var kallaður Dóri og var aðeins 15 ára þegar hann lést í umferðarslysi í Öxnadal, aðfararnótt 17. júní árið 2005. Í sama slysi beið 18 ára félagi hans og ökumaður bílsins, Sigurður, einnig bana. Slysið er mörgum minnistætt þar sem tveir ungir drengir létust í blóma lífsins og einnig vegna þeirrar hryggilegu staðreyndar að bílnum var ekið á ofsahraða með þessum skelfilegu afleiðingum. Dóri var farþegi í öðrum tevggja bíla sem voru í samfloti til Akureyrar en vinahópur í þessum tveimur bílum hugðist sækja svokallaða bíaldaga á Akureyri þessa helgi. Bróðir Dóra, Viktor, var með í för og var hann í seinni bílnum sem koma að slysinu, örstuttri stund síðar. Viktor, sem er 18 ára, hét því á dauðastund bróður síns að hann skildi gera allt sem í hans valdi stæði til þess að koma í veg fyrir að svona harmleikur endurtæki sig. Viðtalið, sem hér fer á eftir, er liður í þeirri viðleitni. Móðir hans, Bergþóra, er einnig tilbúin að ræða þessa miklu lífsreynslu í þeirri von að sú frásögn veki fólk til umhugsunar.
Fjölskyldan býr á Suðurnesjum. Bergþóra býr í Garðinum en Viktor býr hjá föður sínum í Keflavík. Í upphafi hverfum við aftur nokkra mánuði aftur í tímann og ég bið þau mæðgin að rifja upp daginn sem breytti lífi þeirra til frambúðar.
Bergþóra: Ég sá Dóra í síðasta sinn um fimmleytið þann 16.júní. Þá hafði ég gefið honum leyfi til að fara með strákunum norður á bíladagana. Hann fór þá til Reykjavíkur á undan og ætlaði síðan norður síðar um kvöldið með Sigga. Það var einhver beygur í mér fyrir þessari ferð og ég sagði honum að ég ætlaði að koma norður til Akureyrar og vera í bænum um helgina. Ég sagði honum þó ekki hvenær ég myndi koma. Ég hafði einhverja slæma tilfinningu fyrir þessari ferð og til marks um það kláraði ég allt sem ég þurfti að gera þennan dag svona rétt eins og ég væri að undirbúa mig fyrir eitthvað.
Viktor: Við vorum sex saman, strákarnir, á tveimur bílum. Við Danni, vinur minn, fórum síðar um kvöldið eftir að hafa klárað að gera við bílinn hans Danna. Þá tókum við allan farangur hópsins með okkur, en við ætluðum að vera alla þessa helgi fyrir norðan á tjaldstæðinu. Það var því algjör tilviljun að Dóri var með Sigga í bíl en ekki okkur Danna.
Viktor segir þá félaga hafa verið með hálfgerða bíladellu sem sýnir sig í því að sjálfur hafi hann átt fjórtán bíla á þeim tíma sem hann hefur haft bílpróf og segist alltaf hafa haft gaman af að skipta um bíla, gera þá upp og grúska í þeim. Það hafði því verið ofur eðlilegt að þeir skildu vilja sækja bíladaga á Akureyri.
Viktor: Við vorum í samfloti lengst af ferðarinnar en eftir að við Danni þurftum að stoppa í Varmahlíð, skildu leiðir og þeir voru svolítið á undan okkur. Ég viðurkenni fúslega að við ókum nokkuð hratt og vorum lengst af á 1120-130 km. hraða og ég reikna með að Siggi hafi einnig ekið hratt, enda var hann talsvert á undan okkur. Ég hafði reglulega samband við þá í síma og allt virtist vera í lagi. Ég bað þá að bíða eftir okkur en þeir Siggi vildi ólmur koma sem fyrst til Akureyrar þar sem frænka hans beið hans.
Bergþóra: Ég hringdi í Dóra af og til og síðasta skiptið sem ég heyrði í honum var tólf mínútur yfir miðnætti á þjóðhátíðardaginn. Hann sagðist bara hafa ætlað að láta mig vita af sér og bað mig um að hringja ekki í sig þar sem hann ætlaði að leggja sig. Þú veist þá að það er allt í lagi, sagði hann síðan í lok samtalsins og kvaddi mig með orðunum: Ég elska þig mamma. Ég svaraði honum með sömu orðum en það var venja hjá okkur í fjölskyldunni að kveðjast með þessum hætti. Þessi síðustu samskipti okkar eru mér afar dýrmæt.
Þau Bergþóra og Viktor eiga greinilega afar erfitt með að rifja þessa atburði upp og taka sér hlé áður en þau koma að næsta þætti í þessum harmleik, þ.e. aðkomunni að slysinu og véfréttinni sem barst til móðurinnar sem hafði haft illa tilfinningu fyrir þessari ferð.
Viktor: Það liðu ekki nema 20 mínútur frá því ég talaði við strákana þar til við komum að slysinu. Ég var búinn að taka við stýrinu á bílnum hans Danna og það fyrsta sem ég sá var að eitthvað var að gerast framundan. Síðan sá ég felgu sem mér fannst ég kannast við og síðan svartan bíl langt fyrir utan veg. Ég hugsaði með mér að þetta þyrfti ekki að vera bíllinn hans Sigga og vildi í raun ekki trúa því. Bílum hafði verið lagt þarna hjá og ég sá ekki vel svarta bílinn en svo sá ég bílnúmerið og þá vissi ég hvað hafði gerst. Ég man ég stökk út úr bílnum áður en hann stoppaði og hljóp sem fætur toguðu að bílflakinu. Mér fannst eina og þetta væri draumur sem ég hlyti að vakna af. Allt var svo óraunverulegt; rétt eins og í kvikmynd. Ég sá að Siggi var látinn og ég man ég hugsaði með mér hvað ég vorkenndi foreldrum hans. Ég vissi ekki á þeirri stundi að Dóri væri að deyja enda var hann með lífsmarki og leit ekki út fyrir að vera í bráðri lífshættu. Hann svaraði mér einhverju þegar ég talaði til hans. Annars man ég það aðallega hversu reiður og örvæntingarfullur ég var þarna á slysstað. Þetta var allt svo ótrúlegt og fjarstæðukennt en samt var þetta raunverulegt. Svo komu sjúkrabílarnir og síðan gerðist eitt af öðru. Þegar ég kom á spítalann var mér sagt að tveir væru látnir úr slysinu og þá vissi ég að Dóri væri dáinn því bæði Böggi og Ívar, hinir strákarnir í bílnum, töluðu við mig á slysstað.
Bergþóra: Ég fékk símtal frá föður strákanna klukkan hálf þrjú um nóttina þar sem hann tjáði mér að eitthvað hræðilegt hefði skeð fyrir norðan; einn væri látinn og Dóri væri meðvitundarlaus. Það kom að því, hugsaði ég með mér að ég færi líka norður. Áður en að því kom, hrindi ég í föður minn sem hafði mig ofan af því að fara norður en kom þess í stað strax til mín, ásamt konu sinni. Móðir mín kom einnig til mín þessa nótt. Ég hringdi strax í Viktor en það svaraði ekki í símann hans. Ég vissi að Dóri væri dáinn. Fann það á mér.
Viktor: Ég gat ekki sagt mömmu þetta sjálfur og hafði því samband við vinkonu hennar í næsta húsi of sagði henni þetta. Það var síðan afi minn sem hringdi í mig frá mömmu og þá sagði ég honum sannleikann.
Bergþóra: Þetta kom svona smátt og smátt. Ég sá það á pabba að hann var að fá slæmar fréttir þegar hann var að tala í símann og í sömu andrá kom vinkona mín inn úr dyrunum. Þannig fékk ég í raun staðfestingu á því sem ég þegar vissi.
Viktor: Ég sá að Siggi hafði ekið á ofsahraða. Það fór ekkert á milli mála enda var bíllinn það langt frá veginum. Vegurinn var mjög ójafn þarna vegna. Mér var sagt að það væri vegna þungaflutninganna en þessir stóru bílar mylja undirlagið með þessum afleiðingum. Böggi og Ívar, þeir sem lifðu slysið af, sögðu mér eftirá að þeir hefðu verið á yfir 200 kílómetra hraða þarna skömmu fyrir slysið en vissi ekki alveg hver hraðinn var þegar þeir fóru útaf. Siggi mun hafa tiplað á bremsunni sem varð til þess að bílinn nánast flaug útaf veginum.
Sjálfur segist Viktor ekki vera saklaus af hraðakstri í gegnum tíðina og kveðst margoft hafa ekið á ólöglegum hraða.
Viktor: Ég hagaði mér eins og fáviti í umferðinni. Ég stakk lögguna margoft af á Reykjanesbrautinni og hafði mjög gaman af að spyrna þegar enginn sá til. Ég hugsaði aldrei út í afleiðingarnar og hef sjálfsagt haldið að ég væri ódauðlegur og ekkert gæti komið fyrir mig. Það þurfti þetta til að stoppa mig. Ég hét því þegar bróðir minn var að deyja að ég skildi aldrei aka svona hratt aftur. Ég lenti í árekstri í fyrra og slasaði mig í baki og er enn að takast á við afleiðingar þess slyss. Samt lét ég mér ekki segjast og átti eftir að aka oft mjög hratt eftir það. En ekki lengur. Ég hét því líka að ég myndi gera allt sem ég gæti til að koma í veg fyrir að svona hlutir endurtaki sig. Ég vil ekki trúa því að það þurfi einn að deyja í hverri fjölskyldu til að fólk fari að átta sig á að hraðinn drepur. Ég neita því þó ekki að mig langar oft til að spyrna en læt það ekki eftir mér. Ég verð að vera góð fyrirmynd núna.
Bergþóra hefur hlustað á son sinn og kinkar reglulega kolli undir frásögn hans. Hún segir mér að oft hafi hún óttast um strákana sína, eins og mæðrum er gjarnt að gera, en þó frekar óttast um Viktor en Dóra.
Bergþóra: Viktor hefur alltaf verið mikill fyrir sér og ör og ég bjóst frekar við að fá slæmar fréttir af honum en Dóra. Þeim bræðrum kom ekki vel saman þegar þeir vor yngri en undir það síðasta voru þeir orðnir nánari vinir og Dóri var farinn að stússast í bílum með bróður sínum og hafa áhuga á akstursíþróttum og bílum eins og vinahópurinn í kringum þá.
Hún segist taka sorgina út stig af stigi og alltaf hafa beðið eftir sjokkinu stóra.
Bergþóra: Það er engin ein aðferð til að takast á við sorgina. Hún er alls staðar og allt um kring. Það er allt sem minnir á son minn. Hver tími og hvert smáatriði vekur upp minningar og stundum er sorgin svo yfirþyrmandi að hún er að buga mig. En ég veit líka að Viktor og aðrir ástvinir Dóra eiga líka um sárt að binda og þess vegna verð ég að standa mig. Ég fæ mikið út úr því að tala við annað fólk og líður skást ef ég er ekki ein. Svo held ég úti bloggsíðu www.fjallkonan.tk þar sem ég læt hugann reika, tala við Dóra og fæ útrás fyrir tilfinningar mínar. Það hefur líka hjálpað mér mikið að finna hlýhug annarra og lesa skrifin frá öðrum á síðunni.
Viktor: Ég er kannski brattur svona dags daglega en ég á mínar erfiðu stundir og er ekkert að fela það að oft græt ég mig í svefn á kvöldin. Mér finnst líka stundum eins og vinir Dóra forðist að tala um hann eða eitthvað tengt honum svona rétt eins og þeir haldi að það særi mig. En mér líður alltaf vel þegar ég tala um bróður minn og vil minnast hans eins og hann var og alls þess sem hann stóð fyrir og gerði. Það hryggir mig ekki þegar talað er um hann. Síður en svo.
Bergþóra: Við fórum norður um verslunarmannahelgina og settum blóm og kerti á staðinn sem strákarnir dóu. Mér leið skelfilega illa og hélt ekki að þetta yrði svona erfitt sem raun bar vitni.
Viktor: Mér varð litið upp fjallið fyrir ofan veginn og sá hversu fallegir tindarnir eru þarna og hugsaði þá með mér að e.t.v. hefði Dóri dáið á fallegasta staðnum í Öxnadal. Mig dreymdi strákana líka í sumar. Mér fannst þeir standa í dyrunum á herberginu mínu. Þeir voru glaðir og kátir og sögðust ekki hafa verið sáttir fyrst í stað en væru orðnir það núna. Þeir vildu líka koma þeim boðum á framfæri að við, sem eftir lifum, ættum ekki að vera svona sorgmædd og reyna þess í stað að sætta okkur við orðinn hlut.
Bergþóra: Sorgin er mikil og það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki um Dóra. Allt minnir á hann. Ég veit að það verður erfitt um jólin og eins þegar afmælisdagurinn hals rennur upp. En ég á afar goða fjölskyldu og vini sem standa þétt við bakið á mér. En mér líður þó ekki síður illa þegar ég heyri fréttir af slysum þar sem ungt fólk á í hlut. Það vekur upp sárar tilfinningar.
Þau Bergþóra og Viktor segjast með viðtali þessu vilja vekja aðra til umhugsunar um skelfilegar afleiðingar hraðaksturs Það sé ein af þeirra leiðum til að vinna sig út úr sorginni.
Viktor: Það þurfti þetta til að stöðva mig. Ég viðurkenni það hreinskilnislega. Ég væri sennilega ennþá að spyrna á ofsahraða ef ég hefði ekki misst bróður minn í sumar í umferðarslysi sem varð vegna ofsaaksturs. En það er kannski sorglegast af öllu að það skuli hafa þurft þetta til að ég hagaði mér eins og maður í umferðinni. Það á ekki einn að þurfa að deyja í hverri fjölskyldu til þess að fólk vakni til vitundar um harmleiki umferðarinnar. Ef þetta viðtal verður til þess er tilganginum náð.
Um bloggið
Skoðanir mínar
Bloggvinir
- omarragnarsson
- attilla
- konukind
- kolbrunb
- eddabjo
- annabjo
- helgasigrun
- olinathorv
- rheidur
- steingerdur
- annagisla
- sifjar
- berglist
- reynirgudjonsson
- gudrunmagnea
- kjarrip
- hhk
- loathor
- abg
- asabjorks
- astar
- gattin
- rustikus
- saxi
- ellasprella
- eythora
- fararstjorinn
- lucas
- kokkurinn
- hemba
- nonniblogg
- kolbrunerin
- hjolaferd
- larahanna
- lillagud
- lindagisla
- fjola
- stebbifr
- sveinni
- steinibriem
- thorasig
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.