Ný reynsla.

Dagur nr. 12 í atvinnuleysi mínu rennur upp hér í Firðinum. Hann er fallegur þessi dagur. Undanfarin 15 ár hef ég verið á flakki um landsbyggðina á þessum árstíma og þeir eru orðnir margir bollu- og sprengidagarnir  sem ég hef átt í íslenskum framhaldsskólum. Það er því nýlunda að vera ekki á flakki yfir Oddskarð eða Fróðárheiði með sjálfri mér, skjávarpanum og tölvunni.

Atvinnuleysi er ný lífsreynsla. Aldrei hef ég upplifað það að vera sagt upp starfi áður. Þessir dagar hafa liðið fremur hratt, þrátt fyrir allt. Fá tár hafa fallið - utan nokkurra þegar ég var að kveðja mína dásamlegu vinnufélaga sem ég eignaðist í VÍS á þessum 15 árum. Engin höfnunartilfinning hefur gert vart við sig. Undarlegt en satt. Engin biturð - enda þarf ég ekkert að skammast mín fyrir árangurinn þessi 15 ár. 

Í þau ár sem ég hef verið í skólum og á vinnumarkaði hef ég átt fáar stundir fyrir sjálfa mig. Nú hef ég nægan tíma og hann er nýttur vel. Ég er auðvitað að leita mér að atvinnu, tala við fólk og "leggja netin" og víst er að mér er ekki illa tekið. Það er samt  dálítið furðulegt að þurfa að gefa skýringu á uppsögn minni - enda margir gapandi hissa. Það skal því hér með tilkynnt að ég stal EKKI úr kassanum hjá VÍS, ég skandalíseraði EKKI á árshátíðum félagsins, ég mætti alltaf í vinnuna, nema þegar ég varð veik vegna álags í starfi.

En.... Ég var ekki alltaf sammála síðasta ræðumanni og sagði skoðanir mínar umbúðarlaust - hvort sem viðmælendur voru í stjórnunarstöðum eða ekki. Ég skipti ekki um skoðun þegar ég sá að yfirstjórnin var mér ekki sammála og var ekkert að klessa mér við hlið yfirmanna minna í mötuneytinu.  Ég sleikti sem sagt enga ***** Ég varði minn málaflokk og gerði það tæpitungulaust.

Ég tek atvinnuleysinu af æðruleysi. Ég fékk heila fjóra mánuði í uppsagnarfrest og þarf meira að segja ekki að vinna þá mánuði. Það er þakkarvert af VÍS - enda er þar alveg farið eftir kjarasamningum. Ég var heppin að hafa skriðið yfir 15 árin í starfi - því þá bættist við einn mánuður; fjórir í stað þriggja.  Þetta er mikil rausnarskapur af VÍS  - enda er ég ekki svo merkileg persóna að ég fái starfslokasamning eins og stóru karlarnir í viðskiptalífinu. Svo er ég líka kona á miðjum aldri.

Atvinnuleysið já. Ég fékk nýtt barnabarn um daginn. Ég sinni því og hef gleði og ánægju af. Ég heimsæki móður mína á spítalann daglega en hún fór í vandasama heilaaðgerð á sama tíma og mér var sagt upp hjá VÍS. (vinnuveitendur mínir vissu það vel og hafa reiknað dæmið þannig að ég þyrfti að hafa tíma til að sinna fársjúkri móður minni). Svo hafa þeir líka reiknað dæmið þannig að ég gæti notað afgangstímann til að sinna manninum mínum sem hefur verið óvinnufær öryrki í 20 ár. Þeim er ekki alls varnað´, fyrrum vinnuveitendum mínum.

Ég ætla samt ekki að vera með neina hetjustæla. Auðvitað hef ég áhyggjur af framtíðinni. Auðvitað er vont að missa atvinnuna á krepputímum. Auðvitað velti ég fyrir mér afborgunum af húsinu og bílnum þegar þessum fjórum mánuðum lýkur.  En. Það er enginn dáinn í fjölskyldunni, enginn slasaður eða fársjúkur (móðir mín er á hægum batavegi) ég á frábæra vini, ótrúlega góða fjölskyldu og þarf ekkert að kvarta.

Ég veit að mér leggst eitthvað til, svo ég noti orð ömmu minnar sálugu.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband