Árstíðabundin fíkn.

Þá er hún skollin á, fíknin sem herjar á mig um þetta leyti árs; kaup á nýútkomnum bókum. Ég var að enda við að lesa Myrká eftir Arnald og skemmti mér vel. Arnaldur klikkar ekki. Að vísu saknaði ég Erlendar en Elínborg stóð fyrir sínu. Næsta á listanum er bók Þráins Bertelssonar sem ég hlakka til að lesa - enda var fyrri æviminningabók hans sérstaklega skemmtileg. Þá er Einar Kárason freistandi. Fjárhagurinn leyfir að vísu ekki stórfelld bókakaup en ég stenst þó aldrei nokkrar bækur áður en ég opna jólapakkana. Það er að vísu okónómískt óhagstætt - enda koma þessar bækur flestar út í kiljum sem eru mun ódýrari. Ég get þó sjaldnast beðið. Fátt sem jafnast á við það að hátt með góða bók.

Á morgun fer ég á Skagann, söguslóðir í bókinni Myrká, og Fjölbrautarskólinn á Akranesi kemur við sögu í þeirri bók; sá sami skóli og ég er að fara að heimsækja til þess að uppfræða nemendur um hætturnar í umferðinni.


Lára Hanna frábær talsmaður almennings.

Mikið óskaplega var ég stolt af vinkonu minni, Láru Hönnu Einarsdóttur, sem koma fram í Silfri Egils í dag. Málflutningur hennar kom mér svosem ekkert á óvart; ég hef lengi vitað hversu mælsk hún er og málefnaleg. Lára Hanna hefur barist óeigingjarnri baráttu gegn hvers konar landsspjöllum vegna virkjanaframkvæmda og fært góð rök fyrir máli sínu; rök sem allir skilja. Hún hefur verið n.k. málsvari náttúrunnar og lætur einskis ófreistað við að berjast gegn hvers konar spillingu og græðgi.

Nú hefur Lára Hanna tekið upp málstað almennings sem krefst þess þeir sem bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir almenningi, axli ábyrgð. Í þættinum benti hún á þá augljósu staðreynd að meirihluti almennings vill að bankastjórar Seðlabankans og stjórn bankans víki vegna afglapa í stjórn bankans; afglapa sem bitna nú hart á landi og þjóð.

Lára Hanna Einarsdóttir sagði í hnotskurn það sem ég tel að meirihluti almennings sé henni sammála um.

Ég dáist að vinkonu minni.


Er ekkert lát á spillingunni?

Skoðið þessa færslu Láru Hönnu Einarsdóttur. Er virkilega ekkert lát á spillingunni?

 http://www.larahanna.blog.is/blog/larahanna/

 


Er honum treystandi?

Einu sinni átti ég samskipti við Árna Mathiesen sem ég gleymi seint. Hann var gestur á fundi um  tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Þar voru sýnd myndskeið frá nokkrum aðilum sem slösuðu sig lífshættulega á brautinni áður en hún var tvöfölduð. Þegar myndirnar birtust, stóð Árni á fætur og strunsaði út með þeim orðum að það væri ekki við hæfi að fjalla um tilfinningamál á þessum fundi!

Ég sat við hlið vinkonu minnar sem var lömuð fyrir neðan mitti eftir alvarlegt umferðarslys í Kúagerði. Eftir þessi samskipti mín við Árna (en á milli okkar fóru nokkur miður falleg orð) hef ég ekki haft mikla trú á þessum dýralækni sem nú er að sýsla með viðkvæm málefni í útlöndum á sviði fjármála.

Er þessum manni treystandi til þess að ræða um efnahagsmál í útlöndum? Er ekki kominn tími á að til vandasamra verka í þágu lands og þjóðar séu veldir menn á faglegum nótum; menn sem eru stafi sínu vaxnir.

Dæmi hver fyrir sig.


mbl.is Fundað stíft með IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk er mjög reitt.

Ég var að enda við að tala við vinkonu mína sem á ungan námsmann í útlöndum sem ekki á fyrir mat og húsaleigu. Hún hafði eðlilega áhyggjur af barninu sínu og spurði mig hvort ég þekkti einhvern í nágrenninu sem gæti hjálpað til, þ.e. skotið skjólshúsi yfir barnið hennar og gefið því að borða þangað til íslensum stjórnvöldum þóknaðist að opna fyrir gjaldeyrismillifærslur. Sjálf var þessi vinkona mín fyrirhyggjusöm og stofnaði gjaldeyrisreikning fyrir nokkrum árum sem hún lagði reglulega inná til þess að geta hjálpað börnum sínum í námi erlendis. Nú ætlaði hún að vitja peninga sinna, þ.e. taka út til þess að senda til útlanda, en fékk synjun. Það var ekki eins og hún væri að biðja um gjaldeyri úr gjaldeyrissjóði landsins - ó nei, þetta var hennar eigin gjaldeyrir sem hún fékk ekki að nálgast! Hvað er að gerast í þessu landi? Vinir mínir margir hverjir hafa glatað öllum sínum sparnaði; sumir mörgum milljónum.  Þessi góða vinkona mín átti svolítinn aur í upphafi vikunnar og leitaði ráða hjá ráðgjafa Kaupþings um hvernig hún ætti að geyma þá. Svarið var: "Fjárfestu í Glitni. Nú er lag þar sem ríkið var að kaupa meirihluta í bankanum  og hlutabréfin eru í lágmarki. Allt er á uppleið í Glitni." Allir vita hvað síðan hefur gerst. Þessir peningar eru tapaðir.

Mikil örvænting er víða meðal venjulegs fjölskyldufólks sem hefur glatað öllum sínum sparnaði auk þess sem atvinna þess er ótrygg. Sumir bíða uppsagnarbréfs ofan á glataðan sparnað og ört hækkandi húsnæðis- og bílalán.

Um leið og allt þetta gerist heyrist ekki orð frá stjórnvöldum um hvort, og þá hvernig, kalla á þá til ábyrgðar sem "stolið" hafa eigum almennings og komið þeim fyrir í útlöndum. Ég hefi fyrir satt að margir þessara "ræningja" lifi nú praktuglega í vellystingum í útlöndum; sitjandi á digrum sjóðum sem þeir hafa vélað út úr íslenska bankakerfinu.

Vinir mínir og aðrir rétt hugsandi Íslendingar vilja sjá réttlætinu framfylgt; að þessir menn sæti ábyrgð fyrir gjörðir sínar. Sumir eru reyndar svo ráðvilltir að þeir vona að þetta sé vondur draumur sem þeir vakna upp af einn góðan veðurdag. Þeir eru reiðir og sárir og vanmáttugir.

Margir vita ekki hverju, eða hverjum, þeir eiga að trúa. Svo lengi og svo oft hefur verið logið að þeim.

Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að kalla menn til ábyrgðar - þó ekki væri nema til þess að róa fólk. Það er nefnilega til svo lítils að taka þátt í í byggja eitthvað upp með blóði, svita og tárum á meðan ekki er blakað við þeim sem hörmungunum ollu. Fólk stendur vissulega saman og faðmar hvert annað - en hvaða kröfur er hægt að gera til þeirra sem sjá ekki til sólar?


Þjóðnýtum kvótann.

Væri ekki lag, nú á þessum síðustu og verstu tímum, að þjóðnýta fiskveiðikvótann? Ef stjórnvöld geta þjóðnýtt fjármálastofnanir í almannaþágu, finnst mér alveg koma til greina að þjóðnýta fiskveiðiheimildirnar og nýta þá óvefengjanlegu auðlind í þágu almennings. Varla þarf að fara mörgum orðum um þá kvótakónga sem eignast hafa stóran hluta fiskveiðiheimildanna braskað með hann í eigin þágu. Fjármagnið hefur fráleitt skilað sér inn í þjóðarbúið. Nú er lag.

Foreldrar unglinga verða að bera saman bækur sínar.

Þetta er annað tilfellið á aðeins örfáum dögum sem ég frétti af réttindalausum unglingum undir stýri. Í fyrra tilfellinu var um að ræða 16 ára ungling sem fékk bíl vinar síns lánaðan og ók um höfuðborgarsvæðið, aðfararnótt laugardags, án afskipta lögreglu. Það vildi svo til að ég er tengd unglingi sem var farþegi í þessum bíl. Ég komst að þessu fyrir tilviljun og hafði þegar samband við foreldra drengsins sem komu alveg af fjöllum og höfðu ekki hugmynd um þetta. Drengurinn hafði farið að sofa á eðlilegum tíma en síðan læðst út í skjóli nætur og gert þetta.

Foreldrarnir þökkuðu mér kærlega fyrir að hafa látið vita og ætluðu að taka á málinu. Þetta er aðeins eitt af mörgum dæmum. Í sumum tilfellum taka börnin bíla foreldra sinna og aka þeim á meðan foreldrarnir eru fjarverandi; t.d. í sumarbústað eða erlendis.

Besta forvörnin er þegar foreldrar tala saman um útivistartíma barna sinna og bera saman bækur sínar um samskipti barna þeirra á hinum ýmsu sviðum. Þannig er ljóst að börnin geta ekki skrökvað til um hvað vinurinn eða vinkona má, eða má ekki. Þegar foreldrar ræða saman kemur ýmislegt í ljós sem ekki passar alveg við það sem unglingurinn sagði.


mbl.is Réttindalaus olli umferðaróhappi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hausið oft erfitt.

Er slysatíðnin á uppleið aftur? Þetta gerist því miður oft á haustin; alvarleg umferðarslys verða oft á þessum árstíma þegar flestir eru farnir að slaka á eftir sumarið. September og október hafa oft skilið eftir sig hörmungar í umferðinni. Þetta er annað alvarlega slysið sem ég man eftir í fljótu bragði sem verður innan höfuðborgarsvæðisins en bæði þessi slys urðu að nóttu til og á götum sem eru með 60-80 km. hámarkshraða. Af lýsingum af slystað má ætla að um of hraðan akstur hafi verið að ræða - án þess að nokkuð verði fullyrt þar um. Það leiðir hugann enn og aftur að löggæslumálum á höfuðborgarsvæðinu; þ.e. umferðarlöggæslunni. Fyrir 14 árum, þegar ég var að leysa af í umferðardeild Lögreglunnar í Reykjavík, var það nánast fastur liður um helgar að halda uppi öflugu umferðareftirliti um helgarnætur og stöðva nánast hvern bíl sem ekið var um helstu umferðaræðar borgarinnar. Ég hef sjálf oft verið á ferðinni á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, þegar reynslan sýnir að flestir eru að aka undir áhrifum áfengis og of hratt, en sjaldan sé ég lögreglubíla á leið minni. Stundum, en alltof sjaldan.

Vonandi komst þessir einstaklingar til heilsu á ný. Í gær ók ég Suðurlandsveginn og sá töluna 10 á skúlptúrnum á Hellisheiðinni; þ.e. 10 einstaklingar eru látnir í umferðinni á þessu ári. Það er undir meðallagi dauðsfalla í umferðinni en segir þó fráleitt alla söguna um alvarleika umferðarslysanna - því mörg slysin skilja eftir sig örkuml og alvarlega áverka sem hafa mikil áhrif á lífsafkomu og lífsgæði fólks; oftast ungs fólks.

 


mbl.is Alvarlega slasaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki rétt að auglýsa stöður fleiri embættismanna?

Sumir embættismenn, sem heyra undir dómsmálaráðuneytið, hafa setið í áraraðir. Væri ekki rétt að auglýsa stöðu Ríkislögreglustjóra þegar þar að kemur? Eða hefur Haraldur Johannessen staðið sig svo afburðavel í starfi? Ef það yrði gert, geri ég ráð fyrir að ráðherra dómsmála myndi færa fyrir því skýr og efnisleg rök, rétt eins og hann gerði þegar starf Jóhanns var auglýst. Hvað sjáum hvað setur.

 

 


mbl.is Björn segir að fylla þurfi skörðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmt að missa Jóhann Benediktsson.

Ég horfði með athygli á Kastljós í kvöld þar sem rætt var við fráfarandi lögreglustjóra á Suðurnesjum. Það er mikill missir af þeim manni en flstir eru sammála um að hann hafi staðið sig afar vel í starfi. Í viðtalinu kom fram sú skoðun hans að nýta mætti sérsveit Ríkislögreglustjóra betur ef hún yrði sett undir Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að áherslur í löggæslumálum væru ekki almenningi í hag. Ég er hjartanlega sammála Jóhanni um að of lítil áhersla sé á nærlöggæslu, eins og hann orðar það en þess meiri áhersla lögð á varnir gegn ógn sem er hverfandi lítil. Um það vitnar stærð sérsveitarinnar sem ætlað er að fást við verkefni eins og hryðjuverkaárásir, gíslatöku o.s.fr. Mér skilst að um 60 vel þjálfaðir lögreglumenn skipi þá sveit sem virðist ekki sinna öðrum löggæsluverkefnum að neinu gagni. Hin almenna lögregla í landinu líður fyrir fjársvelti og þar sem skort á mannafla til þess að halda uppi nauðsynlegu eftirliti á meðan sérsveitin fær mun meira fjármagn til ráðstöfunar.

Það er athyglisvert í ljósi þess að árlega deyja 25 manns af völdum umferðarslysa og fjöldinn allur slasast alvarlega - bæði í umferðinni og af völdum ofbeldismanna. Mér er ekki kunnugt um að neinn hafi slasast eða látist af völdum hryðjuverka eða annarra þeirra afbrota sem sérsveitinni er ætlað að takast á við.

Jóhann Benediktsson vildi taka til hendinni í löggæslumálum í sínu umdæmi og talaði tæpitungulaust um fjárskortinn sem embætti hans varð að búa við. Fyrir það virðist hann þurfa að gjalda.

Það er sannarlega ekki skortur á peningum eða mannskap til að sinna löggæslumálum í landinu. Það þarf aðeins að forgangsraða verkefnum og stokka upp í löggæslumálum hér á landi. Mér virðist því sem sendiboðinn hafi verið tekinn af lífi í stað þess að taka mark á skilaboðunum.


mbl.is Ósáttir við ákvörðun dómsmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skoðanir mínar

Höfundur

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
Ragnheiður Davíðsdóttir er starfandi blaðamaður og háskólanemi, móðir tveggja sona og amma fjögurra barna.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • bidoogeg
  • bidoogeg
  • trautir
  • trautir
  • bruda-hond

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband