12.5.2012 | 15:30
Fjölmenntaða fjölskyldukonu á Bessastaði
Fjölmenntaða fjölskyldukonu á Bessastaði
Eftir Ragnheiði Davíðsdóttur
Fyrir rúmum þrjátíu árum, þegar Vigdís Finnbogadóttir gaf kost á sér til forsetakjörs, risu upp raddir sem fundu framboði hennar allt til foráttu. Helst bar á gagnrýni í þá veru að hún væri einstæð móðir sem ætti ekki maka til þess að standa sér við hlið í forsetaembættinu. Þá voru þeir margir sem bentu á afskipti Vigdísar af baráttu gegn herstöðinni á Miðnesheiði. Öll vitum við hvernig fór. Með Vigdísi eignuðust Íslendingar einn ástsælasta þjóðhöfðingja sem setið hefur á Bessastöðum, að öllum öðrum ólöstuðum.
Vigdís braut vissulega blað í sögunni og fór sannarlega gegn ríkjandi hefðum. Hún þorði, gat og vildi. Gagnrýnisraddirnar voru fljótar að þagna eftir að hún tók við embætti, enda sýndi hún og sannaði að hún var starfsins verð. Sjálf var ég virkur þátttakandi í kosningabaráttu Vigdísar og minnist þess hversu alþýðleg hún var alla tíð og laus við að draga fólk í dilka eftir þjóðfélagsstöðu. Hún var frambjóðandi sem bjó yfir kjörþokka, reynslu, menntun, mannkærleik og hlýju en síðastnefndu eiginleikarnir eru þeir sem færðu henni ekki síst sigurinn.
Mér eru einnig minnisstæð varnaðarorð Vigdísar þess eðlis að hvorki hún né stuðningsmennirnir mættu undir neinum kringumstæðum tala af óvirðingu um meðframbjóðendurna. Við það var staðið. Slíkur frambjóðandi býðst þjóðinni núna, þegar forsetakosningar eru framundan. Þóra Arnórsdóttir minnir um margt á Vigdísi. Hún er ung, vel menntuð, vel upplýst og hefur þann mannkærleik og hlýju sem einkenndu Vigdísi í embætti. Bakgrunnur hennar er einnig að mörgu leyti svipaður bakgrunni Vigdísar; Þóra nam erlendis, talar fjölmörg tungumál, hefur starfað við leiðsögn um landið okkar og unnið í sjónvarpi fyrir utan þann fágæta eiginleika að hafa ómælda persónutöfra. Og hún flytur ekki ein á Bessastaði, fari svo að hún nái kjöri. Með henni fara tvö börn þeirra Svavars Halldórssonar, auk barnsins sem er á leið í heiminn þegar þessi orð eru skrifuð. Auk þeirra munu þrjár dætur Svavars án efa eiga sitt annað heimili á forsetasetrinu.
Þau hjónin hafa tekið þá ákvörðun að Svavar sinni börnunum í fullu starfi. Það eru því léttvæg rök þegar því er haldið fram að Þóra kunni að eiga í erfiðleikum með að sinna embættinu með öll þessi börn. Í því sambandi er e.t.v. rétt að varpa fram þeirri spurningu hvort nokkur hefði haft orð á barnafjöld þeirra hjóna ef dæmið hefði snúist við og Svavar boðið sig fram til forseta. Á það skal einnig minnt að þau hjón hafa bæði verið í krefjandi vaktavinnu við fjölmiðla; vinnu þar sem reynt hefur á samtakamátt þeirra þegar kemur að umönnun barna þeirra. Ef Þóra nær kjöri verður enn frekar haldið utan um fjölskylduna þar sem annað foreldrið er alfarið heimavinnandi. Ungan aldur Þóru hefur oft borið á góma þeirra sem efast um hæfni hennar. Svarið við því er að kjörgengisaldur forseta er 35 ár og sá aldur hefur varla verið settur að ástæðulausu.
Fyrir skömmu heyrði ég vel menntaða og virta konu í samfélaginu svara þessum gagnrýnisröddum á snilldarlegan hátt: "Þóra er líklega betur upplýst um flest mál en allur þorri almennings. Í starfi sínu sem fjölmiðlamaður hefur hún orðið að setja sig vel inn í hin ólíkustu mál og situr svo í munnlegu prófi frammi fyrir alþjóð; prófi sem reynir á þekkingu hennar." Ef Þóra Arnórsdóttir nær kjöri forseta Íslands höfum við valið vel menntaða, fjölupplýsta, hjartahlýja fjölskyldukonu; konu sem lætur sér annt um almenning; konu sem verður þjóðinni til mikils sóma.
Höfundur er blaðamaður og háskólanemi.
Um bloggið
Skoðanir mínar
Bloggvinir
- omarragnarsson
- attilla
- konukind
- kolbrunb
- eddabjo
- annabjo
- helgasigrun
- olinathorv
- rheidur
- steingerdur
- annagisla
- sifjar
- berglist
- reynirgudjonsson
- gudrunmagnea
- kjarrip
- hhk
- loathor
- abg
- asabjorks
- astar
- gattin
- rustikus
- saxi
- ellasprella
- eythora
- fararstjorinn
- lucas
- kokkurinn
- hemba
- nonniblogg
- kolbrunerin
- hjolaferd
- larahanna
- lillagud
- lindagisla
- fjola
- stebbifr
- sveinni
- steinibriem
- thorasig
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.