Verndum Hengilssvæðið

Efni: Athugasemd við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir - Bitruvirkjun, allt að 135 MW jarðvarmavirkjun í Sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.

Ég undirrituð mótmæli fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur
á svokölluðu Hengilssvæði með eftirfarandi atriði í huga:
1.      Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís
íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar
2005. Nú, þegar verið er að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu svo gríðarlega sem raun ber vitni,
byggja á öllum auðum blettum og fækka útivistarsvæðum í þéttbýli, er brýnna en nokkru sinni að íbúar
höfuðborgarsvæðisins eigi kost á að njóta óspilltrar náttúru í hæfilegri dagsferðarfjarlægð frá heimilum
sínum. Þetta svæði er eitt örfárra í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt er að ganga um í
friði og ró, njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar fjarri amstri dagsins og síaukinni bílaumferð á
höfuðborgarsvæðinu.

Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta íbúa höfuðborgarsvæðisins og
afkomendur þeirra þessum lífsgæðum til þess eins að þjóna hagsmunum erlendra auðhringa í áliðnaði
eða annarri stóriðju. Þar af leiðandi mótmæli ég einnig að hluta svæðisins verði breytt í iðnaðarsvæði
skv. fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Ölfuss.
2.      Ein helsta tekjulind íslensku þjóðarinnar nú er ferðaþjónusta. Erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst
til Íslands til að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem landið hefur upp á að bjóða. Við auglýsum landið
sem óspillta náttúruperlu og á þeim svæðum sem það loforð stenst standa ferðamenn á öndinni yfir
þeirri fegurð sem við þeim blasir. Hengilssvæðið er einn þessara staða og vinsælt að fara þangað í
dagsferðir með erlenda ferðamenn, ýmist gangandi eða á hestbaki. Margir ferðamenn gera stuttan
stans á landinu og þá er nauðsynlegt að geta sýnt þeim óspillta náttúru sem næst
höfuðborgarsvæðinu.

Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta ferðaþjónustuna tækifæri til að sýna
erlendum ferðamönnum óspillta náttúru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og legg til að svæðið verði
friðað til frambúðar.
3.      Framkvæmdaraðili virkjana á Hengilssvæðinu er Orkuveita Reykjavíkur, en hún er einnig sá aðili sem
lét gera umhverfismat og ber kostnað af því.  Þetta eru ámælisverð vinnubrögð þar sem stór
hagsmunaaðili erí raun dómari í eigin máli. Ég mótmæli slíkum vinnubrögðum harðlega og geri þá kröfu
að óvilhallir aðilar sjái alfarið um mat á umhverfisáhrifum og íslenska ríkið beri kostnaðinn.
Umhverfismat sem framkvæmt er og kostað af hagsmunaaðila framkvæmdar getur aldrei verið marktækt.
4.      Einnig geri ég alvarlega athugasemd við kynningu og tímalengd hennar þegar svo stórar framkvæmdir
eru annars vegar sem snerta nánasta umhverfi og lífsgæði ríflega helmings íslensku þjóðarinnar.
Sex vikna frestur til athugasemda er allt of skammur og allt kynningarferlið til þess gert að sem fæstir
veiti málinu athygli og hafi skoðanir á því.
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þrátt fyrir að ferðaþjónusta sé orðin ein af mestu tekjulindum íslensku þjóðarinnar er einhver undarleg tregða við að taka mark á sérfræðingum í þeirri grein.  Hér er frétt sem ég fann á einum vefmiðlinum frá því í september 2006:

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) fallast ekki á jarðgufuvirkjanir á Hengilssvæði og Hellisheiði. Þau segja ófullnægjandi kannanir liggja að baki mati á umhverfisáhrifum. Það byggir á þremur könnunum en tilgangur þeirra er að athuga áhrif virkjananna á ferðaþjónustu og útivist. Með þessu gera samtökin athugasemdir við tillögur Orkuveitu Reykjavíkur að matsáætlunum fyrir jarðgufuvirkjun annars vegar á Ölkelduhálsi á Hengilssvæðinu og hins vegar við Hverahlíð á Hellisheiði.

Fyrsta athugasemdin er sú að meginkönnunin fjalli um aðra virkjun á öðrum stað. Þá taki hún einungis til almennings á Íslandi. Könnunin er fimm ára gömul. Þá er byggt á könnun meðal gesta á Nesjavöllum og segir í athugasemdum samtakanna að viðhorf gesta í orkuveri séu ekki líkleg til að endurspegla viðhorf almennra ferðamanna, hvað þá þeirra sem séu hingað komnir til að njóta útiveru og náttúruskoðunar. Loks er byggt á athugun meðal farþega í Leifsstöð sem eru að fara að landi brott. Hún mældi fjölda þeirra sem höfðu komið að Nesjavöllum en ekki var spurt um afstöðu til virkjana.

Fram kemur í athugasemdum samtakanna að rannsóknarsvæði Orkuveitunnar hafi verið sett í umhverfisflokk A en framkvæmdir í þeim flokki teljast hafa lítil umhverfisáhrif. Samtökin gagnrýna þetta og segja jarðhitakosti ekki hafa verið skoðaða fyrr en undir lok vinnunnar við matsáætlunina. Þá hafi verið mjög deilt um hver umhverfisáhrifin yrðu. Bent er á lagningu röra sem hafi mikil sjónræn áhrif. Samtökin gera þá kröfu að þegar áhrif eru metin liggi fyrir staðsetning mannvirkja - bygginga, borhola, röra, raflína og vega. Svæðið sem um ræðir sé mjög mikilvægt ferðaþjónustunni þar sem það sé í næsta nágrenni höfuðborgarinnar. Hópur þeirra sem fari í skemmri ferðir frá borginni vaxi stöðugt.

Hvenær ætla íslenskir ráðamenn að fara að hlusta á einn mesta vaxtasprotann í íslensku atvinnulífi?

Fjallað var um málið í fréttum RÚV klukkan 8 í morgun og hékk fréttin inni á forsíðu til hádegis. Nú er búið að taka hana alveg út - hún finnst ekki einu sinni meðal eldri frétta frá í morgun, sjá hér:  http://www.ruv.is/heim/frettir/innlendar/

Fréttastofa Stöðvar 2 fjallaði um málið bæði í hádegisfréttum og kvöldfréttum þótt myndefnið hafi verið æði rýrt.

Það vakti athygli mína sem sagt var í frétt Stöðvar 2 í kvöld:
"Birna Borg Sigurgeirsdóttir, forseti bæjastjórnar í Ölfusi, segir að staðið verði við virkjanaframkvæmdir. Það sé stefna bæjarstjórnar að virkja í sveitarfélaginu."

Semsagt - það er búið að ákveða að virkja þótt málið hafi ekki hlotið lögbundna afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun og ekki búið að samþykkja nýtt aðalskipulag Ölfuss.  Til hvers er þá verið að sóa tíma og fjármunum í ferlið ef það hefur ekkert að segja?

Þarna er örsmátt sveitarfélag með um 2.000 íbúa að taka gríðarlega stóra ákvörðun sem snertir beint eða óbeint alla Íslendinga, framtíð ferðaþjónustu á suðvesturhorni landsins og ætlar að fórna geysimiklum verðmætum á altari Mammons.

Hvað er þetta annað en misbeiting valds = valdníðsla?

Ég hvet alla til að kynna sér málflutning andstæðinga virkjanaframkvæmda á Hengilssvæðinu á vefsíðunni www.hengill.nu, lesa hinar málefnalegu greinar sem þar eru birtar og senda mótmæli til Skipulagsstofnunar og Sveitarfélagsins Ölfuss.

Látum ekki stela frá okkur landinu og ómetanlegum auðævum þess!

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.10.2007 kl. 21:52

2 Smámynd: Þórunn Þórarinsdóttir

Það sem ergir mig við alla þessa virkjanagleði er siðleysið og ábyrgðarleysið sem birtisit aftur og aftur. Eins og það að það er gert umhverfismat --af fyrirækinu sjálfu! -- hmm. . Hversu gott og áreiðanlegt er það? Og það að málin virðast skoðuð á svo takmarkaðan hátt.  Og það að eina svarið við atvinnuuppbyggingu sé álver.....

Þórunn Þórarinsdóttir, 30.10.2007 kl. 22:36

3 Smámynd: Katarina Viklund

Ekki gleyma að senda inn athugasemð!

http://www.hengill.nu

Katarina Viklund, 31.10.2007 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband