Færsluflokkur: Dægurmál

Heldur það versta en það næst besta.

Það er dálítið erfitt að skrifa um skyndilegan atvinnumissi án þess að vera bitur eða reiður. Hvorutveggja er fylgifiskur uppsagnar hjá flestum. Hvernig sem ég reyni - finn ég ekki fyrir þessum tilfinningum. Ég er miklu frekar hissa. Ég skil ekki hvað ég gerði rangt - en líklega er ég ekki dómbær á eign verk. Það er þó alveg ljóst að ég stóð mig vel þessi ár, þ.e. þangað til nýir stjórnendur komu að ákvarðanatöku. Forvarnastarf VÍS vann til tvennra verðlauna á meðan ég var í starfi og fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir athyglisverðar forvarnaauglýsingar.

Eina haldhæra skýringin er sú að ég var ekki tilbúin að beygja mig undir þær ákvarðanir sem lutu að breyttri forvarnastefnu; þ.e. ég vildi fremur halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hafði verið og gengið hafði þetta vel. Sú stefna gekk út á hina mennlegu  hlið; þ.e. ég vildi höfða til tilfinninga viðskiptavinanna og sýna fram á að sumt verður ekki bætt með tryggingum. Ég skrifaði m.a. handrit að forvarnaauglýsingum á sviði tjónavarna sem sýna fram á að í bruna- og innbrotatjónum er oft ekki hægt að bæta það sem glatast. Þau handrit voru skrifuð á svipaðan hátt og umferðarslysaauglýsingarnar; þ.e. líf, heilsa og persónulegir munir verður ekki bætt með peningum.

Þær hugmyndir hlutu ekki náð hjá yfirboðurum mínum.

Ég var einnig komin vel á veg með skipuleggja forvarnaátak sem miðaði að því að koma í veg fyrir slys í hestamennsku en þau hafa verið mjög tíð undanfarin ár. Vegna trúnaðarskyldu minnar við starfslok hjá VÍS get ég ekki skýrt frekar frá því út á hvað það átak gekk.

Við starfslok mín var svosem ekki úr háum söðli að detta. Verkefnin mín voru frá mér tekin og síðasta stórverkefnið, sem ég hef sinnt undanfarin 15 ár, er nú komið í hendur Umferðarstofu en ég átti þá tillögu að láta Umferðarstofu eftir aðgengið að framhaldsskólunum. Skilyrði þess að VÍS bakkaði út úr framhaldsskólunum var að efnið, sem boðið yrði uppá, væri í anda þess sem VÍS lagði upp með frá byrjun. Það gekk eftir og ég óska Umferðarstofu alls velfarnaðar á þeim mikilvæga vettvangi sem fræðsla framhaldsskólanema er.

Ljóst er að ágreiningur var um stefnu og framsetningu forvarnaefnis VÍS. Ég er þeirrar gerðar að standa og falla með þeim hugmyndum sem ég hef um forvarnir og víst er að þær hugmyndir hafa fallið í góðan jarðveg á þeim árum sem ég starfaði fyrir VÍS. Ég þoli illa seinagang og ótal fundi og miðstýringu - enda vil ég alltaf vera fremst meðal jafningja í hverju því sem ég tek mér fyrir hendur. Mér var treyst fyrir forvarnastarfi VÍS í 13 ár og naut velgengni í mínu starfi - allt þar til breyting varð á stjórnun félagsins. Ég er afar stolt af því að hafa staðið með sjálfri mér og mínum verkum og þykir vænt um tryggingarfélagið VÍS sem slíkt  - en verð að viðurkenna að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með stefnu þess í þeim málaflokki sem ég mótaði hjá félaginu og því brautryðjandastarfi sem það fól í sér. Ég hefði sannarlega getað haldið áfram að vinna hjá VÍS - verið svona nokkurs konar áskrifandi að launum mínum og dundað mér við smáverkefni - en það er ekki minn stíll. Heldur það versta en það næst besta.

Ég vil þakka þeim ótal mörgu fyrrum vinnufélögum mínum sem hafa haft samband við mig síðustu daga og einnig þeim sem lagt hafa lýst yfir furðu sinni á uppsögninni. Ég mun áfram vinna á svipuðum vettvangi en hvað það verður mun koma síðar í ljós.


Farin af stað - ekki eftir neinu að bíða!

Í dag setti ég af stað nýja vefsíðu www.greinaskrif.is þar sem ég býð upp á ritþjónustu. Ég hef lengi vitað af eftirspurn eftir góðum pennum sem taka að sér að skrifa texta fyrir aðra sem ekki kunna, eða þora, að beita honum. Flestir kannast við þá tilfinningu að vilja viðra skoðanir sínar en hafa ekki þor eða getu til þess að koma þeim í orð. Þetta á við marga sem vilja skrifa minningargrein, afmælisgrein, kvörtunarbréf, skýrslu af einhverju taki eða bara venjulega blaðagrein til birtingar í dagblaði.

Þá eru þeir margir sem hafa sett niður texta á blað en þora ekki að sýna öðrum - hvað þá birta hann opinberlega. Í áranna rás hef ég skrifað, eða leiðrétt ótal texta fyrir aðra. Ég hef einnig yfirfarið fjölda skólaritgerða; prófarkalesið og lagað málfarslega, séð um umbrot og frágang.

"Er þetta ekki þjónusta sem vantar?" hugsaði ég með mér, fljótlega eftir að ég varð atvinnulaus. Hver veit. Ég einhenti mér í að skrifa heimasíðu með vinkonu minni og lét vaða.

Nú er bara að sjá hvort eftirspurn skapast.


Svar eða ekki svar.

Mannlegt eðli er undarlegt. Margir hafa heyrt um fólkið sem missir ástvin eða veikist alvarlega og upplifir það að jafnvel bestu vinir forðast samskipti og jafnvel óttast viðkomandi einhverra hluta vegna. Svipað gerist því miður við atvinnumissi. Það er eins og sumt fólk gufi hreinlega upp; það svarar hvorki tölvupósti eða hringingum og svo, þegar maður hittir viðkomandi fyrir tilviljun, kemur upp mjög vandræðaleg staða og alls kyns afsakanir eru settar fram fyrir afskiptaleysinu.

Því miður er maður haldinn þeim misskilningi að allir hagi sér eins og maður myndi sjálfur gera undir svipuðum kringumstæðum. Sjálf hef ég mikla reynslu af því að umgangast fólk sem orðið hefur fyrir einhvers konar áfalli í lífinu og veit að afskiptaleysi er ekki það sem það óskar eftir frá vinum sínum.

En hvað um það. Svona er lífið og ekkert við því að gera annað en bíta á jaxlinn og halda áfram. Ég hef verið að leita mér að atvinnu undanfarnar vikur og sent ótal tölvupósta út og suður; svona rétt til að kanna stöðuna hjá hinum ýmsu fyrirtækjum. Tölvubréfin ganga ekki út á umsókn um starf - heldur er ég að biðja um aðstoð við atvinnuleitina; þ.e. að viðkomandi viti af atvinnuleysi mínu og láti það spyrjast að ég sé að leita. Svörin eru oft engin. Í raun bið ég ekki um annað en huggulegt svar um að viðkomandi hafi séð tölvupóstinn og hafi mig í huga. Annað ekki.

Það er þó engin örvænting í gangi á þessum bæ. Ég er svo lánsöm að kunna sitthvað fyrir mér og leita því eftir verkefnum hér og þar; tímabundnum ef ekki annað býðst. Úr hefur ræst að einhverju leyti en samt er ég enn að vinna að því að fá varanlega atvinnu.

Að vísu er ég dálítið óþolinmóð - enda hef ég ekki verið atvinnulaus í meira en tvær vikur. Við skulum spyrja að leikslokum.

 


Þegar einar dyr lokast...

Dagur þrettán í atvinnuleysinu rann upp í morgun. Frá því ég gekk út um dyrnar á þriðja vinnustaðnum í lífi mínu í síðasta sinn, hefur verið nóg að gera hjá mér. Líklega hef ég trassað margt persónulegt á þessum árum mínum sem ég starfaði hjá VÍS. Nú er ég búin að láta klippa mig, taka saman dósir í poka sem ég gaf handboltastelpum í Hafnarfirði, prjóna sokka og baka brauð. Þar fyrir utan hef ég heimsótt móður mína, fársjúka, á Landsspítalann næstum daglega, farið í ræktina og....og ....

Annars er það dálítið undarleg lífsreynsla að vera án atvinnu. Vinir og fyrrum samstarfsmenn hringja reglulega með samúðartón í röddinni og spyrja mig  ofur varlega hvernig ég hafi það; rétt eins og ég hafi misst ástvin. Þegar þeir hinir sömu heyra að ég er vel haldin á kafi í ýmsum verkefnum og undirbúningi (sem ég er ekkert að hafa hátt um - enda leyndarmál ennþá) þá hvá menn og spyrja: "Er það? Líður þér bara vel?"

Þetta er eins og þegar maður var svikinn í ástum á unglingsárunum og allir sögðu: "Það eru fleiri fiskar í sjónum," nema hvað núna er sagt: "Þú verður að líta á þetta sem tækifæri, Ragnheiður mín. Þegar einar dyr lokast - opnast bara aðrar." Vel meint, en virkar ekki vel á þann sem er með óljósa framtíð.

Annars ætla ég ekki gráta Björn bónda (VÍS hefur lengi verið Framsóknarfyrirtæki) heldur safna liði og berjast með þeim vopnum sem ég kann á og get beitt vel og fimlega. Meira síðar.


Ný reynsla.

Dagur nr. 12 í atvinnuleysi mínu rennur upp hér í Firðinum. Hann er fallegur þessi dagur. Undanfarin 15 ár hef ég verið á flakki um landsbyggðina á þessum árstíma og þeir eru orðnir margir bollu- og sprengidagarnir  sem ég hef átt í íslenskum framhaldsskólum. Það er því nýlunda að vera ekki á flakki yfir Oddskarð eða Fróðárheiði með sjálfri mér, skjávarpanum og tölvunni.

Atvinnuleysi er ný lífsreynsla. Aldrei hef ég upplifað það að vera sagt upp starfi áður. Þessir dagar hafa liðið fremur hratt, þrátt fyrir allt. Fá tár hafa fallið - utan nokkurra þegar ég var að kveðja mína dásamlegu vinnufélaga sem ég eignaðist í VÍS á þessum 15 árum. Engin höfnunartilfinning hefur gert vart við sig. Undarlegt en satt. Engin biturð - enda þarf ég ekkert að skammast mín fyrir árangurinn þessi 15 ár. 

Í þau ár sem ég hef verið í skólum og á vinnumarkaði hef ég átt fáar stundir fyrir sjálfa mig. Nú hef ég nægan tíma og hann er nýttur vel. Ég er auðvitað að leita mér að atvinnu, tala við fólk og "leggja netin" og víst er að mér er ekki illa tekið. Það er samt  dálítið furðulegt að þurfa að gefa skýringu á uppsögn minni - enda margir gapandi hissa. Það skal því hér með tilkynnt að ég stal EKKI úr kassanum hjá VÍS, ég skandalíseraði EKKI á árshátíðum félagsins, ég mætti alltaf í vinnuna, nema þegar ég varð veik vegna álags í starfi.

En.... Ég var ekki alltaf sammála síðasta ræðumanni og sagði skoðanir mínar umbúðarlaust - hvort sem viðmælendur voru í stjórnunarstöðum eða ekki. Ég skipti ekki um skoðun þegar ég sá að yfirstjórnin var mér ekki sammála og var ekkert að klessa mér við hlið yfirmanna minna í mötuneytinu.  Ég sleikti sem sagt enga ***** Ég varði minn málaflokk og gerði það tæpitungulaust.

Ég tek atvinnuleysinu af æðruleysi. Ég fékk heila fjóra mánuði í uppsagnarfrest og þarf meira að segja ekki að vinna þá mánuði. Það er þakkarvert af VÍS - enda er þar alveg farið eftir kjarasamningum. Ég var heppin að hafa skriðið yfir 15 árin í starfi - því þá bættist við einn mánuður; fjórir í stað þriggja.  Þetta er mikil rausnarskapur af VÍS  - enda er ég ekki svo merkileg persóna að ég fái starfslokasamning eins og stóru karlarnir í viðskiptalífinu. Svo er ég líka kona á miðjum aldri.

Atvinnuleysið já. Ég fékk nýtt barnabarn um daginn. Ég sinni því og hef gleði og ánægju af. Ég heimsæki móður mína á spítalann daglega en hún fór í vandasama heilaaðgerð á sama tíma og mér var sagt upp hjá VÍS. (vinnuveitendur mínir vissu það vel og hafa reiknað dæmið þannig að ég þyrfti að hafa tíma til að sinna fársjúkri móður minni). Svo hafa þeir líka reiknað dæmið þannig að ég gæti notað afgangstímann til að sinna manninum mínum sem hefur verið óvinnufær öryrki í 20 ár. Þeim er ekki alls varnað´, fyrrum vinnuveitendum mínum.

Ég ætla samt ekki að vera með neina hetjustæla. Auðvitað hef ég áhyggjur af framtíðinni. Auðvitað er vont að missa atvinnuna á krepputímum. Auðvitað velti ég fyrir mér afborgunum af húsinu og bílnum þegar þessum fjórum mánuðum lýkur.  En. Það er enginn dáinn í fjölskyldunni, enginn slasaður eða fársjúkur (móðir mín er á hægum batavegi) ég á frábæra vini, ótrúlega góða fjölskyldu og þarf ekkert að kvarta.

Ég veit að mér leggst eitthvað til, svo ég noti orð ömmu minnar sálugu.

 

 


Hætt hjá VÍS

Það er orðið nokkuð um liðið frá því ég skrifaði færslu á þessa síðu en nú tek ég upp þráðinn þarf sem frá var horfið. Straumhvörf hafa orðið í lífi mínu. Mér var fyrirvaralaust sagt upp starfi mínu sem forvarnafulltrúi hjá VÍS. Þar hafði ég starfað í tæp sextán ár. Ástæðan er sögð vera samstarfsörðugleikar.

Það kann að vera skilgreining einhverra en reyndin er sú að frá því nýir stjórnendur komu að forvarnamálum félagsins var smám saman dregið úr forvörnum félagsins auk þess sem valdssvið mitt varð að lokum ekkert. Í þessi rúmlega sextán ár hef ég verið vakin og sofin í þessu starfi og varla gert greinarmun á manneskjunni Ragnheiði Davíðsdóttur og forvarnafulltrúa VÍS, enda var mér margsinnis bent á af yfirstjórn VÍS að nafn mitt og félagsins væri samtengt. Þar af leiddi að ég gat ekki tjáð skoðanir mínar á hinum ýmsu málefnum opinberlega auk þess sem mér var tjáð að það passaði ekki að forvarnafulltrúi VÍS væri að taka þátt í pólitísku starfi. Tvisvar á þessu tímabili bauðst mér að taka sæti á framboðslista en varð í bæði skiptin að afþakka af fyrrgreindum ástæðum.

Mér er sárt um forvarnastarf VÍS og vildi halda áfram á þeim mannlegu nótum umhyggju og velferðar sem forvarnastarfið hefur einkennst hjá félaginu. Fyrir því var ekki hljómgrunnur og það gat ég ekki sætt mig við. Ég er mikil keppnismanneskja og vildi halda áfram að vera fremst meðal jafningja á sviði forvarna tryggingarfélaga. Þá skoðun lét í ég ljós - enda ekki verið þekkt af öðru en að vera hreinskiptin í samskiptum við fólk. Ég barðist eins og ljón fyrir að fá að halda áfram að stýra forvarnastarfi VÍS á þeim nótum sem ég hef gert með góðum árangri í bráðum 16 ár. Á það var ekki hlustað og því fór sem fór.

Ég sakna ekki forvarnastarfs VÍS eins og það var orðið þegar mér var sagt upp. Ég hefði ekki viljað vera í forsvari og þurfa að svara fyrir þá forvarnastefnu sem þar er rekin núna. Til þess hef ég of mikinn metnað.

Árin mín hjá VÍS voru vissulega skemmtileg og lærdómsrík og þá sérstaklega fyrstu 13 árin þegar mínir vinnuveitendur gáfu mér frelsi og treystu mér til að vinna að forvörnum á þeim nótum sem þjóðin þekkir. Það var dásamlegur tími. Umferðarslysum meðal ungmenna hefur fækkað á þessum tíma og er ég sannfærð um að forvarnastarf VÍS í framhaldsskólum sé þar mikill áhrifavaldur. Ég hef kynnst þúsundum ungmenna á ferli  mínum   og yndislegum,  kennurum. Það fólk hefur kennt mér margt.

Ég fer frá VÍS upprétt og stolt af því starfi sem ég hef unnið þessi rúmlega 15 ár. Ég sakna vissulega dásamlegra vinnufélaga en er þó fráleitt að skilja við þá alla, þótt ég skilji við VÍS.

Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér og það veit ég ekki heldur. Ég er þó fráleitt af baki dottin og mun án efa skipta mér eitthvað að forvarna- og öryggismálum, þótt á öðrum vettvangi verði. Svo kær er mér málaflokkurinn, sem jafnframt er eitt af mínum helstu áhugamálum, að ég get ekki sagt skilið við hann. Ég vona að ég geti hrint þeim hugmyndum, sem ekki hlutu hljómgrunn hjá VÍS, í framkvæmd.

VÍS óska ég velfarnaðar og öllu því góða og metnaðarfulla fólki sem þar starfar og hefur umhyggju og áreiðanleika að leiðarljósi í starfi sínu.


Vestfirska valkyrju á þing

  Vinkona mín og samstafskona um margra ára skeið, Ólína Þorvarðardóttir, hefur ákveðið að gefa kost á sér til þingsetu með því að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Það eru sannarlega góðar fréttir fyrir kjósendur kjördæmisins því öflugri og heiðarlegri talsmaður kjördæmisins er vandfundinn.   Ólína hefur aflað sér mikillar þekkingar og reynslu sem virkur þátttakandi í opinberri umræðu mörg undanfarin ár. Hún þótti skeleggur og vandaður fréttamaður á sínum tíma. Fréttir hennar vöktu iðulega athygli og umræðu, ekki síst umfjöllun hennar um framleiðslustýringuna í íslenskum landbúnaði sem hún setti fram á skýran og einfaldan hátt svo almenningur skildi. Mörgum eru enn minnisstæðar myndrænar fréttir af haugakjötinu svokallaða en þá arkaði Ólína upp í Gufunes og myndaði þegar verið var að henda á haugana mörgum tonnum af íslensku lambakjöti, til að rýma til í kjötgeymslum. Almenningi brá mjög í brún þegar það rann upp fyrir fólki hvað raunverulega var á seyði.Flestir minnast Ólínu einnig sem borgarfulltrúa Nýs vettvangs í  Reykjavík 1990-1994 þar sem hún þótti standa sig mjög vel sem oddviti minnihlutans í Borgarstjórn Reykjavíkur, þrátt fyrir ungan aldur. Á þeim tíma hristi þessi skelegga kona vel uppi í umræðunni um borgarmál og hélt uppi öflugum málflutningi sem margir eru sammála um að hafi í reynd markað áherslurnar fyrir kosningastefnuskrá R-listans þegar hann tók við 1994. Á þeim árum sem hún stýrði Menntaskólanum á Ísafirði fjölgaði nemendum umtalsvert og skólinn varð eftirsóttur sem framsækinn menntastofnun.Færri vita að Ólína hefur verið ötul sem fræðimaður og þjóðfélagsrýnir – óþreytandi talsmaður landsbyggðarinnar. Hún er hagyrðingur góður og hrókur alls fagnaðar á góðri stundu.Eftir að hún fluttist vestur gerðist hún meðlimur í Björgunarhundasveit Íslands og hefur verið mjög virk í Vestfjarðardeild þeirrar sveitar. Hún er mikil útivistarkona og gengur á Hornstrandir árlega með fræknum gönguhóp, sem ég er svo lánsöm að vera meðlimur í.Ólína er sannur vinur vina sinna og mikil fjölskyldukona. Hún á aldraða móður og fimm börn og eitt barnabarn sem hún heldur vel utan um.

Ég hvet fólk til þess að veita Ólínu brautargengi sitt í komandi prófkjöri svo ótvíræðir hæfileikar hennar fái að njóta sín í þágu þjóðarinnar. Hún er sannur jafnaðarmaður; réttsýn, ósérhlífin og síðast en ekki síst hugkrökk.  Hún hefur alla tíð verið málsvari lítilmagnans en er engu að síður óhrædd við að standa upp í hárinu á þeim sem meira mega sín. Heiðarleiki, réttsýni og tryggð lýsa henni e.t.v. best.

    

Þetta er auðvitað frábært!

Til hamingju, FB. Ég hef lengi haldið því fram að fíkniefnaneysla í framhaldsskólum sé ekki eins mikil og margir vilja vera láta. Þessi niðurstaða gefur vísbendingar þar um - ekki bara þessi eina leit, heldur fyrri leitir líka. Nú bíð ég bara eftir frétt frá hagsmunaaðilum í meðferðarstarfi sem rengja þessar niðurstöður. Það gerist alltaf þegar góðar fréttir berast af minnkun reykinga, áfengis og fíkniefnanotkunar í framhaldsskólum. Frábærar fréttir frá FB.
mbl.is Engin fíkniefni í fjölbrautaskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Konur" innilega óspennandi.

Ég hef alltaf keypt mér nokkrar bækur fyrir jólin; svona e.k. jólagjöf til sjálfrar mín. Í ár var úr vöndu að ráða enda leyfðu efnin ekki kaup á öllum þeim bókum sem mig langaði að lesa. Ég ákvað að kaupa mér "Fluga á vegg" eftir Ólaf Hauk og "Konur" eftir Steinar Braga. Ég var að ljúka við að lesa Konur og varð satt að segja fyrir miklum vonbrigðum. Bókin stendur að mínu mati engan veginn undir þeim væntingum sem ég gerði til hennar - enda hafði hún fengið góða dóma hjá flestum. Ef til vill er mér farið að förlast í mati mínu á fagurbókmenntum en þessi saga fannst mér beinlínis leiðinleg, ruglingsleg og söguþráðurinn lítt spennandi. Ég hreinlega skildi ekki samhengið í henni. Persónur eru lítt skilgreindar og margar fremur þunnar auk þess sem vonlaust er að fá samúð með aðalpersónu sögunnar. Stíllinn er uppskrúfaður og nánast hver einasti kafli byrjar á því þegar söguhetja bókarinnar er að vakna upp, timbruð, eftir ævintýri næturinnar sem eru oft og tíðum á mörkum þess að hægt sé að vita hvort um raunveruleika að drauma sé að ræða. Ég neyddi mig í gegnum bókina; var alltaf að vona að hún lagaðist. Svo var ekki. Ég var fegin þegar hún var búin og sá eftir aurunum sem ég eyddi í hana.

Ég er að lesa Fluguna á veggnum eftir ÓHS og vona að hún veiti mér meiri gleði.


Andvirði jólakortanna fer til styrktar fátækum.

Í ár höfum við Jói, maðurinn minn, ákveðið að senda ekki hefðbundin jólakort til vina og vandamanna. Þess í stað leggjum við andvirði þess sem það kostar að kaupa kortin og senda þau, til Mæðrastyrksnefndar. Það er góð tilfinning. Ég nýti mér þess í stað hina rafrænu leið og sendi góðar óskir um friðsæld á jólum of farsæld á nýju ári til þeirra sem áður fengu kort í föstu formi inn um lúguna. Vandinn er aftur á móti sá að ekki eru allir með aðgang að tölvu; sérstaklega ekki eldra fólk. Þá vini mína og ættingja ætla ég að hringa í. Vonandi gleðst einhver fátæk fjölskyldan þegar hún fær andvirði jólakortanna minna í formi inneignar eða matarpakka fyrir jólin.

Ég óska öllum bloggvinum mínum, sem og öðrum landsmönnum, árs og friðar með von í brjósti um að nýja árið færi okkur gleðitíðindi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband